North Berwick: Á Íslendingaslóðum í Skotlandi

North Berwick: Á Íslendingaslóðum í Skotlandi

Fyrir um fjörutíu árum síðan var fyrsta skipulagða golfferð frá Íslandi farin til Skotlands og var bærinn North Berwick á austurströndinni fyrir valinu. Tuttugu manna hópur á vegum verkefnisins Golfsumarið.is fór í helgarferð á þennan fræga golfstað í heimalandi íþróttarinnar, í október síðastliðinum. North Berwick er einn af nýjum áfangastöðum hjá GB ferðum í vor og verða ferðir þangað í boði í vor frá byrjun apríl fram í byrjun júní.

Í bænum North Berwick búa um 9 þúsund manns og á tveimur völlum sem hópurinn lék, North Berwick, West Links og The Glen Golf club eða East Links eins og hann er kallaður eru um 20% bæjarbúa félagar. Rétt út fyrir bæinn eru tugir golfvalla eins og Whitekirk en þar hefur árlega verið haldið mót á Euro-Pro mótaröðinni. Svo þegar aðeins lengra er haldið koma fleiri kunnir golfvellir í röðum. Sá frægasti er án efa Muirfield sem iðulega er í einu af þremur efstu sætum yfir frægustu golfvelli Bretlands. Svo uppveðraður var Jack Nicklaus sem sigraði þar einu sinni (af þremur) á Opna breska að hann skýrði fyrsta völlinn sem hann hannaði í Bandaríkjunum eftir honum, Murifield village. Á svæðinu eru líka aðrir frægir vellir á borð við Gullane en þar eru þrír vellir og þar hafa margir Íslendingar leikið í gegnum tíðina. Nokkrar mínútur frá Gullane kemur maður yfir til Aberlady sem er lítill bær eins og North Berwick. Þar eru þrír mjög góðir golfvellir; Luffness, Craigielaw sem er einn nýjasti völlurinn á svæðinu og loks Kilspindie þar sem krafist er beinskeytni í upphafshöggum. Nýjasta afurðin í flóru North Berwick er Archerfield Links en þar eru tveir 18 holu vellir en þó eingöngu fyrir félagsmenn og gesti þeirra.

Hægt er að telja upp fleiri þekkta golfvelli í Austur Lothian sýslu. Þetta er frábært golfsvæði þar sem hægt er að velja úr mjög stórum hópi golfvalla.

West Links golfvöllurinn í North Berwick er með langa sögu, allt til ársins 1832. Fyrstu sextíu árin var hann þó bara sex holur en fljótlega níu en var stækkaður smám saman og 18 holur urðu að veruleika 1877 en brautirnar voru flestar stuttar. Árið 1895 var hann þó orðinn „alvöru“ 18 holu völlur þar sem stysta brautin var 225 metrar.

West Links er þessi dæmigerði strandvöllur og minnir um margt á Gamla völlinn í St. Andrews, þ.e. fyrsti teigur og lokaflötin eru við klúbbhúsið og staðsetningin er við bæinn og liggur meðfram hvítri sandströndinni við Forth fjörðinn. Par 71.

West Links hélt mörg af stærstu mótunum á 19. öldinni og í dag er hann vettvangur lokaúrtökumótsins fyrir Opna breska þegar það fer fram á Muirfield vellinum í Edinborg. Eitt stærsta áhugamannamót í heiminum, Opna áhugamannamótið var haldið á völlunum tveimur í fyrra. Þar mættu 300 bestu áhugamenn í heiminum.

Það er sérstök tilfinning að mæta á 1. teig á West Links, alls ekki frábrugðin því þegar maður stígur á 1. teig í St. Andrews þótt ekkert jafnist á við það. Stemmningin er margt lík, sjórinn á hægri hönd, klúbbhús og bærinn á þá vinstri. Völlurinn er alltaf í mjög góðu ásigkomulagi, brautir harðar og með miklu landslagi og flatir líka en grípa þó boltann vel. Byrjunarholurnar eru mjög sterkar og flottar og reyndar í lengri kantinum. Fyrsta, önnur og þriðja meðfram sjónum og sjá mátti nokkra Íslendinga slá högg úr hvíta sandinum eftir að upphafshögg hafði farið til hægri. Ströndin var hliðarvatnstorfæra. Fjórða og sjötta braut eru báðar skemmtilegar par 3 brautir. Fyrri hringurinn endar á tveimur par 5 brautum sem báðar gefa góða möguleika á fuglum og síðan er þriðja par 5 brautin á 11. holu en hún er þó erfiðust af þeim. Frægasta holan á vellinum er þó sú 13. en hún er kölluð Pit. Meðfram brautinni um 100 metra frá flöt er grjótgarður og flötin er fyrir innan hann. Stutt en mjög glæsileg golfhola. Lokakaflinn er síðan strembinn með frábærum holum. Fjórtánda er par 4 og heitir „Perfection“ því það þarf tvö mjög góð högg til að komast á flöt. Fimmtánda er 190 metra löng, frábær par 3 og með langri flöt með gili hægra megin fremst. Brautir 16 og 17 eru góðar par 4 holur og 18. braut er stutt og þægileg lokahola, ekkert ósvipuð 18. á Old Course í St. Andrews.

Vesturlínskarinn er frábær golfvöllur og fágætur demantur í golfflóru Skotlands. Þegar við spurðum heimamenn hver hefði hannað völlinn var svarið einfalt: Þeir bentu bara upp í bláan himin. „Him“, sögðu þeir.

The Glen course eða East (austur) Links völlurinn er nokkuð frábrugðinn nágranna sínum sem er aðeins nokkur hundruð metra frá en engu að síður mjög skemmtilegur golfvöllur. Hann hefur mörgum sinnum fengið dóma í golfblöðum sem „frábær en vanmetinn golfvöllur“. Flatargjaldið er nokkuð ódýrara en á West Links og vissulega hefur hann verið í skugga hans. Austurvöllurinn er þó vissulega heimsóknar virði en er allt öðruvísi strandvöllur en West Links. Sögu hans má rekja til síðustu ára 19. aldar en 18 holu völlur var opnaður á fyrstu árum 20. aldar eða 1906. Hönnuðirnir tveir voru engir aðrir en James Braid, einn frægasti golfvallahönnuður Breta og Ben Sayers, frægur atvinnukylfingur. Á þessu árum var stærsta verkefnið að fá land undir golfvöll því aðsóknin á West Links var svo mikil. Fram til ársins 1930 hét East Links - Burgh völlurinn en var breytt í Glen course 1930. Stofnendur klúbbsins gerðu betur en flestir í Skotlandi hvað varðar aðgang kvenna því þeir veittu þeim aðgang á fyrstu árunum. Það var ekki sjálfsagður hlutur á þessum tíma í íþrótt karlanna.

Völlurinn liggur meðfram ströndinni við Forth fjörðinn en er þó verulega ólíkur West vellinum. Grassvörðurinn er miklu mýkri og flatir ekki alveg eins þéttar og hraðar en samt mjög góðar.

Fyrsta holan er mjög athyglisverð þar sem flötin er hátt uppi á hæðinni, stutt par 4. Níunda braut er par 3 og þar er einnig mikill hæðarmunur og síðan kemur önnur par 3 sem er frægasta hola vallarins, 13. braut, See hole eða sjávarbrautin. Virkilega skemmtileg hola alveg við ströndina. Næstu holur eða lokakaflinn er virkilega góður, 14. og 18. braut bestar af þeim. Lokaholan með teiginn uppi á hæðinni. Útsýnið þar eins og reyndar á öllum vellinum mjög flott. Niðurstaðan: Mjög skemmtilegur golfvöllur og allar aðstæður góðar eins og á West vellinum, klúbbhús og golfverslun. Æfingasvæðið á þessum gömlu golfvöllum fær þó ekki nein verðlaun en það er einn af mjög fáum liðum sem hægt er að gagnrýna í North Berwick. Þarna fer meiri tími í útsýnið og flottar golfholur. Og er vel varið.

Stórt einkenni út í Forth firðinum eru þrjár eyjur en stærst þeirra er Bass kletturinn sem er 3 km úti í sjó til austurs. Hann er um 100 metrar á hæð og lengstur 100 m. Í Bass eiga heimkynni um 80 þúsund fuglar sem gera hreiður sín í þessum stóra og flotta kletti.

Fleiri myndir frá North Berwick má sjá í myndasafni Kylfings.is með að smella hér.

http://www.north-berwick.co.uk/bassRock.asp