Gunnhildur Kristjánsdóttir

Gunnhildur Kristjánsdóttir 

Gunnhildur Kristjánsdóttir er ein af efnilegustu kylfingum landsins en hún er í Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar. Gunnhildur, sem er 16 ára gömul,  er kylfingur vikunnar og hún svaraði nokkrum laufléttum spurningum sem lagðar voru fyrir hana. Þar kemur m.a. í ljós að þriðja holan á heimavelli hennar er ekki í miklu uppáhaldi frekar en krókódílar – og sykurskert kókómjólk skorar hátt á vinsældalistanum hjá Gunnhildi.

Hvenær byrjaðir þú í golfi og hvers vegna?
Öll fjölskyldan var í golfi svo ég var send á sumarnámskeið þegar ég var 8 ára og var skráð fljótlega eftir það í GKG.

Hefur þú verið í öðrum íþróttum?
Já, þegar ég var lítil æfði ég nánast allar íþróttir, en var þó alltaf mest í fótbolta. Ég hætti í fótbolta þegar ég var 13 ára og byrjaði af fullum krafti í golfi.

Helstu afrek í golfinu?
Ég varð Íslandsmeistari unglinga í fyrra í holukeppni og Íslandsmeistari í sveitakeppni kvenna með GKG núna í ár. Síðan varð ég einnig stigameistari í ár í flokki 17-18 ára.

Hvað er það neyðarlegasta sem komið hefur fyrir þig á golfvellinum?
Þegar ég var 10 ára var ég Spáni með fjölskyldunni í golfferð. Mamma leyfði mér að prufa að keyra golfbílinn en treysti mér ekki til að keyra yfir brú. Þegar við erum komnar yfir tek ég við stýrinu og stíg bensíngjöfina í botn, bíllinn tekur u-beygju. Ég held bensíngjöfinni niðri þangað til að bíllinn endar ofan í skurðinum sem við vorum að enda við að fara yfir. Sem betur fer slasaðist enginn, en ég var þó hrædd við að keyra golfbíl í nokkur ár á eftir.

Hver er þinn helsti styrkleiki og veikleiki í golfi?
Minn helsti styrkleiki eru járnahöggin og það að ég er frekar högglöng. Helsti veikleikinn eru púttin, þó að ég hafi reyndar bætt þau mikið seinasta árið er ennþá hægt að bæta þau talsvert mikið.

Hverjir eru uppáhalds kylfingarnir?
Eins og hjá mörgun er Tiger Woods í miklu uppáhaldi hjá mér.

Hefur þú farið holu í höggi eða verið nálægt því?
Nei því miður, en ég hef nokkrum sinnum verið mjög nálægt því.

Hver er „frægasti“ kylfingurinn sem þú hefur leikið með?
Birgir Leifur Hafþórsson.

Hver er besti kylfingurinn sem þú hefur leikið með? 
Birgir Leifur Hafþórsson. 

Hvaða keppnisfyrirkomulag er skemmtilegast í golfi og hvers vegna?
Holukeppni hefur alltaf verið í uppáhaldi hjá mér. Þar getur allt gerst og oft eru meiri áhættur teknar heldur en í höggleik.

Hvaða íslenski kylfingur er sá besti frá upphafi?
Þeir er margir mjög góðir, en ætli ég verði ekki að segja Birgir Leifur.

Ertu hjátrúarfull/ur hvað varðar golf?
Nei, get ekki sagt það.

Hvert er uppáhaldshöggið í golfi?
Innáhöggin

Eftirminnilegasti golfvöllur sem þú hefur leikið á?
Rotonda Golf á Florida. Þar voru tugir krókódíla og ég treysti mér ekki til þess að klára 18.holur.

Hvað finnst þér skemmtilegast og leiðinlegast við golf?
Skemmtilegast er félagsskapurinn og útiveran. Það er ekkert leiðinlegt við golf, nema helst veðrið í sumar. Skordýrin erlendis geta þó líka verið mjög truflandi.

Hvað er það sem þú þarf mest að bæta í þínum golfleik?
Stutta spilið, en þó aðallega púttin.

Hvaða þrjár golfholur hér á landi eru í sérstöku uppáhaldi?
7. holan á Kiðjabergi, 16. holan í Leirdalnum og 6. holan á Akranesi.

Hvaða golfholu myndir þú sprengja í loft upp ef þú gætir?
3. holan á Leirdalnum. Þetta er falleg hola, en af einhverjum ástæðum þá gengur mér yfirleitt illa á henni.

Staðreyndir

Nafn: Gunnhildur Kristjánsdóttir

Aldur: 16 ára

Klúbbur: Golfklúbbur Kópavogs og Garðabæjar (GKG)

Forgjöf: 2,9

Fyrirmynd:
Pabbi, samt ekki í golfi

Masters eða Opna breska:
Masters

Skógarvöllur eða strandvöllur:
Strandvöllur

Uppáhaldslið í enska boltanum?
Chelsea

Jason Dufner eða Ian Poulter?
Ian Poulter

Uppáhalds matur:
Kjúklingur

Uppáhalds drykkur:
Sykurskert kókómjólk

Uppáhalds golfhola:
13. holan á Kolding Golf Klub

Erfiðasta golfholan:
13. holan á Royal Balaton í Ungverjalandi

Ég hlusta á:
Nánast allt

Besti völlurinn:
Urriðavöllur

Besta skor:
68 (-3) Á St. Sofia vellinum í Búlgaríu

Besta vefsíðan:
Facebook.com og Kylfingur.is

Besta bókin:
Á enga uppáhalds bók

Besta bíómyndin:
Taken

Boltinn í pokanum:
Titleist ProV1

Kylfur:
Titleist driver, TaylorMade RBZ brautartré og hybryd, Mizuno járn, titleist fleygjárn og Scotty Cameron pútter.

Skór:
Ecco og FootJoy