Korpan verður betri í ár en í fyrra

Ég er mjög sáttur með hvernig völlurinn kemur undan vetri,“ segir Ágúst Jensson, vallarstjóri á Korpúlfsstaðavelli sem var opnaður í gær með Innanfélagsmóti GR. Völlurinn þykir koma vel undan vetri og hafa flatir vallarins líklega ekki verið eins góðar á þessum árstíma í ára raðir.

Eftir að völlurinn kom illa undan vetri árin 2005, 2006 og 2007 þá höfum við unnið markvisst að því að koma nýrri grastegund fyrir á flötunum og það er að takast frábærlega. Við náðum ekki að slá hluta af þremur brautum fyrir opnunarmótið vegna bleytu og verður fljótt að fara,“ segir Ágúst sem hefur starfað sem vallarstjóri á Korpúlfsstaðavelli frá árinu 2002.

Það er óhætt að fullyrða að það fylgi því mikið álag að stjórna einum vinsælasta golfvelli landsins. Segja má að stærstu golfvellirnir á höfuðborgarsvæðinu fái í raun eins árs umferð á fimm mánuðum með tilheyrandi vandræðum fyrir vallarstarfsmenn sem leggja sig í líma við að hafa völlinn í sem bestu ástandi.

Klúbbfélagar hafa verið mjög duglegir að segja mér sína skoðun. Ég hef þó fundið fyrir mikilli jákvæðni undanfarið ár og finn að ánægjan meðal félaga GR er að aukast gagnvart okkar störfum. Hér er mikil umferð sem vissulega getur verið erfitt umhverfi að vinna í. Það er ekki langt í að völlurinn verði kominn í toppstand. Okkur vantar meiri sprettu og þá loka litlu sárin sér. Ég á von á því að völlurinn verði betri í ár en í fyrra og þá sérstaklega á flötunum sem líta mjög vel út.“

Myndir/Grímur Kolbeinsson: Með fréttinni fylgja nokkrar myndir sem teknar voru á Korpúlfsstaðavelli í gær.