Nýr 27 holu golfvöllur rís í Skorradal

Eignarhaldfélagið Indriðastaðir ehf er nú farið af stað með uppbyggingu á 27 holu golfvelli ásamt æfingasvæði, pútt- og vippflöt, og æfingavelli með þremur stuttum par-3 holum. Auk þess er mikil sumarhúsabyggð og margskonar afþreying, s.s vatnasport, fjórhjólaleiga o.fl, fyrirhuguð og þegar starfrækt í landi Indriðastaða í Skorradal. Völlurinn er hannaður af Hannesi Þorsteinssyni og er í fallegu umhveri hæðanna undir Skarðsheiðinni og útsýni er ómótstæðilegt, meðal annars blasir Snæfellsjökull við af flötunum. Við völlinn verður hægt að fá lóðir undir frístundahús.

Vallarstjóri golfvallarins hefur þegar verið ráðinn. Haraldur Már Stefánsson, grasvallar- og íþróttafræðingur, sem áður starfaði við og byggði upp Kiðjabergsvöllinn hefur þegar hafið störf. Haraldur Már lauk námi í grasvallarfræðum (HNC Golf Course Management) frá Elmwood College í Skotlandi 2005 og var hann m.a verðlaunaður af The Royal and Ancient Golf Club of St Andrews fyrir árangur sinn í náminu.

150 sumarhúsalóðir verða við völlinn
Mikil ferðamannaþjónusta er þegar tekin til starfa og er tekið á móti hópum í áðurnefnda útivist. Hlaðan við Indriðastaði hefur verið vandlega innréttuð þar sem hægt er að taka á móti stórum hópum til veisluhalda. Áætlað er að u.þ.b 130- 150 sumarhúsalóðir verði á og við völlinn, auk annarra 220- 250 lóða sem verða á svæðinu öllu. Í Indriðastaðalandi verða því 350- 400 lóðir í heildina og í öllum Skorradal eru áætlaðar 1200- 1400 frístundalóðir.

Eignarhaldsfélagið Indriðastaðir ehf er eigandi landsins og heldur utanum uppbygginguna á svæðinu. Öll vinna við skipulag og gerð svæðisins miðast við að um frábæra útkomu verði að ræða.

Hönnuður vallarins er eins og áður segir Hannes Þorsteinsson og hannar hann völlinn í samvinnu við Batteríið arkitekta og Þráinn Hauksson landslagsarkitekt. Hannes þarf vart að kynna enda liggja verk hans víða og mörg hver algerlega einstök. Helstu vellir hans eru m.a Korpúlfsstaðarvöllur (GR), Garðavöllur á Akranesi (GL) og Urriðavöllur (GO/ GOF) auk fjölda annarra golfvalla og smærri verka (breytingar á golfvöllum, hönnun nýrra flata o.fl o.fl).

Batteríið arkitektar eru landskunn fyrir sína vinnu. Hafa þau m.a. hannað viðbygginguna við Alþingishúsið, nýja golfskála GO, Kaplakrikasvæðið í Hafnarfirði ásamt því að vera í samvinnu um hönnun Tónlistar og Ráðstefnumiðstöðvarinnar við Austurbakka í Reykjavík auk fjölda annarra skipulags og hönnunarverka. Þráinn Hauksson landslagarkitekt er einn eigenda Landslag ehf. Hann hefur starfað mikið með Batteríinu- arkitektar, sem og sjálfstætt, að hinum ýmsu verkefnum og hlotið fyrir það margskonar viðurkenningar. Helstu verk sem Þráinn hefur komið að eru m.a Menningarhús á Akureyri, Skipulag að Geldingarnesi, Skipulag að Þrastarskógi, Ráðhús Reykjavíkur o.fl ofl.


Kylfingum hleypt inn á fyrsta hluta vallarins í sumar
Að sögn Haraldar Más vallarstjóra hefur hönnun á vellinum og svæðinu öllu gengið vel. „Uppbygging á fyrsta hluta vallarins (9 holum) er langt á veg komin og munu framkvæmdir við stækkun vallarins í 18 holur hefjast eins fljótt og auðið er. Kylfingum verður hleypt inn á fyrsta hluta vallarins í sumar auk þess sem æfingasvæði með boltasjálfsala verður opnað í vor. Ef allt gengur að óskum munu kylfingar fá smjörþefinn af 18 holu vellinum seinnihluta sumars 2008. Formleg vígsla á 18 holu Indriðastaðarvelli fer fram með glæsibrag þegar verkinu er að fullu lokið,“ segir Haraldur Már.

Mikill metnaður er lagður í skipulagningu svæðisins þar sem kappkostað er að gera það sem glæsilegast í alla staði. Golfvöllurinn er hannaður með það í huga að allir kylfingar njóti þess að leika völlinn óháð getustigi hvers og eins. Kylfingar munu njóta mikillar náttúrufegurðar og áskorunnar af krefjandi legu brauta og staðsetningu hindrana. Völlurinn er hannaður með það í huga að krefja betri kylfinga um nákvæmni, en er um leið sanngjarn við hina lakari. Þannig eiga allir kylfingar að geta notið leiksins á sanngjarnan, skemmtilegan og krefjandi hátt.

Kaup á vélum og tækjum fyrir sumarið 2007 eru frágengin og vélaþörf til ársins 2012 liggur fyrir. Eftir það mun verða einungis um endurnýjun að ræða miðað við 27 holu golfvöll.

Á vormánuðum verður formlegur stofnfundur Golfklúbbs Skorradals haldinn. Þar mun fara fram, auk formlegs stofnunnar, kynning á svæðinu öllu auk alls þess sem að vellinum og golfklúbbnum kemur. Útbúið hefur verið stórt líkan af svæðinu sem notað verður til að kynna legu golfvallar innanum sumarhúsabyggðina og öfugt. Nú er unnið að einu heildarskipulagi þar sem allt er viðkemur svæðinu verður hannað og sett inn, s.s mannvirki, göngustígar, smábátabryggja, vegir, lóðir og allt það er viðkemur svæði sem þessu.

Indriðastaðir eru í Skorradal við veg númer 507, innan við klukkutíma akstur frá Reykjavík og innan við 15 mínútna akstur frá Borgarnesi.

Myndir: Efst má sjá hluta af landinu sem fer undir völlinn. Hann verður í fallegu umhveri hæðanna undir Skarðsheiðinni og útsýni er ómótstæðilegt. Við völlinn verður hægt að fá lóðir undir frístundahús. Á miðmyndinni er Haraldur Már Stefánsson sem þegar hefur hafið störf sem vallarstjóri, en hann starfaði áður við uppbyggingu Kiðjabergsvallar.