Korpan verður par 72

Nokkrar breytingar verða gerðar á Korpúlfsstaðavelli í sumar. Fyrsta brautin verður lengd í par-5 og verður hún 490 metrar af hvítum teigum en 470 af gulum. Framkvæmdir við lenginguna hófust fyrir 3 árum síðan. Þar sem Korpúlfsstaðavegur verður í sumar tengdur við Vesturlandsveg, verður gerður göngustígur frá 1. flöt að 2. teig, sem liggur undir veginn, meðfram ánni Korpu.

Samhliða stendur til að lengja 2. brautina töluvert, þannig að hvítur teigur færist eins nálægt Korpúlfsstaðavegi og kostur er, guli teigurinn færist aftur á hvítan og sá blái fer á gula, að því er fram kemur á heimasíðu Golfklúbbs Reykjavíkur.

Holur nr. 8 og 10 munu fá andlitslyftingu, en þær holur hafa af mörgum verið taldar minnst spennandi holur vallarins. 8. holan var upphaflega hönnuð með læk í gegnum miðja brautina og tveimur tjörnum. Fallið var frá þessum áformum árið 1999 og settar þrjár glompur í kringum flötina og tjörninni í miðri brautinni lokað. Nú verða settar 2 nýjar glompur í brautina, gróðursett tré hægra megin og svo á næsta ári byggður nýr hvítur teigur og sá guli stækkaður.

Við 10. braut verða byggðar 4 glompur, auk þess sem gróðursett verður milli brautarinnar og Litla vallar. Holan er stutt par 4, 301 metri, þar sem mögulegt er að slá upphafshögg inná flötina. Eftir breytingar þarf að fljúga upphafshöggi yfir 2 pottglompur, þannig að þeir sem ekki draga inná lenda í nokkrum vandræðum.

Í vetur hafa verið byggðir þrír gervigrasteigar á Korpunni, á 3., 5. og 9. braut. Þessir teigar verða teknir í notkun við opnun vallarins nú í vor. Auk þess hefur 5. teigurinn verið stækkaður um helming.

Korpan verður eftir þessar breytingar par 72. Hannes Þorsteinsson, golfvallahönnuður hefur hannað breytingarnar í samstarfi við vallarstarfsmenn á Korpu, Ágúst Jensson og Bjarna Hannesson.

Mynd: Fyrsta brautin, sem verið hefur par-4, verður par-5.