Providence í Orlando

Flottur völlur og fínar aðstæður

Íslendingar hafa sótt mikið til Orlando í Bandaríkjunum undanfarin ár enda hafa aðstæður verið hagstæðar, sterk króna, beint flug með Icelandair og gríðarlega fjölbreytt golfsvæði og margir golfvellir. Kylfingur.is fékk tækifæri á að skoða nýlegt golfsvæði sem heitir Providence en það er staðsett í Davenport, suðvestur af Orlando og um fimmtán mínútna akstursfjarlægð frá Disney görðunum.


Providence golfvöllurinn var opnaður fyrir þremur árum síðan og er mjög flottur. Hann komst á topp 50 listann hjá tímaritinu Golfweek yfir bestu nýju vellina í Bandaríkjunum árið 2007.
Á klúbbteigum er hann hæfilega langur en þeir sem vilja meiri ögrun í sitt golf þá er hægt að fara á lengri teiga. Völlurinn er par 72, 6300 metrar af öftustu teigum og 5700 metrar á næst öftustu og með góðri blöndu af par 3, 4 og 5 brautum. Bestu brautirnar fannst okkur 6., 7. og 8. Sú sjötta er reyndar erfiðasta holan á vellinum með forgjafarnúmer 1 en sú sjöunda er leikin í hundslöpp (dogleg) frá vinstri til hægri meðfram stórri tjörn sem truflar mann í upphafshögginu af teignum sem stendur mun hærra en brautin. Áttunda brautin er stutt par 3, um 130 metrar og mjög falleg.

Seinni hringurinn er skemmtilegri þó ekki sé hægt að kvarta yfir þeim fyrri, síður en svo. Ellefta brautin er par 3 er mjög falleg, á eftir henni koma góðar par 5 og par 4 brautir. Fimmtánda er ein flottasta brautin á vellinum, par 5. Flötin stendur mun hærra en brautin með tjörn fyrir framan til vinstri og eikartré trufla innáhöggið.
Yfirleitt gefa par 5 brautirnar meiri möguleika á fugli en nokkrar par 4 brautirnar eru fullorðins á aftari teigunum en við lékum völlinn á næst öftustu teigum. Landið var fyrir öldum síðan bara sjór og strönd og þessi völlur er frábrugðinn mörgum týpiskum Flórídavöllum hvað það varðar því hann er ekki marflatur. Dýralíf er fjölskrúðugt við völlinn og nokkur svæði á honum sem eru vernduð. Krókódílar (aligators) eru í mörgum vötnum sem ná allt að 3 metra lengd. Fuglar af hinum ýmsu tegundum þrífast vel á svæðinu enda nóg að bíta og brenna fyrir þá, við sáum litla og marga stóra, m.a. villta kalkúna, halló!

Við völlinn er glæsileg aðstoða, flott klúbbhús með góðri veitingasölu, fínni golfverslun og æfingaaðstaðan fyrir utan er fyrsta flokks. Púttflöt og æfingasvæðið þar sem maður getur tekið eina fötu fyrir hring er alveg við 1. teiginn. Sem sagt; allt við hendina og golfbíllinn aldrei langt undan.


Kylfingar ánægðir með völlinn
„Þetta hefur gengið vel allt frá opnun. Kylfingar sem koma hingað eru ánægðir með völlinn og aðstæður hérna,“ sagði Kim Robert O’Neill, aðal golfkennari Providence golfklúbbsins.
„Traffíkin á völlinn hefur verið nokkuð mikil í vetur. Janúar var þó mun rólegri en við áttum von á en febrúar, mars og apríl mun betur bókaðir. Hér eru fæstir um 80 manns á dag en allt upp í 250 manns. Þetta eru mest Bandaríkjamenn en þó koma hingað einnig kylfingar frá öðrum löndum, Bretlandi og jú, Íslandi. Þið hljótið að njóta þess að vera hér í sólinni, er það ekki?“
Kim sagði að völlurinn hafi fengið góða umsögn. Hann væri sanngjarn, ekki mjög þröngur en fjölbreyttur. Flatirnar leyna á sér, þær eru alltaf mjög góðar en liturinn á brautunum er aðeins daufari eða gulari í vetur en verða grænni í sumar. Vallarstjórinn ákvað að bera ekki áburð á þær í vetur en þá verða þær aðeins harðari og með meiri „links“-tilfinningu,“ sagði Kim.

Glæsileg húsakynni
Margir Íslendingar hafa á undanförnum árum keypt íbúð eða hús í Flórída og einna þekktast er Ventura-svæðið en þar eiga tugir fjölskyldna húsakynni sem þau sækja allt áríð um kring en þó mest um veturinn.
Í Providence er fjölbreytt húsa og íbúða til sölu og leigu og ritstjóri Golfs á Íslandi gisti í vetur í veglegu húsi sem er í eigu tveggja íslenskra fjölskyldna. (sjá www.orlandogolf.is). Húsið er stórt og getur hýst 9 manns. Í því eru 4 svefnherbergi, sundlaug og heitur pottur og í raun allt til alls, m.a. billiardborð og fleiri leiktæki í bílskúrnum.
Húsið er í nýlegu hverfi við Providence golfvöllinn, um 5 mínútna göngufæri frá 1. teig og klúbbhúsi. Stór kostur við Providence er að golf fyrir allt að 9 manns í húsi fylgja í leigunni. Nú í kreppunni munar um það. Aðeins er greitt fyrir notkun á golfbíl, 20 dollara á mann. Það gerist varla betra. Í samtali við fasteignasölumenn á svæðinu segiast þeir hafa fundið fyrir kreppunni en þeir bjóða núna líka hagstæð kaup á svokölluðu „time share“ í Providence en þá kaupir maður bara einn mánuð í húsi á ári og getur valið úr fleiri svæðum. Auðvitað er svo hægt að kaupa húseignir að fullu.
Fyrir þá sem gista í Providence þá er stutt í stóra matvöruverslun, veitingastaði og aðra þjónustu. Dinsney’s Celebration town er svæði með verslunum, skemmtilegum veitingastöðum, skammt frá Providence svæðinu sem hiklaust má mæla með.

Mikið úrval golfvalla í Orlando
Í Orlando er gríðarlegt magn golfvalla og hótela en í ferð okkar til Providence lékum við á þremur öðrum völlum, Reunion, Celebration og Ventura.
Ginn Reunion resort er glæsilegt svæði með þremur golfvöllum hönnuðum af Arnold Palmer, Tom Watson og Jack Nicklaus auk þess að vera með golfakademíu Anniku Sörenstam. Ekki amalegt að vera með fjögur heimsþekkt nöfn undir einum hatti. Reunion er skammt frá Providence svæðinu og aðeins um 10 mín. akstur þangað. Við lékum Palmer völlinn og hann er mjög skemmtilegur og aðstaðan öll á svæðinu til fyrirmyndar. Ginn nafnið mun þó vera í einhverri upplausn því fyrirtækið fór á hausinn í vetur og Ginn mót atvinnukvenna í vetur fór ekki fram. Forráðamenn vallarins sem við hittum sögðu að Ginn fyrirtækið hafi haft um fimmtán golfsvæði á sínum snærum en nú væri búið að koma eignarhaldi þeirra niður á fleiri aðila sem tryggði áframhaldandi rekstur. Á svæðinu er mjög hátt þjónustustig, í golfbílum er m.a. gps fjarlægðamælir sem sýnir lengd að flöt frá bílnum. Það er mjög þægilegt. Innifalið í flatargjaldi eru æfingaboltar og æfingasvæðið er flott og góðir golfkennarar undir merkjum sænsku golfstjörnunnar sem nú hefur lagt keppnisskóna á hilluna.

Celebration er einnig skammt frá Providence og þar er mjög skemmtilegur 18 holu völlur. Æfingasvæðið þar kom okkur á óvart þar sem slegið er á litlar flatir sem eru staðsettar úti í vatni. Brautirnar voru mýkri en á hinum völlunum sem við lékum og þær voru fjölbreyttar og lengdin viðráðanleg. Þar var hægt að fá góð tilboð á vallargjöldum með því að panta á golfvefnum www.golfnow.com/orlando.

Ventura er svæði sem hýsir marga Íslendinga og þar er ágætur golfvöllur, ekki kannski í sama gæðaflokki og margir aðrir í Orlando en þó mjög fínn. Hann er ekki mjög langur en þegar við lékum hann í lok mars voru flatirnar í góðu ásigkomulagi og umhirðan til fyrirmyndar. Þarna er algengara að hitta islenska kylfinga en á flestum öðrum golfsvæðum í Flórída. Flatargjaldið er líka með því ódýrasta sem þekkist eða innan við 40 dollarar fyrir 18 holu hring og golfbíl.