Ingvar Andri

Ingvar Andri Magnússon 

Ingvar Andri Magnússon er kylfingur vikunnar á kylfingur.is Ingvar Andri átti gott golfsumar en þessi efnilegi kylfingur úr Golfklúbbi Reykjavíkur varð stigameistari í flokki 14 ára og yngri á Íslandsbankamótaröðinni. Ingvar Andri sigraði í Unglingaeinvíginu í Mosfellsbæ og hann varð klúbbmeistari GR í sínum flokki. Kylfingurinn efnilegi er 13 ára gamall og er nú þegar með 4,4 í forgjöf.  Ingvar var 6 ára þegar hann hóf að leika golf og árangurinn hefur ekki látið á sér standa en hann sló m.a. 23 ára gamalt vallarmet Birgis Leifs Hafþórssonar á Hólmsvelli í Leiru í sumar.

Hvenær byrjaðir þú í golfi og hvers vegna?
Ég fékk dótakylfur þegar ég var nokkurra ára gamall og hafði strax mikinn áhuga á golfi. Þegar ég var 6 ára gáfu amma og afi mér 7 járn og pútter og buðu mér með sér á Ljúflinginn. Ég fór svo á nokkur námskeið hjá Pro Golf og þegar ég var 7 ára var ég farin að æfa hjá GR.

Hefur þú verið í öðrum íþróttum?
Já, ég hef verið í handbolta og fótbolta.

Helstu afrek í golfinu?
Árangur sumarsins, sigraði Unglingaeinvígið í Mosó, sló 23 ára gamalt vallarmet Birgis Leifs á Leirunni, varð stigameistari 14 ára og yngri og klúbbmeistari GR í mínum flokki.

Hvað er það neyðarlegasta sem komið hefur fyrir þig á golfvellinum?
Ég hef nú ekki lent í mörgu vandræðalegu en ætli það hafi ekki verið þegar pabbi minn sem er ekki í golfi var að byrja að vera kaddý hjá mér og reif dræverinn upp úr pokanum á stuttum par 3 holum, oftar en einu sinni.

Hver er þinn helsti styrkleiki og veikleiki í golfi?
Minn helsti styrkleiki er slátturinn en ég er frekar högglangur miðað við aldur. Stuttaspilið hefur líka verið gott. Helsti veikleiki seinni parts sumars voru upphafshöggin, þau voru óstöðug.

Hverjir eru uppáhalds kylfingarnir?
Matt Kuchar því hann er alltaf jákvæður og brosandi, einnig Luke Donald en hann er öflugur í stutta spilinu og svo Steve Stricker en hann er frábær með pútterinn.

Hefur þú farið holu í höggi eða verið nálægt því?
Ég hef aldrei farið holu í höggi en hef oft verð nálægt því.

Hver er „frægasti“ kylfingurinn sem þú hefur leikið með?
Sigurður Ragnar Eyjólfsson fyrrverandi landsliðsþjálfi kvenna í knattspyrnu.

Hver er besti kylfingurinn sem þú hefur leikið með?
Stefán Már Stefánsson, frábær kylfingur og skemmtilegur karakter.

Hvaða keppnisfyrirkomulag er skemmtilegast í golfi og hvers vegna?
Höggleikur er skemmtilegastur, maður á alltaf möguleika.

Hvaða íslenski kylfingur er sá besti frá upphafi?
Birgir Leifur Hafþórsson

Ertu hjátrúarfull/ur hvað varðar golf?
Ekkert svo mikið en mér finnst gott að vera með eitthvað lag á heilanum á meðan ég spila til að ofhugsa ekki leikinn en ég á það til.

Hvert er uppáhaldshöggið í golfi?
110 metrar í smá mótvindi með pw.

Eftirminnilegasti golfvöllur sem þú hefur leikið á?
La Monacilla á Spáni

Hvað finnst þér skemmtilegast og leiðinlegast við golf?
Félagsskapurinn og útveran er það skemmtilegasta við golf en svo er líka gaman að glíma við skemmtilega og ólíka velli. Fátt leiðinlegt við golf en það er aldrei gaman að fá sprengjur og þegar leikskipulag gengur ekki upp.

Hvað er það sem þú þarf mest að bæta í þínum golfleik?
Ég þarf að bæta stöðugleikann og hætta að ofhugsa leikinn.

Getur þú sagt okkur frá eftirminnilegri golfsögu af þínum golfferli?
Í sumar spilaði ég á opnu móti í Grafarholtinu, við vorum á 5.teig þegar einn samspilari minn sló teighöggið sitt inn á 6. flöt. Þeir sem voru á 6.flöt héldu að þeir ættu boltann og voru byrjaðir að mæla hann fyrir nándarverðlaunum.

Hvaða þrjár golfholur hér á landi eru í sérstöku uppáhaldi?
Heimavellirnir eru frábærir og 11. holan á Korpunni er í miklu uppáhaldi því það er hægt að taka áhættu og skora vel. Svo er 15. holan á Grafarholtinu ein skemmtilegasta hola sem ég hef spilað. Að lokum er það Bergvíkin á Leirunni, hún er ótrúlega flott og erfið.

Hvaða golfholu myndir þú sprengja í loft upp ef þú gætir?
13. brautin í Grafarholtinu hún er mjög skrýtin.

Staðreyndir

Nafn: Ingvar Andri Magnússon

Aldur: 13 ára

Klúbbur: Golfklúbbur Reykjavíkur

Forgjöf: 4.4

Fyrirmynd: Ben Hogan

Masters eða Opna breska? Masters

Skógarvöllur eða strandvöllur? Skógarvöllur

Uppáhaldslið í enska boltanum? Að sjálfsögðu Manchester United

Jason Dufner eða Ian Poulter? Ian Poulter

Uppáhalds matur: Slátur

Uppáhalds drykkur: Vatn

Uppáhalds golfhola: 7. holan á La Monacilla á Spáni

Erfiðasta golfholan: 5. holan á Matalascanas, löng par 3 þar sem flötin er umkringd vatni.

Ég hlusta á: Popptónlist

Besti völlurinn: La Monacilla á Spáni en á Íslandi er það Korpan

Besta skor: 67 á Leirunni

Besta vefsíðan: Kylfingur.is og flest allar golfsíður.

Besta bókin: The Hobbit

Besta bíómyndin: Allar James Bond og flest allt með Jim Carrey

Boltinn í pokanum: Taylor Made Lethal

Kylfur: Er með bland í pokanum mínum, Cleveland pútter, Mizuno wedga, Mizuno járn, Mizuno hybrid, Exotics 3 tré og Taylor Made driver.

Skór: Footjoy Street