Þorláksvöllur kominn í 18 holur

Þorláksvöllur er nú orðinn 18 holur, par-72, og er einn lengsti golfvöllur landsins. Hann er 6.233 metrar af hvítum teigum og 6.055 metrar af gulum teigum. Þar eru mjög langar par-5 brautir og sú lengsta af gulum teigum er 557 metrar. 18 holu völlurinn hefur ekki formlega verið opnaður, en spilað hefur verið á honum frá því í vor, svona meira til að sjá hvernig hann kemur út. Þurrviðrið það sem af er sumri hefur einnig sett mark sitt á völlinn. Brautirnar eru flestar harðar og teigar illa farnir.

Að sögn Friðriks Guðmundssonar, formanns golfklúbbs Þorlákshafnar, var ákveðið að opna allar 18 holurnar fyrir umferð í vor þar sem nokkur þrýstingur var frá GR-ingum að gera samning um að þeir fengju að spila völlinn frítt. „Það hefur verið ótrúlega mikil umferð um völlinn, sérstaklega um helgar. Satt að segja áttum við ekki von á því þegar farið var að stað í vor. Það er ljóst að næsta verkefni hjá okkur er að stækka teigana því þeir þola ekki þessa umferð sem verið hefur og eru því margir illa farnir. Flatirnar eru yfirleitt góðar, en brautirnar mættu vera betri. Þurrkarnir að undanförnu hafa gert okkur erfiðara fyrir. Það hefur varla rignt hér í tvo mánuði,“ sagði Friðrik.

Hann sagði að 18 holu völlur þyrfti mikla umhirðu og þeir hefðu einfaldlega ekki haft þann mannskap sem til þarf. Þrír starfsmenn eru á vellinum og er verið að reyna að bæta úr því. Friðrik segir að erfitt sé að eiga við brautir sem liggja á sandi og verða þær líklega ekki komnar í sitt besta form fyrr en eftir eitt til tvö ár.

Um 250 meðlimir eru í Golfklúbbi Þorlákshafnar.

Mynd/Kylfingur.is: Þorláksvöllur er spennandi völlur að spila, enda langur og krefjandi.