Kastalinn er glæsilegur og krefjandi - -sjöundi völlurinn í St. Andrews fjölskyldunni

Kastalavöllurinn eða The Castle Course heitir sjöundi völlurinn í eigu St. Andrews samfélagsins og opnaði á vordögum 2008. Eins og forðum daga þegar bardagar voru háðir um og í kringum kastala þá er óhætt að segja að langt er síðan að nýr golfvöllur og Kastalinn hefur fengið jafn óblíðar móttökur gesta. Skoðanirnar um nýjustu afurð Skotans David McLay Kidd í Mekka golfsins, eru margar. Bloggsíður loga. Ritstjóri kylfings.is og Gylfi Kristinsson, fyrrverandi Íslandsmeistari léku völlinn og voru hrifnir.

Kastalavöllurinn er þó, sama hvað allir segja, glæsilegur, mikilfenglegur og síðast en ekki síst erfiður golfvöllur. Útsýnið er stórfenglegt frá öllum vellinum. Það nær yfir nær allan gamla gráa bæinn St. Andrews og einnig sést yfir á annan nágrannavöllinn á St. Andrews Bay. Fimm brautir liggja við 2 km. klettótt og grýtt strandsvæði þar sem tugir metra eru niður í sjó. Skotinn ungi McLay Kidd skaust upp á stjörnuhiminn með hönnun Bandon Dunes vallarins á vesturströnd Bandaríkjanna. Hann hefur síðan gert Machrihanish Dunes á vesturströnd Skotlands. Þetta eru allt heimsþekktir og frábærir golfvellir.

Flatirnar með ótrúlegt landslag
Á hvítum teigum er Kastalinn um 6200 metrar og við fengum að spila á þeim því við Gylfi erum með forgjöf undir 5. Það var skilyrðið. Fimm teigar eru á hverri braut, þannig að allir geta fundið lengd við sitt hæfi. Einkenni vallarins eru auk stórfenglegs útsýnisins, ótrúlegt landslag á flötunum og mikið af kaf loðnum hólum á brautum sem og fyrir utan brautir. Þetta tvennt, flatalandslagið og hólarnir hefur verið efnisbrunnur í mikla umræðu. Mikið hefur verið bloggað á vefsíðum og skrifað í blöð. Einn heimamanna sem við hittum á vellinum sagðist mjög ánægður með völlinn en heyrði mikla umræðu, sérstakega um flatirnar. „Það kæmi mér ekki á óvart þó einhverjar þeirra yrðu sléttaðar,“ sagði hann.

Sjöunda holan svakaleg
Það eru margar fallegar brautir á Kastalanum. Á fyrri níu holunum fannst okkur sérstakt að tvær par 5 voru í röð, 4. og 5. hola, alls ekki slæmt þó en hvorugar virkilega fuglaholur. Brautirnar næst sjónum heilluðu okkur mest. Sú sjötta liggur niður á við, að sjónum með „hálf“-blint teighögg en það er nokkuð algengt á vellinum. Maður sér höggið meira en helming leiðarinnar en ekki hvar kúlan endar.

Sjöunda brautin (mynd til hægri) er ein af flottari holunum og ein sú erfiðasta. Upphafshöggið þarf að vera langt til að eiga þokkalega auðvelt innáhögg enda er bautin rúmir 400 metrar á hvítum teigunum. Sjórinn/ströndin liggur meðfram alla leiðina til vinstri og er hliðarvatnstorfæra. Við áttuðum okkur ekki á því strax, Eitt drævið hjá okkur var dregið út fyrir og við slógum annan bolta á teig. Þetta sést þó vel á Vallarvísinum (Stroke saver). Brautin eins og margar aðrar á vellinum er ekki breið í drævlengd um og yfir 200 metra. Fullt af glompum og vandræðaröffi er hægra megin. Áttunda er falleg par 3 og níunda braut er með hálf-blint upphafshögg en samt fín hola. Flötin sameinast 18. flötinni og er risastór.

Veitingasími á 9. braut
Kastalinn er með flotta þjónustu í mat og drykk. Á 9. brautinni er sími þar sem hægt er að hafa beint samband við eldhúsið í klúbbhúsinu. Við prófuðum þjónustuna, pöntuðum drykk og samloku sem við fengum afhent á bakhlið klúbbhússins á leið okkar upp að 10. teig.
Á seinni hringnum er 12. brautin mjög erfið, 410 metrar, par 4 og liggur öll upp í móti. Þrettánda fllötin er svakaleg, manni verður nánast flökurt, svo mikill er hallinn og sé maður of stuttur í upphafshögginu rúllar boltinn til baka tugi metra. Þá bíður manns vonlaust vipp af harðri brautinni upp í móti með einhverju fleygjárni.

Það er ekki laust við að maður reyti hár sitt á stundum í Kastalanum. Sautjánda holan er aðal hola vallarins eða svokölluð „signature hole“, par 3, 165 metrar og oft með vindinn á móti. Þetta er Bergvík þeirra Kastalamanna. Hér er slegið yfir ströndina sem liggur tugi metra fyrir neðan. Glæsileg golfhola. Átjánda er góð lokahola, par 5 í hundslöpp, meðfram ströndinni. Fjórar par 5 holur vallarins eru allar um og yfir 500 metrar.

Glæsilegar aðstæður
Æfingasvæðið er flott og klúbbhúsið nýtískulegt, hringlaga með góðum búningsherbergjum, flottri verslun og veitingasalur þar sem hægt er að horfa út á völlinn við strandlengjuna. Ekki leiðinlegt með kaldan í hönd og sveitta samloku eða góðan hádegisverð eftir hringinn.

Kastalavöllurinn er nefndur eftir Kinkell kastala sem stóð á þessu landi fyrr á öldum eða nánar tiltekið þar sem 9. og 18. flöt vallarins eru. Moneypennys, þekkt fjölskylda í bænum á þeim tíma átti landið og kastalann. Hjálmur var einkennismerki hinnar stóru Moneypennys fjölskyldu sem varði sinn kastala með hjálmum, sverðum og öðrum vopnum sem til þurfti í þá daga. Nú eru vopnin á gamla landinu þeirra bara golfkylfur og eigendur þeirra nota þær í baráttunni við nýjan Kastala í frábæru umhverfi í Mekka golfsins.
Þó umræðan sé misjöfn þá er engin svikinn af heimsókn í Kastalann í St. Andrews.

Sjá sjöundi í St. Andrews
Kastalavöllurinn er sjöundi völlurinn í eigu St. Andrews trust sem er félag í eigu samfélagsins. Fyrir eru náttúrulega Gamli völlurinn, The Old course þar sem Opna breska fer fram á fimm ára fresti, m.a. á næsta ári og einnig er Alfred Dunhill Links mótið þar fyrstu helgina í október ár hvert. Aðrir kunnir St. Andrews vellir eru The New course (Nýi völlurinn sem er þó rúmlega 100 ára) og það er aldrei of oft sagt frá því að Keflvíkingurinn Örn Ævar Hjartarson á enn lægsta skorið þar, 60 högg, 11 undir par. Hinir heita Jubilee, Eden, Strathyrum og Balgove. Nýleg klúbbhús eru við Nýja völlinn og Eden. Stór æfingasvæði er með 51 bás og glæsilegu vipp og púttsvæði.

Á mynd að ofan er Gylfi Kristinsson á 17. teig og myndin hér að neðan er tekin aftan við flötina. Glæsileg golfhola og „signature“ braut vallarins.


Í nágrenninu eru margir kunnir og skemmtilegir vellir eins og Duke’s (sjá umfjöllun annars staðar í blaðinu), Kingsbarns, St. Andrews Bay vellirnir, Scotscraig, Monifieth og aðeins lengra frá eru margir fleiri þekktir vellir. Kingsbarns var opnaður árið 2000 og þaut beint á topp tíu listann. Sumir hafa sagt að Kastalavöllurinn hafi átt að ýta Kingsbarns úr sessi en það er hæpið. Þetta er auðvitað allt hægt að sjá á netinu og þar er hægt að bóka og lesa sig til um t.d. á www.standrews.org.uk

Hér er Gylfi í glompu á 5. brautinni. Sjáið hólinn á miðri brautinn ekki langt frá flöt. Margir svona hólar eru á brautum vallarins sem og fyrir utan þær. Hér fyrir neðan sést yfir 7. flöt og trjágróður fyrir aftan hana. Áhinni myndinni gengur Gylfi eftir 6. brautinni sem liggur í átt til sjávar.

Klúbbhúsið er glæsilegt og nýtískulegt, ekki alveg í stíl við gömlu húsin við Gamla völlinn í St. Andrews. Þarna inni er flott golfverslun og góður veitingastaður.

Texti og myndir: Páll Ketilsson.