Þorláksvöllur í flottu standi en lítið notaður

Þorláksvöllur í Þorlákshöfn er í mjög góðu ásigkomulagi en sennilega einn minnst notaði 18 holu golfvöllur á landinu. Kylfingur.is heimsótti völlinn nýlega og það er skemmst frá því að segja að hann hefur sennilega aldrei verið betri. Flott gras á flötum og ástand allt hið besta. En það voru fáir að spila þrátt fyrir gott veður.

Völlurinn hefur á undanförnum árum fengið þó nokkuð af heimsóknum meðal annars í gegnum vinasamning við Golfklúbb Reykjavíkur. Það sem virðist vera ástæðan fyrir of litlum vinsældum er sennilega erfiðleikastuðull Þorláksvallar. Nokkrar brautir eru mjög erfiðar og einnig langar. Þar má nefna upphafsbrautirnar tvær, 1. og 2. sem eru kannski ekki langar en mjög þröngar, sérstaklega önnur. Þá eru þær brautir meira sendnar og erfiðara fyrir marga að slá á þeim. Fyrsta brautin fékk nokkur tonn af sandi í vor og skemmdi það hana nokkuð. Þá má nefna 4. brautina sem er mjög löng par 5 og ekki má gleyma 13. og 14.

Það væri líklega ráðlegt ef heimamenn vilja fá fleiri heimsóknir að stytta völlinn um nokkur hundruð metra. En þetta er alvöru strandvöllur, sennilega sá mesti á landinu og minnir mann virkilega á „linksara“ í Bretlandi. En hann er svo lítið notaður að þegar við lékum hann í byrjun ágúst þá héldum við að það væru nýir teigar á mörgum stöðum. Það á þó kannski sérstaklega við hvítu teigana.

Glompur hafa ekki sést á Þorláksvelli en nú er komin ein nokkuð glæsileg á miðja 10. brautina. Hún er með svörtum sandi. Kannski hefur hugmyndin komið frá þeim höfðu í hyggju að byggja Black Sand nokkur hundruð metra frá Þorláksvelli með teikningu frá Nick Faldo. Þar áttu allar glompur að vera með svörtum sandi, sem nóg er af í umhverfinu þarna.

Völlurinn hefur þroskast og gróið mikið á undanförnum árum og er mjög flottur. Margar flottar golfbrautir. Par 3 brautirnar 6. og 16. eru mjög góðar. Sjöunda er virkilega skosk og sama má segja um hina erfiðu 13. Níunda og 17. eru stuttar en með vatnstorfærum. Báðar góðar.

Það er ekki hægt annað en að hvetja kylfinga til að heimsækja hinn krefjandi Þorláksvöll þó svo að líkurnar á því að setja ný met séu ekki miklar.

Hér sést yfir 1. braut til hægri og þá 10. til vinstri. Unnið er að viðgerð á skemmdum parti á fyrstu brautinni.

Þriðja brautin, lúmsk par 3.

Sjötta brautin er flott par 3.

Slegið á 6. teig.

Útsýnið er fallegt frá Þorláksvelli.

Níunda brautin er stutt par 4 braut en það eru hættur beggja vegna.

Vinstra megin sést í 18. og 9. flöt.