Leirdalsvöllur – í fallegu umhverfi og lofar góðu!

Leirdalsvöllur, sem er 9 holu viðbót við Vífilsstaðavöll, er skemmtilegur völlur að spila. Hann er að vísu nokkuð hrár enn, brautirnar og nokkrar flatir ekki full grónar. Það er mikið landslag í vellinum og nýtur hann sig vel í dalnum. Hönnun vallarins, sem var í höndum Andrésar Guðmundssonar, er öðruvísi en maður á að venjast, en það gerir hann bara meira heillandi.

Völlurinn sem er eins og nafnið gefur til kynna í Leirdal í Kópavogi, liggur frá Hnoðraholti til austurs, upp Leirdal meðfram Salahverfi í Kópavogi og teygir sig allt upp í Kórahverfi. Völlurinn er í stórbrotnu umhverfi skógræktarsvæðis í hlíðum Rjúpnahæðar og á mjög faglegan hátt sniðinn inn í skógræktarsvæðið og að íbúabyggð í Salahverfi.

Leirdalsvöllur er par-35 með tveimur par 5 holum, fjórum par 4 holum og þremur par 3 holum sem allar hafa til að bera sinn eigin karakter. Völlurinn er 2.900 metra langur af hvítum teigum en um 2.700 metrar af gulum. Á öllum flötum og teigum er búið að koma fyrir sjálfvirku vökvunarkerfi til þess að tryggja góðan vöxt og auðvelda umhirðu.

Fyrstu tvær brautirnar eru frekar opnar, en þegar maður spilar til baka niður dalinn kemur hlíðin mjög skemmtilega inn í leik. Fjórða brautin, sem er par-5 og liggur efst í dalnum er vel hönnuð og margar hættur sem leynast ef kylfingar eru ekki beinir á braut. Flötin á þessari braut er sú besta á vellinum, stór og með smá broti.

Þá eru þrjár par-3 holur á vellinum og er sjötta sú skemmtilegasta, en hún er um 150 metrar og er flötin uppbyggð á móti höggstefnunni og sandglompur beggja vegna. Einnig er 9. brautin mjög flott, þar sem flötin liggur nánast inn í hlíðinni vinstra megin þegar komið er niður dalinn. Við flötina eru líka hættur og því eins gott að vera vel á boltanum þegar slegið er inná. Þessi hola getur refsað, en hún getur líka gefið auðvelda fugla.

Nokkrar brautir liggja nokkuð þétt saman og það getur skapast hætta þegar menn eru villtir í teighöggunum og hætt við að boltinn fari yfir á næstu braut. Það er reyndar hugmyndin að afmarka brautirnar betur með því að gróðursetja tré á milli þeirra. Það yrði mikill kostur.

Völlurinn refsar ekki mikið, eins og hann er í dag en það á sjálfsagt eftir að breytast þegar sand- og brautarglommpur og tjarnir, sem setja skemmtilega svip á völlinn, eru komnar í leik líka. Völlurinn er vel hannaður, sérstaklega fallegur fyrir augað og manni líður vel að spila hann – það er jú stór plús.

Það verður mikil breyting fyrri klúbbinn að fá þessar 9 holur inn á næsta ári og þá er GKG eini klúbburinn á Íslandi sem getur státað sig af 27 holu golfvelli, sem nær í gegnum tvö bæjarfélög, Kópavog og Garðabæ.

- vajo.

Sjá myndaseríu frá Leirdalsvelli.

Mynd/Kylfingur.is: Hér má sjá upp 2. brautina í Leirdalnum til vinstri en 9. brautin liggur niður dalinn til hægri.