Magnús Geir Eyjólfsson

Magnús Geir Eyjólfsson 

Magnús Geir Eyjólfsson er kylfingur vikunnar að þessu sinni. Magnús Geir er fæddur í Borgarnesi árið 1980 en hann er ritstjóri fréttavefsins Eyjan.is. Magnús hóf að leika golf fyrir alvöru þegar hann var í námi í Japan en hann telur sig hafa farið holu í höggi á frekar skrautlegum golfferli. Kylfingur.is fékk Magnús til þess að svara nokkrum laufléttum spurningum.  

Hvenær byrjaðir þú í golfi og hvers vegna?
Ég byrjaði fyrir alvöru þegar ég var í námi í Tókýó. Þá bjó ég við hliðina á "driving range" og kíkti reglulega þegar ég hafði lítið að gera. Það fikt þróaðist síðar út í fíkn.

Hefur þú verið í öðrum íþróttum?
Ég var í fótbolta og körfubolta með Skallagrími á yngri árum og hélt áfram í fótboltanum eitthvað fram yfir tvítugt. Sá ferill er hins vegar lítt eftirminnilegur. Ég reyni samt að halda lífi í honum með heldri manna liði Þróttar.

Helstu afrek í golfinu?
Ég man ekki eftir neinu sem getur talist til afreka.

Hvað er það neyðarlegasta sem komið hefur fyrir þig á golfvellinum?
Að tapa fyrir vini mínum Emil Sigurðssyni í holukeppni á Hamarsvelli eftir að hafa verið 4 yfir eftir 9 holur. Eftir þetta var "Eyjólfsson syndrom" meitlað í orðabók, í merkingunni að skíta upp á bak í vænlegri stöðu. Ég íhugaði alvarlega að hætta á þessum tímapunkti.

Hver er þinn helsti styrkleiki og veikleiki í golfi?
Dræverinn er eina kylfan sem ég get reitt mig á úti á velli. Óstöðugleikinn er hins vegar mitt aðalsmerki.

Hverjir eru uppáhalds kylfingarnir?
Ég hef alltaf verið Sergio Garcia maður. Endurspeglar þau lið sem ég held með í boltanum, glæsilegur á velli, oft nálægt því að vinna en gerist aldrei.

Hefur þú farið holu í höggi eða verið nálægt því? 
Já og nei. Ég hef nokkrum sinnum náð innan við metrann og þannig verið nálægt löglegu höggi. Ég lenti hins vegar í því að sneiða boltann illilega á 11. holu í Borgarnesi - í mótvindi - og það vildi svo heppilega til að hann lenti beint ofan í holunni á þeirri 12. Einhverjir reglukallar vilja hins vegar meina að það telji ekki, þrátt fyrir ítrekaðar kröfur mínar um annað.

Hver er „frægasti“ kylfingurinn sem þú hefur leikið með?
Ég spilaði einu sinni með Adolfi Inga á Media Masters. Hef ekki hætt að segja "fokkin´ A" síðan.

Hver er besti kylfingurinn sem þú hefur leikið með?
Liðsfélagarnir í Spöðunum eiga allir sín augnablik.Hvaða keppnisfyrirkomulag er skemmtilegast í golfi og hvers vegna?
Holukeppnin hentar best, sökum óstöðugleika.

Hvaða kylfingar munu standa upp úr á árinu 2013 í atvinnugolfinu erlendis?
Justin Rose virðist vera í miklu stuði þetta árið. Svo vona ég að Louis Oosthuizen eigi gott ár, það er alltaf jafn gaman að heyra íþróttafréttamenn reyna að bera nafnið hans.

Ertu hjátrúarfull/ur hvað varðar golf?
Nei, ég þyrfti kannski að fara að taka það upp í veikri von um árangur.

Hvert er uppáhaldshöggið í golfi?
Það jafnast ekkert við að horfa á eftir góðu drævi.

Besti golfvöllur sem þú hefur leikið á?
Windsor í Japan er magnaður.

Hvað finnst þér skemmtilegast og leiðinlegast við golf?
Það er alltaf skemmtilegt að bæta sig en félagsskapurinn er að sjálfsögðu númer eitt. Mínusinn þetta árið er auðvitað bölvað veðrið.

Hvað er það sem þú þarf mest að bæta í þínum golfleik?
Það er þessi blessaði stöðugleiki sem maður þarf að rækta með sér.

Getur þú sagt okkur frá eftirminnilegri golfsögu af þínum golfferli?
Ég kynntist Bjarna Erni Kærnested í Waseda háskóla í Japan, en þáverandi kærasta hans og núverandi eiginkona, Þóra Eggertsdóttir, er afbragðs kylfingur. Og það varð að sjálfsgöðu úr að við fórum út fyrir borgina í golf þar sem að hún pakkaði okkur undantekningalaust saman.  Í eitthvert skiptið bað maðurinn í afgreiðslunni um að fá að sjá skorkortin okkar eftir leik. Það tók manninn 5 mínútur að trúa því að þessi ljóshærði og smávaxni kvenmaður hafði snýtt okkur og þá loksins sprakk hann úr hlátri. Svo fór hann og náði í fimm starfsmenn til viðbótar til að hlæja að okkur Bjarna. Ég held að það sé mynd af okkur Bjarna á kamrinum þarna úti.Hvaða þrjár golfholur hér á landi eru í sérstöku uppáhaldi?
16. í Borgarnesi, eyjan alræmda, 7. í Kiðjabergi, niður fjallið og 3. á Akranesi sem er virkilega vel heppnuð. Allt krefjandi par 3 holur.

Staðreyndir
Nafn: Magnús Geir Eyjólfsson
Aldur:32 ára
Klúbbur: Golfklúbbur Borgarness

Forgjöf: 21,5 og fer hækkandi.

Fyrirmynd:
Duncan Ferguson.

Masters eða Opna breska?
Það er eitthvað göldrótt við Opna breska. Algjörlega ófyrirsjáanlegt.

Skógarvöllur eða strandvöllur?
Skógarvöllur.

Rory McIlroy eða Adam Scott?
Rory

Uppáhalds matur:
Tapas klikkar sjaldan.

Uppáhalds drykkur:
Það fer eftir tilefninu. Getur verið vatn. Getur líka verið bjór.

Uppáhalds golfhola:
16. hola á Hamarsvelli, eyjan fræga.

Erfiðasta golfholan:
Langáin í Borgarnesi fer alltaf illa með mig. Þar verður mjög líklega reistur minnisvarði um mig á tilteknu svæði utan vallar, svæði sem ég kalla Magnúsarlundur. 1. hola í Brautarholti er líka rugl.

Ég hlusta á:
Þessa stundina er það best of diskurinn með Botnleðju. Jónas Sig, The Strokes, Queens of the Stone Age, Placebo og Muse (gamla efnið) eru þó aldrei langt undan.

Besti völlurinn:
Að sjálfsögðu nefni ég Hamarsvöll í Borgarnesi. En það er ákveðið ævintýri að spila Kiðjabergið.

Besta skor:
NASA er enn að reikna það út.

Besta vefsíðan:
Ég verð náttúrulega rekinn fyrir að segja annað en Eyjan.is.

Besta bókin:
Góði dátinn Svejk kemur manni alltaf í gott skap.

Besta bíómyndin:
Ég get alltaf horft á Lock  Stock og Snatch. Svo klikkar Tarantino aldrei.

Boltinn í pokanum:
Callaway

Kylfur:
Er með allt í Taylor Made nema pútterinn sem er frá Srixon.

Skór:
FootJoy