Upplifun að spila í Eyjum

Golfklúbbur Vestmanneyja er þriðji elsti golfklúbbur landsins, stofnaður 1938, næst á eftir Golfklúbbi Reykjavíkur og Golfklúbbi Akureyrar. Völlur Eyjamanna er í Herjólfsdal í hreint stórkostlegu umhverfi og það lætur engan ósnortin að spila þar og það fékk blaðamaður Kylfings.is að reyna á dögunum í blíðskaparveðri. Þó svo að völlurinn skarti ekki sínu besta í upphafi sumar, lofar hann góðu fyrir sumarið. Rigningarleysið að undanförnu gerir það að verkum að brautirnar eru þurrar og flatirnar seinni til en undanfarin ár, miðað við árstíma. Næsta mót á Toyotamótaröðinni verður í Eyjum helgina 11.-12. júní. Þá ætti völlurinn að vera kominn í sín bestu sumarklæði.

Upphaflega voru sex holur innst í Herjólfsdal, en árið 1994 var völlurinn orðinn 18 holur. Í gosinu 1973 þaktist völlurinn vikri og spiluðu Vestmannaeyingar þá golf við Sæfellið/flugvöllinn, en fálagar í GV með góðri aðstoð hreinsuðu vikur af vellinum. Nokkrir golfskálar hafa staðið þar sem núverandi golfskáli er en skáli sá sem nú stendur er viðbygging og var tekinn í notkun árið 2001 og er hinn glæsilegasti.

Hönnun vallarins þykir einkar vel heppnuð, stórbrotið landslag nýtur sín vel og völlurinn fellur vel inn í umhverfið. Fuglalíf setur einnig sterkan svip á völlinn, bæði sjófuglar og mófuglar. Sumstaðar er útsýnið slíkt á teigum að menn hreinlega gleyma því að þeir eru í golfi, setjast niður og njóta náttúrufegurðarinnar.

Félagar í GV eru nú um 300 talsins, þar af eru um 100 börn. Golfvöllurinn í Herjólfsdal hefur í gegnum árin verið eitt vinsælasta aðdráttarafl fyrir ferðamenn yfir sumarmánuðina. Að sögn heimamanna má áætla að árlega komi á annað þúsund manns til Eyja í tengslum við golfið. Mörg stór mót hafa farið fram í Eyjum, en síðustu stórverkefni voru Norðurlandamótið 2000, Íslandsmótið 2003 og Íslandsmót öldunga 2004.

Bygging tækjageymslu

Helstu framkvæmdir á næstunni eru bygging tækjageymslu þar sem klúbburinn er með forina og gáma fyrir tæki í dag. Byggt verður steinsteypt hús sem þakið verður með grasi á öllum hliðum nema framhlið, til þess að húsið falli sem best inn í nánasta umhverfi. Fyrir framan húsið verður malbikað plan sem nýtist sem útisvæði. Fjármagn til stærsta hluta framkvæmdarinnar liggur fyrir bæði með framlagi klúbbsins sjálfs og Vestmannaeyjabæjar. Áætlað er að taka tækjageymsluna í notkun næsta vor. Á næsta ári er stefnt að því að kaupa brautarvél.

Þrír möguleikar eru í samgöngum til Eyja, þ.e. flug frá Reykjavík, flug frá Bakka og sjóleiðina með Herjólfi. GV hefur átt gott samstarf við alla ferðaþjónustuaðila, en misjafnt er hvaða ferðamáti hentar hverju sinni. Ætli menn að dvelja í lengri tíma og hafa með sér bíl taka þeir Herjólf. Vilji menn skjótast ódýrt til Eyja og hafa frjálsræði í ferðatíðni fljúga menn í gegnum Bakka í Landeyjum. Ekki verður farið mörgum orðum um það hversu einfalt flug í gegnum Bakkaflugvöll er, en verð fyrir flug og golf er 6.400 krónur. Fyrirtæki og félagar hafa í auknu mæli nýtt sér þennan ferðamáta, en þess má geta það að það tekur aðeins 5 mínútur að fljúga frá Bakka til Eyja.

Öflugt unglingastarf

GV leggur mikla áherslu á öflugt unglinga- og barnastarf og árlega er golfskóli rekinn á vegum klúbbsins. Þá heldur klúbburinn árlega Golfævintýri GV og Íslandsbanka, sem er golfskóli og ævintýri fyrir börn.
Yfirþjálfari GV er Þorsteinn Hallgrímsson, en umsjónarmaður unglingastarfs er Júlíus Hallgrímsson. Vallarstjóri er Örlygur Helgi Grímsson, sem stóð sig svo vel á fyrsta mótinu á Toyotamótaröðinni á Hellu um liðna helgi.

Helstu verkefni sumarsins hjá GV eru:
11. júní – Toyotamóaröðin, stigamót GSÍ.
27. júní – Golfævintýri Íslandsbanka.
1. júlí - Volcano Open.
12. júlí – Meistaramót GV.
4. ágúst – Íslandsmót unglinga, KB-bankamótaröðin.
25. ágúst – Sveitakeppni eldri kylfinga, 1. deild.

Sjá svipmyndir úr Herjólfdal.

Mynd/Kylfingur.is: Helgi Bragason, formaður GV og Júlíus Hallgrímsson, sem er umsjónarmaður unglingastarfsins í Eyjum.