Kiðjaberg einn af skemmtilegustu völlum landsins

Nýr 18 holu golfvöllur í landi Kiðjabergs var formlega opnaður um síðustu helgi, en frá því 1993 hefur þar verið 9 holu golfvöllur. Blaðamaður Kylfings.is var svo heppinn að leika völlinn á formlegum opnunardegi þegar nýi hluti vallarins var tekinn í notkun. Veðrið var eins og best var á kosið, 18 stiga hiti og logn, þegar Kristinn Kristinsson, formaður Golfklúbbs Kiðjabergs, sló fyrsta höggið á nýjum velli GKB. Ræst var út í opnunarmótið samtímis af öllum teigum. Blaðamaður Kylfings.is var ræstur út á 11. teig sem er á „gamla vellinum“ en sá hluti vallarins hefur verið talinn einn skemmtilegasti 9 holu völlur landsins.

Nýi hluti vallarins er ekkert síðri, hann er til þess búinn að kylfingurinn þarf að vera nákvæmur og agaður í vali á járnum. Þessar nýju holur eru talsvert öðruvísi en þær gömlu en hafa það sammerkt að útsýnið spilar stóran þátt í gerð þeirra en þær eru einnig fjölbreyttar og í stórskemmtilegu landslagi. Nýi hlutinn er alls ekki auðspilanlegur og má t.d. nefna það að mjög erfitt er að komast inn á báðar par 5 holurnar því ef boltinn er ekki inn á braut eða rétt fyrir utan hana þá er hann svo gott sem týndur. Röffið er rosalegt því í mörgum tilvikum er bara ekki hægt að slá. Í enn fleiri tilfellum finnst boltinn ekki!

Upphafshöggin á nýja hlutanum krefjast mikillar nákvæmni og þess vegna öruggast í flestum tilvikum að nota járn. Margar skemmtilegar holur eru á nýja hlutanum og má þar helst nefna eina skemmtilegustu par þrjú holu sem blaðamaður Kylfings.is hefur leikið. Það er sjöunda holan en teigurinn á þeirri holu er töluvert hátt fyrir ofan flötina. Lengd á gulum teigum á þessari holu er um 165 metrar og má segja að hæðarmunurinn á teignum og flötinni sé ótrúlegur, rúmir 60 metrar. Hvítáin tignarleg í forgrunni. Mikil spenningur var fyrir því að slá höggið á þessum teig þar sem erfitt var að finna út hvaða járn ætti að nota. Einnig var skemmtilegt að fylgjast með boltanum fljúga og falla töluverða hæð niður á flötina. Ágætt boltafar myndaðist við fallið en þó ekki mikið þar sem flatirnar voru töluvert harðar vegna þurrkatíðar í maí mánuði.

Aðrar holur sem vöktu áhuga blaðamanns var 1. hola vallarins, en það er mjög erfið par 5 hola. Upphafshöggið var tiltölulega auðvelt en mikið pláss er á brautinni fyrir lendingu. Það er aftur á móti aðkoman að flötinni sem er gífurlega erfið en flötin er vel varin með ýmis konar steinum og mosa. Erfitt er að koma boltanum inn á flöt í öðru höggi því nákvæmnin þarf að vera mjög mikil ef það á að takast.

Það þykir ljóst að Kiðjabergið verður innan fárra ára einn af skemmtilegustu völlum landsins. Sá þáttur sem flestir munu gagnrýna hvað varðar nýja hluta Kiðjabergsins er hve langt er á milli teiga. Í raun er nýrri hlutinn á köflum mjög erfiður í göngu þar sem töluvert er um hæðarmismun. Í góðu veðri ætti þó gangan ekki að vefjast fyrir manni þar sem náttúran í kring bætir það upp. Kiðjabergsmenn hafa þó gert ráðstafanir því leigðir eru út golfbílar á mjög sanngjörnu verði.

Eftir mótið var fagnað vel heppnuðum framkvæmdum með köldum drykkjum enda hitinn töluverður. Allir voru sammála um að þessi völlur ætti eftir að blómstra.