Öndverðarnesið í 18 holur

Framkvæmdir standa yfir við stækkun Öndverðarnesvallar í 18 holur. Hafist var handa við framkvæmdir síðastliðið haust og nú í sumar var sáð í 8 brautir á vellinum og í byrjun vikunnar voru 8 nýjar flatir tyrfðar. Notað var sérræktað flatagras frá Gunnarshólma - grasavinafélagi.

"Stækkunin liggur að hluta til á mýrlendi og hluta til í mosavöxnu hrauni. Stækkunin er hönnuð í takt við þær 9 holur sem fyrir eru á vellinum, þ.e. að heildarlengd vallarins sé þægileg fyrir meðalkylfinginn þannig að allir ættu að hafa ánægju af leiknum. Stækkunin samanstendur af tveimur par-5 holum, þremur par-3 holum og fjórum par-4 holum - samtals af gulum teigum um 2.630 metrar að lengd," segir Margeir Vilhjálmsson hönnuður vallarins.

Mikil gróska er í golfvallamálum fyrir austan fjall. Kiðjabergsvöllur var stækkaður í 18 holur fyrir 2 árum, nýr völlur hefur verið byggður við Geysi í Haukadal, framkvæmdir við 18 holu völl standa yfir við Minni Borg. Nægt val verður því fyrir kylfinga á næstu árum á þessu svæði, enda um eitt stærsta sumarbústaðasvæði landsins að ræða.

Mynd: Á erfi myndinni má sjá yfir yfir 14. og 15. flöt. 14. brautin verður glæsileg par-4 hola sem liggur í sveig frá vinstri til hægri. 15. brautin er stutt par-3 hola, með vatni beint fyrir framan flötina. Á neðri myndinni er 16. flöt, brautin er par-5, sem liggur í sveig frá hægri til vinstri. Mikið landslag er í flötinni, sem er á þremur pöllum.