Matalscanas

Matalascañas sameinar golf- og fjölskylduferð

Ferðaskrifstofan VITA Golf hefur í hartnær áratug boðið upp á golfferð til Matalascañas sem staðsettur er í Andalúsíu, skammt frá landamærum Spánar og Portúgals. Þessi skemmtilegi strandbær er við Atlantshafið og er vinsæll sumarleyfisstaður á meðal Spánverja. Íslendingar flykkjast til staðarins á vorin og á haustin til að leika golf og njóta lífsins í sólinni á Spáni. Aðeins um þrjú þúsund manns búa í bænum að vetri til en yfir sumartímann dvelja allt að 100 þúsund manns í bænum sem er sannkallaður ferðamannabær.

Leikið er á Dunas de Donaña golfvellinum í Matalascañas sem er skemmtilegur og fjölbreyttur golfvöllur skammt frá hótelinu. Völlurinn er blanda af skógar- og strandvelli og er völlurinn krefjandi þó finna megi nokkrar auðveldar holur. Völlurinn hentar því bæði forgjafarhærri og lægri kylfingum. Finna má nokkrar glæsilegar golfholur og eru síðustu fjórar holurnar á vellinum einkar skemmtilegar en þær teygja sig inn á milli íbúðarbyggðar í skemmtilegu landslagi. Völlurinn er vel hirtur, auðveldur á fótinn og vötn setja svip sinn á nokkrar holur. Dunas de Donaña völlurinn er skemmtilegur völlur og óhætt er að fullyrða að kylfingar fá seint leið á því að spreyta sig á vellinum. Gott æfingasvæði er við völlinn þar sem hægt er að vinna í sveiflunni og brýna stutta spilið.

Tilvalinn fjölskyldustaður

Helsti kostur Matalascañas er nálægðin við ströndina. Í ferðum hjá VITA Golf er gist á Tierra Mar hótelinu og snúa öll herbergin að sjávarsíðunni með frábært útsýni yfir ströndina. Um er að ræða fjögurra stjörnu hótel þar sem morgunmatur og kvöldverður er innifalinn. Hótelið er gott og þjónustan fyrsta flokks. Matalascañas er tilvalinn golfáfangastaður fyrir alla fjölskylduna. Þar er hægt að gera fleira en að spila golf því hægt er að láta fara vel um sig á ströndinni eða njóta þess sem Matalascañas hefur upp á að bjóða.

Matalascañas er vinsæll ferðamannastaður Spánverja yfir sumartímann. Íslenskir kylfingar fá því að upplifa alvöru spænska menningu og matargerð. „Hér förum við að borða á alvöru spænskum veitingastöðum og í spænsku verðlagi,“ segir Ólafur Hreinn Jóhannesson, fararstjóri hjá VITAgolf á Matalascañas. Hann segist aldrei fá leið á því að leika  Dunas de Donaña golfvöllinn. „Þetta er sá völlur í heiminum sem ég hef leikið hvað oftast og fæ aldrei leið á honum. Þetta er skemmtilegur og krefjandi völlur. Hann hentar fyrir allar tegundir kylfinga, alveg sama hver forgjöfin er.“

Golfskólinn vinsæll

Ingi Rúnar Gíslason og Ólafur Hreinn eru fararstjórar á Matalascañas. Þeir eru skólastjórar í Golfskóla VITA Golf sem rekinn er á Matalascañas. Skólinn er tilvalinn fyrir byrjendur jafnt sem lengra komna til að færa leik sinn á næsta stig. Golfskólinn hefur verið mjög vinsæll á undanförnum árum og margir sem hafa tekið leik sinn á næsta stig eftir kennslu frá þeim Inga og Ólafi. Það er svo sannarlega hægt að mæla með golfferð til Matalascañas. Það er spennandi að fara á spænsku veitingahúsin á kvöldin þegar leik lýkur og gæða sér á spennandi spænskum réttum. Þegar tími gefst til að slaka á er fátt betra en að tylla sér á ströndina og varpa öndinni. Matalascañas er frábær kostur fyrir næstu golfferð.

Við mælum heilshugar með Matalascañas - frábær staður, yndislegur golfvöllur og góð þjónusta. Ingi Rúnar og Óli eru skemmtilegir fararstjórar og fyrsta flokks golfkennarar.“
María Aðalbjarnardóttir og Pétur Birgisson, apríl 2009.


Seinni níu holurnar teygja sig í gegnum íbúðarhverfi á Matalascañas.


Það er gaman að leika í kvöldsólinni á Dunas de Donaña golfvellinum.


Klúbbhúsið er glæsilegt á Dunas de Donaña vellinum. Níunda flöt er hér að framan.


Dunas de Donaña völlurinn er blanda af skógar- og strandvelli.


Tierra Mar hótelið sem íslenskir kylfingar gista á er fjögurra stjörnu hótel við ströndina. Öll herbergin snúa að Atlantshafinu með glæsilegu útsýni.