Selsvöllur tilvalinn í að fullkomna járnahöggin

Golfklúbburinn Flúðir fagnar aldarfjórðungsafmæli sínu á þessu ári og fagnaði því með pompi og prakt fyrir skemmstu. Þrátt fyrir að vera hefðbundin sveitaklúbbur, þar sem félagatala er töluvert minni en hjá stóru klúbbunum á höfuðborgarsvæðinu, þá býr mikill metnaður meðal meðlima í GF og sést það helst á þeim glæsilega golfvelli sem klúbburinn hefur yfir að ráða.

Selsvöllur er ólíkur flestum öðrum golfvöllum landsins og ættu þeir kylfingar sem stefna á golfferð erlendis í haust að hafa þennan skemmtilega völl í huga sem undirbúning fyrir ferðina. Skógrækt á vellinum er í miklum blóma sem þrengir brautir vallarins til mikilla muna. Það er algjört lykilatriði að vera á braut ef skora á völlinn vel.

Komust langt á bjartsýninni

Þetta hafa verið frábær 25 ár. Við höfum lagt mikið á okkur enda sést það vel á vellinum,“ segir Karl Gunnlaugsson, sem hefur verið formaður GF allt frá stofnun eða í aldarfjórðung. „Ég skil varla hvernig okkur tókst að búa til 18 holu golfvöll hérna. Við fórum ansi langt á bjartsýninni.“

Völlurinn virkar nokkuð auðveldur við fyrstu sýn. Völlurinn er í styttri kantinum, er aðeins 5061 metri af gulum teigum og möguleiki fyrir hendi að slá inn að flöt úr upphafshögginu á nokkrum brautum. Völlurinn er hins var gríðarlega fljótur að refsa enda eru brautirnar umkringdar trjám sem búa til mikla hættur fyrir kylfinga sem eru óstöðugir á teig.

Litlar flatir en alltaf logn

Staðsetning vallarins er á nokkru flatlendi og því er ekki mikið landslag í vellinum eins og í mörgum golfvöllum landsins. Flatirnar eru margar mjög litlar og það getur verið nákvæmisverk að koma boltanum nálægt holunni. Hægstætt veðurfar á Flúðum bætir hins vegar upp fyrir margt því lítill vindur hefur verið einkennismerki Selsvallar á Flúðum til margra ára.

Það er nokkrar skemmtilegar brautir á Selsvelli sem rétt er að gefa frekari gaum. 6.brautin er afar skemmtileg því slegið er af teig á nokkurri hæð og er mikið útsýni yfir völlinn. 12. brautin er einnig skemmtileg að því leyti að hægt er að reyna við flötina af teig þó áhættan sé mikil. Að lokum er 15. holan afar skemmtileg par-5 hola þar sem hægt er að reyna að ná fugli. Tré í miðri glompu við flötina setur skemmtilegan svip á brautina.

Járnahöggin skipta sköpum

Í hnotskurn eru það járnahöggin sem munu skipta sköpum á Selsvelli. Kylfingar sem finna sig ekki með drævernum ættu að setja hann í pokann og geyma hann þar út hringinn því vel er hægt að komast upp með að leika með járnum af teig. Kylfingum sem hitta ekki brautirnar er hratt refsað og því tilvalið að taka jafnvel 5-járn af teig og reyna að koma sér í þægilega fjarlægð frá flöt.

Það er ákveðin upplifun að leika í því skógarumhverfi sem Selsvöllur hefur upp á að bjóða og ekki laust við að tilhugsun um erlenda golfvelli komi upp í hugann. Á Selsvelli læra kylfingar hvernig á að leika öruggt golf þar sem markmiðið er að hitta brautina en ekki að reyna að slá eins langt og mögulegt er af hverjum teig. Að lokum ættu allir kylfingar að fá sér ljúfenga Pizzu í golfskálanum sem eru í einu orði sagt frábærar.

Myndir/Kylfingur.is


Þessi sakleysislegi skurður á 7. braut dregur til sín marga bolta.


Fimmta brautin er ekki nema um 200 metra löng og er slegið inn á flöt sem gnæfir yfir brautina.


Margir högglangir kylfingar reyna að slá inn á flöt úr teighögginu á 12. braut. Tré og glompa taka hins vegar marga bolta í sína vörslu.


Slegið er yfir þennan læk af 13. teig og skiptir öllu máli að hitta brautina.


Þó að glompan sé ekki djúp þá er örugglega ekki gaman að lenda fyrir aftan þetta tré. Það eru ekki margir golfvellir á landinu sem hafa tré í miðri glompu.


Golfskálinn á Flúðum sem Kaffi Sel rekur með miklum myndarskap.