Oberneuland í Bremen

Fjölbreytt golf og skemmtileg menning í Bremen

Bremen í Þýskalandi er ekki fyrsta borgin sem kemur upp í huga kylfinga sem hyggja á landvinninga í golfíþróttinni en framboð golfvalla í þýsku borginni kemur á óvart.

Bremen er fimm hundruð þúsund manna hafnarborg við ána Weser rétt sunnan við óshólmana í Norðursjó, í Norðvestur-Þýskalandi. Systurborgin, Bremerhaven, liggur frá henni í norðaustur og hana þekkja margir Íslendingar enda hafa ófá skipin siglt með fisk þangað í gegnum árin. Ekki er líklegt að íslenskir kylfingar fari sjóleiðina til Bremen í golf en þangað kemst maður flugleiðina á þægilegan hátt t.d. í gegnum Kaupmannahöfn.

Golf á Íslandi heimsótti í sumar einn besta völlinn í Bremen en hann heitir Golfclub Oberneuland. Í borginni eru auk hans sex aðrir 18 holu golfvellir og eitt stórt æfingasvæði með 9 holu golfvelli.


Sjö golfvellir og eitt stór æfingasvæði er í Bremen.

Oberneuland er alvöru skógarvöllur, ekki víður til veggja eins og sagt er því hver einasta braut liggur á milli trjáa og því mikilvægt að upphafshöggin séu í nákvæmari kantinum. Völlurinn er ekki mjög langur eða 5699 metrar af karlateigum en 5065 metrar af kvennateigum. Mörgum þykir þessi fjöldi golfmetra þó alveg nógur. Parið er 71 hjá körlum en 73 hjá konum.

Þriðja brautin er sú erfiðasta en jafnframt sú fallegasta á Oberneuland vellinum, 365 metrar og liggur í smá sveigju eða hundslöpp til hægri. Á miðri brautinni er stórt eikartré sem hefur áhrif á sálarlíf kylfingsins á teig, flestra alla vega. Þjóðverjarnir eru ekkert að grínast í upphafi vallarins því fyrstu tvær brautirnar eru ekki léttar par 5 og par 4 en þegar maður kemur á teig á 4. braut tekur við 190 metra löng par 3 braut. Hér hefðu Oberneuland kappar mátt slaka á því byrjunin á vellinum er strembin og fjórða brautin gefur ekkert eftir og er ein erfiðasta braut vallarins.

Skemmtilegur skógarvöllur

Það væri hægt að tína til fleiri fallegar brautir á vellinum en þrettánda er ein þeirra, par 5 braut þar sem upphafshöggið þarf að slá í hægri sveigju yfir trjálínu meðfram brautinni. Átjánda er næst erfiðasta brautin og er 408 metrar á klúbbteig karla og heilir 370 m á kvennateig. Alvöru lokahola þar sem lítið svigrúm er fyrir „óbein“ högg. Niðurstaðan eftir golf á Oberneuland: Horfa á boltann (vera með nóg af þeim í pokanum), miða á braut og koma svo!

Klúbbhúsið er vinalegt og hægt að fá bjór og brauð að hætti þýskra og það kunna þeir vel. Á leið að klúbbhúsinu frá 18. flöt er gengið framhjá bandívelli en það er vinsæl íþrótt í Þýskalandi. Þarna mátti sjá tugi krakka í bandí en enga á golfvellinum.

Flatargjöld eru frekar hagstæð á Oberneuland vellinum, 18 holu hringur virka daga kostar frá 40 evrum en frá 50 evrum um helgar. Hópar fá afslátt. Hægt er að fá kerru fyrir 400 krónur og golfbíl á 4000 kr.Iðandi mannlíf

Það er iðandi mannlíf í Bremen og miðborgin mjög skemmtileg. Þar má sjá gamlar byggingar, m.a. Péturskirkjuna sem er dómkirkja borgarinnar og stendur við aðaltorgið, við hliðina á ráðhúsinu en það er með merkustu gotnesku byggingum endurreisnartímans í Evrópu. Ráðhúsið auk Roland styttunnar eru helstu kennileiti borgarinnar og bæði á heimsminjaskrá UNESCO. Roland styttan var reist árið 1404 og er stytta lýðræðis og frjálsrar verslunar í Bremen.

Á torginu og víðar um borgina er aragrúi góðra veitingastaða af öllum gerðum. Hægt er að velja úr úrvali gististaða og hótela. Park Hotel er eitt þeirra, 175 herbergja virðulegt og flott  fimm stjörnu hótel sem býður upp á öll helstu þægindi og þjónustu og er staðsett í miðbænum.

Fjölbreytt afþreying í Bremen

Saga, menning, listir og tónlist blómstra í sinni glæsilegustu mynd og stemmningin á aðaltorginu (markaðstorginu) er mögnuð. Heimsókn í hið aldna ráðhús er þess virði en þar er m.a. hægt að sjá gullna salinn. Vínkjallari Bremenborgar er „must visit“ þar sem hægt er að bragða á bestu vínum Þýskalands (því fengum við að kynnast) en þarna er líka Becks bjórverksmiðjan. Þeir sem eru með bíladellu ættu að heimsækja Mercedes Benz verksmiðjuna í borginni en þar er hægt að fá að taka í nýjustu gerðir MB á sérstakri hraðakstursbraut. Ekki leiðinlegt. Já, Bremen er virkilega „hipp og kúl“ og þar er alþjóðleg geimstöð og hin ótrúlega heimssýning „Universum Bremen“.

Ekki má gleyma því að hægt er að fá útrás fyrir knattspyrnuáhugann því í Bremen er hið kunna knattspyrnulið Werder Bremen. Á knattspyrnutímabilinu er hægt að komast á leik í Bundeslígunni.


Margar brautirnar á Oberneuland vellinum eru þröngar og þá þarf stundum að taka upp járnkylfu á teignum og geyma stóra prikið.


Park Hotel er glæsilegt fimm stjörnu hótel á besta stað í Bremen. Í borginni er mikið lagt upp úr úrvali veitingastaða, kráa og vert er að benda á vínkjallarann Bremer Ratskeller en þar er mesta úrval þýskra léttvína í Þýskalandi.