Miklar framkvæmdir í gangi á Vífilsstaðavelli

Mikil hugur er í stjórnendum GKG og eru gríðarlega umfangsmiklar framkvæmdir í gangi á Vífilsstaðavelli nú í mesta skammdeginu. Verið er að setja niður sjálfvirkt vökvunarkerfi í allar flatir og við alla teiga vallarins. Áætlaður kostnaður vegna þessara framkvæmda er tæpar 10 milljónir króna og er áætlað að öllum framkvæmdum vegna þessa verkefnis verði lokið fyrir opnun vallarins næsta vor. Erfitt getur reynst að ná því markmiði þó allt sé gert til þess að það náist þar sem ekki er hægt að grafa þegar mikið frost er í jörðu og verður því að sæta lagi þegar vel viðrar.

Þó hefur verið hægt að grafa þó nokkuð í vetur og er þegar lokið að taka upp efni á 9 flötum af þeim 18 sem eru í Vífilsstaðahluta vallarins.
Þegar lokið hefur verið við að taka upp efni og gera allt tilbúið mun verða farið í að leggja lagnir og tengja þau tæki sem munu sjá vellinum fyrir vatni á næstu árum. Á síðasta ári var lokið við að ganga frá og tengja sjálfvirkt vökvunarkerfi í Leirdalshlutanum í Kópavogi og var það kerfi verið notað í allt sumar með mjög góðum árangri. Fljótlega eftir að kerfið var tekið í notkun síðastliðið sumar tók Leirdalshlutinn við sér svo um munaði. Gríðarlegur vinnusparnaður er samfara þessum framkvæmdum auk þægindanna sem kylfingar verða varir við eða réttara sagt verða ekki varir við. Í framtíðinni verður allri vökvun lokið á morgnana þegar kylfingar mæta til leiks. Þar fyrir utan er rétt vökvun lykilatriði í umhirðu og meðferð valla.

Sýni tekin úr flötum og teigum og send erlendis
Vífilsstaðavöllur hefur komið mjög vel undan vetri undanfarin ár og verið með bestu völlum landsins fyrri hluta sumars undanfarin 2 ár. Þar má að miklu leiti þakka samsetningu grastegunda í flötum vallarins, en mjög lítið hlutafall af einæru grasi (Poa annua) er í flötum vallarins, auk þess sem mikill raki í jarðvegi við upphaf gróðurtímans er væntanlega líka af hinu góða.

Mjög ýtarlegt áburðarskipulag er í gangi á Vífilsstaðavelli og eru reglulega tekin sýni úr flötum og teigum og send erlendis til greiningar til þess að ákvarða áframhaldandi samsetningu og innihald þess áburðar sem notaður er. Allur áburður sem notaður er á flatir og teiga vallarins er sérblandaður með hliðsjón af þeim mælingum sem gerðar eru með reglulegu millibili. Þá má ætla að sú ákvörðun sem tekin var fyrir nokkrum árum síðan að loka vellinum yfir vetrarmánuðina hafi einnig skilað sér í betra ástandi að vori.

15. brautin endurhönnuð
Nú í haust var hafist handa við að endurhanna 15. braut vallarins sem hefur verið mörgum kylfingnum þyrnir í augum og oft á tíðum verið ósanngjörn braut. Nú hefur flötin verið flutt að rótum brekkunnar og allt umhverfi flatar og brautar í heild sinni verið lagfært. Teigar hafa verið færðir aftur sem nemur færslu flatarinnar þannig að lengd brautarinnar breytist ekki. Þá voru hlaðnar upp tvær “pott-glompur”
aftan við eða hægra megin við nýju flötina sem gerir innáhögg enn frekar krefjandi. Eftir þessar breytingar er mikið atriði að reyna að koma boltanum sem lengst til hægri eftir upphafshögg til þess að eiga betri möguleika á innáhöggi. Teighögg sem lendir vinstra megin á braut kallar á gríðarlega erfitt innáhögg. Þar þarf í fyrsta lagi að fara yfir 5 sandglompur sem þar eru fyrir og fá síðan boltann til að stoppa á flötinni sem hallar frá kylfingnum og að nýju “pott-glompunum”. Þá stendur til að gróðursetja mikið magna af trjám vinstra megin á brautinni og í nágrenni flatarinnar.
Samhliða þessu verkefni hefur verið unnið að stækkun 3. flatarinnar og hefur hún þegar verið dýpkuð um u.þ.b. 3 metra auk þess sem umhverfið aftan við hana hefur verið lagað til.

Mikil framför hefur verið í gróðurfari á Vífilsstaðavelli og hafa á þriðja hundrað fullvaxin tré verið gróðursett á vellinum í sumar auk þúsunda græðlinga. Eru þessi stóru tré allt upp í 10 metra aspir niður í 2 metra grenitré komin frá velunnurum klúbbsins auk þess sem GKG hefur fengið mikið af trjám frá verktökum sem vinna við byggingalönd á höfuðborgarsvæðinu.


Nýr golfvöllur í Kópavogi - Leirdalsvöllur
Fátt getur komið getur í veg fyrir að nýr glæsilegur golfvöllur verði opnaður á næsta ári. Leirdalsvöllur í Kópavogi sem er viðbót við 18 holu völl GKG á Vífilsstöðum í Garðabæ. Völlurinn sem er eins og nafnið gefur til kynna í Leirdal í Kópavogi liggur frá Hnoðraholti til austur upp Leirdal meðfram Salahverfi í Kópavogi og teygir sig allt upp í Kórahverfi. Völlurinn er í stórbrotnu umhverfi skógræktarsvæðis í hlíðum Rjúpnahæðar og á mjög faglegan hátt sniðinn inn í skógræktarsvæðið og að íbúabyggð í Salahverfi.

Fallegar tjarnir spila stórt hlutverk
Það sem einkennir Leirdalsvöllinn er kannski helst tjarnirnar sem liggja upp með öllum vellinum og eru hlaðnar listilega með fallegum grjóthleðslum sem gefa vellinum svip sem vart á sinn líkan hér á landi. Spila þessar tjarnir mikið hlutverk í leik kylfinga á vellinum og setja auk þess mjög fallegan svip á völlinn. Þá hefur fullvöxnum trjám úr nærliggjandi byggingasvæðum verið komið haganlega fyrir inni á vellinum. Það sem kann að koma kylfingum spánskt fyrir sjónir þegar þeir leika Leirdalinn er að umhverfis hann eru fallegir göngustígar auk reiðstíga, en auk þess er reiðstígur þvert í gegnum völlinn á milli 8. og 2. flatarinnar. Er þetta gert í fullri sátt hestamanna og forsvarsmanna GKG sem telja samstarf við hestamenn eingöngu af því góða og hefur reynslan verið sú undanfarin ár að hestamenn og kylfingar geta lifað í fullri sátt og í samlyndi með góðu skipulagi og gagnkvæmri virðingu.

Fyrsti 27 holu golfvöllurinn hér á landi
Engu hefur verið til sparað af Kópavogsbæ sem hefur byggt þessa glæsilegu viðbót í íslenska golfvallarflóru frá grunni. Golfvallarsvæðið í Leirdal er lokaáfangi við gerð fyrsta 27 holu golfvallar hér á landi í samvinnu beggja sveitarfélaganna Kópavogs og Garðabæjar í náinni samvinnu við GKG sem hefur séð um ráðgjöf og umsjón með allri faglegri vinnu við gerð vallarins. Samvinna tveggja sveitarfélaga á þessu sviði er líklega einsdæmi hér á landi. Stjórnendur bæjanna hafa frá upphafi verið sammála um að vanda vel til alls undirbúnings verksins og síðan allra framakvæmda. Þeirri stefnu hefur verið fylgt eftir æ síðan.

2.900 metra langur af hvítum teigum
Leirdalsvöllur sem er 9 holu viðbót við golfvallarsvæðið á Vífilsstöðum er PAR 35 völlur með tveimur par 5 holum, fjórum par 4 holum og þremur par 3 holum sem allar hafa til að bera sinn eigin karakter. Völlurinn er 2.900 metra langur af hvítum teigum en um 2.700 metrar af gulum. Á öllum flötum og teigum er búið að koma fyrir sjálfvirku vökvunarkerfi til þess að tryggja góðan vöxt og auðvelda umhirðu. Á Leirdalsvelli eru fjögur teigasett rauð, blá, gul og hvít, auk þess sem uppi eru áform um að bæta við fimmta teigasettinu á næstu árum.

Opnaður næsta sumar
Allt bendir nú til þess að hægt verði að opna þennan glæsilega völl á árinu 2006 og verður kapp lagt á að svo megi verða. Einungis eru eftir lítilleg frágangsatriði til þess að gera völlinn tilbúinn til notkunar. Flatir og teigar hafa náð að gróa mjög vel á síðustu árum og eftir að sjálfvirka vökvunarkerfið komst í gagnið á síðasta sumri varð mikil breyting á vellinum til batnaðar. Það er því ljóst að spennandi kostur fyrir kylfinga mun standa til boða strax á næsta ári ef allt gengur að óskum.

Sjá myndasyrpu.