La Sella á Spáni

La Sella golfsvæðið á Spáni

Wow ferðir bjóða upp á golfferðir til Alicante á Spáni. Björn Eysteinsson, golffararstjóri tekur á móti golfþyrstum Íslendingum á vorin og á haustin. kylfingur.is prófaði La Sella golfsvæðið en þar eru 3 skemmtilegir níu holu golfvellir og flott Marriott hótel.

Golfsvæðið á La Sella er hannað af sjálfri Ryderhetjunni, Jose Maria Olazabal og er óhætt að segja að vel hafi tekist til. Vellirnir þrír, 9 holur hver, eru aðgreindir með litum, gulur, rauður og grænn. Guli og rauði eru lagðir í miklum skógi og þétt trjálínan heldur skemmtilega utan um brautirnar. Þriðji völlurinn, sá græni er opnari. Þar er 5. holan erfið en mjög glæsileg, löng par 4 þar sem vatnstorfærur gera parið mjög erfitt. Á gula vellinum sem að flestra mati er erfiðastur er óhætt að segja að spænska golfstjarnan Olazabal hafi farið á kostum á teikniborðinu því hver glæsiholan rekur aðra. Fyrsta brautin lætur ekki mikið yfir sér en brautir 2. til 6. eru virkilega flottar, frábært bland af par 3, 4 og 5 holum. Síðan kemur erfiður þriggja holna lokakafi. Sjöunda brautin en er svakaleg, 414 metrar par 4 þar sem nauðsynlegt er að ná góðu upphafshöggi á milli trjánna en svo bíður vatnstorfæra eftir slökum innáhhöggum og setur einnig mikinn svip á brautina. Áttunda brautin er tæplega 200 metra löng par 3 og níunda brautin er líka mjög glæsileg, par 5 braut sem liggur í hundslöpp og endar við klúbbhúsið.  Hreint magnaður 9 holu hringur. Einn sá besti sem undirritaður hefur spilað.

Rauði hringurinn er einnig mjög skemmtilegur með blandi af styttri og lengri brautum. Síðasta holan er tilkomumest af mörgum mjög góðum golfbrautum, par 5 og liggur í hundslöpp.

Eins og kemur fram í viðtalinu við Björn er góð þjónusta í klúbbhúsinu og fínn veitingastaður. Mjög algengt var að kylfingar stoppuðu þar eftir 18 holur, fengju sér hádegisverð og lékju svo 9 holur seinni partinn. Það fannst mörgum passlegt. Þá var hægt að ná síðdegissólinni á sundlaugarbakkanum.

Hótelið er fyrsta flokks enda fimm stjörnu með öllum helstu þægindum sem boðið er upp á. Morgunmatur er ríkulegur og kvödverður er mjög góður. Herbergin eru rúmgóð og þjónusta öll til fyrirmyndar á hótelinu.

Það verður sem sagt enginn svikinn af verunni á La Sella.

 

Þriðja brautin á gula vellinum, flott en frekar erfið par 5 braut.

Sjöunda brautin á gula vellinum, gríðarlega erfið par 4 braut en jafnframt glæsileg.

Björn Eysteinsson, golffararstjóri Wow slær á 9. braut á gula vellinum.

Gylfi Kristinsson slær á 3. braut á græna vellinum, par 4, ein erfiðasta brautin á La Sella.

Aðstæður eru glæsilegar á Marriott hótelinu.

Halldór, Ellert, Árni og Gissur í góðum gír á 19. holunni. Þeir eru í hópnum „Blautir piltar“ úr Golfklúbbnum Setbergi.