Isleworth – hinn erfiði heimavöllur Tigers

Það er sérstök tilfinning að vera á leiðinni á heimavöll Tigers. Til að leika þar þarf maður að þekkja einhvern íbúa í Isleworth hverfinu í Orlando en völlurinn ber sama heiti. Og það er ekki líklegt að maður þekki einhvern í Isleworth til að bjóða manni hring því þar búa aðallega stórstjörnur úr íþróttaheiminum og þekkt eða mjög efnað fólk. En við Íslendingar eigum það til að geta laumað okkur inn á ólíklegustu staði.


Liðsmenn Golfs á Íslandi og kylfings.is, sjálfur ritstjórinn og frændur hans, trióið Svanur, Margeir og Garðar Vilhjálmssynir duttu í lukkupottinn árið 2007 og var boðið til Isleworth af hinum bandaríska golfarkitekt Steve Smyers en hann hefur í samvinnu við Nick Faldo hannað Black Sand völlinn sem byggja á í Þorlákshöfn. Smyers hefur hannað nokkra tugi golfvalla í Bandaríkjunum m.a. þekkta velli á borð við Old Memorial en hann kom fyrst að breytingum á vellinum 1993 en nokkrum árum síðar endurhannaði hann og gerði Isleworth völlinn m.a. með hliðsjón af því að nokkrir tugir pga-kylfinga byggju á svæðinu, þar á meðal Tiger nokkur Woods. Smyers hefur hannað fleiri velli með Nick Faldo m.a. Chart Hills völlinn í Kent í Englandi en þessa stundina vinnur hann einnig að velli í Dubai.

Palmer hannaði innan um appelsínutré
Isleworth var upphaflega hannaður af gömlu kempunni Arnold Palmer en hann flaug sjálfur yfir svæðið sem var umlukið appelsínutrjám á 800 ekrum.
Völlurinn er erfiður eftir breytingarnar hjá Steve Smyers. Það er mikið landslag í flötunum á vellinum, slatti af trjám og mikið af glompum en það var sérstaklega hugað að hönnun þeirra. Á 7. braut má til dæmis sjá þrjár brautarglompur mynda orðið „sex“! Það er þó ekki hægt að sjá það vel nema úr lofti! Þá eru sjö vötn sem öll renna alla leið í Atlantshafið umleikis völlinn og þau koma víða í leik.

„Við urðum að taka tillit til þess að hér eru nokkrir tugir kylfinga sem leika á PGA-mótaröðinni, bæði hvað varðar að þetta var þeirra heimavöllur og svo þurfti að huga sérstaklega að æfingaaðstöðunni“, sagði Steve Smyers um breytingarnar á Isleworth golfvellinum. Í Orlando er annað hverfi með þekktum golf- og íþróttastjörnum, nokkurs konar systurhverfi en það heitir Lake Nona en eigendur beggja hverfanna er fyrirtækið Tavistock en samnefnt mót sem haldið hefur verið undanfarin 3 ár er milli heimsþekktra kylfinga sem mynda lið Isleworth og Lake Nona. Þar fara Tiger og Ernie Els fremstir í flokki en þar má líka nefna Sergio Garcia, Justin Rose, Ian Poulter, Mark O´Mera, Lee Janzen og fleiri. Mótið er haldið til skiptis á Lake Nona og Isleworth.

Sérstök upplifun
Það er sérstök upplifun að leika Isleworth völlinn. Við hann eru mörg skúlptúr listaverk sem eru til sölu fyrir marga tugi milljóna króna. Á hverju ári seljast verk fyrir margar milljónir dollara. Húsakynni íbúanna eru glæsileg og flest risavaxin (mjög algengt að sjá hús frá þúsund til 1500 fermetra og enn stærri og kosta líka margar milljónir dollara. Eitt þessara glæsihýsa er í eigu körfuboltastjörnunnar Shaq O’Neal. Við gátum séð það frá 14. flötinni. Við villuna er einkabaðströnd fyrir körfuboltarisann!


Isleworth er 7544 jardar eða um 6750 metrar af Tiger-teigum. Völlurinn var útnefndur sem erfiðasti og lengsti völlurinn í Flórída af golfsambandi fylkisins. Það eru margar glæsilegar golfholur en okkar fannst mikið til 2. brautar koma sem er löng par 3 yfir eitt af sjö vötnum við völlinn, 3. braut er lengsta braut vallarins um 580 metrar og aðeins fyrir Tiger eða Els og félaga að slá inn á í tveimur höggum! Níunda brautin er leikin meðfram einu vatninu og það er tólfta holan líka að hluta til og með „blindu“ upphafshöggi í kaupbæti! Sautjánda er gríðarerfið par 5 og lokaholan, sú átjánda er það líka. Þar sló JB Holmes, PGA-kylfingur með dræver og stytti sér leið yfir hluta af vatninu við brautina og boltinn lenti stutt frá flöt á 430 metra langri holunni. Tiger tekur vanalega 3 járn og kemur sér í vænlega stöðu á brautinni, - tekur ekki svona áhættu!

Tiger friðhelgur
Tiger býr við hliðina á æfingasvæðinu og eins og allir alvöru kylfingar þá fórum við og hituðum upp þar áður en við héldum út á völl. Ókum á golfbílunum framhjá nokkrum PGA-leikmönnum, t.d. Nick O’Hearn sem hafði nýlega unnið Tiger í heimsmótinu í holukeppni. Þá heilsuðum við upp á Lee Janzen en hann hefur tvívegis sigrað á Opna bandaríska mótinu (US Open) en hann er einn margra þekkta kylfinga sem búa í Isleworth. Smyers þekktir Janzen vel og sagði honum hvað það væri auðvelt að fljúga til Íslands frá Bandaríkjunum. Eftir að hafa slegið í nokkra stund kom kunnur kappi á golfbílnum sínum og byrjaði að sveifla og slá. Jú, Tigerinn var mættur á æfingasvæðið og sló með járnunum í gríð og erg, klæddur stuttbuxum og golfpeysu. Við laumuðumst til að skjóta nokkrum ljósmyndum af Tiger en vorum beðnir að vera ekki með neina „papparassi“-takta. Ástæða fyrir því að stórstjörnurnar vilja eiga heima í Isleworth er sú að þær fá frið og Tiger er eiginlega friðhelgur þarna. Svo við létum okkur nægja að horfa á hann slá nokkra tugi metra frá okkur. Ekki mjög leiðinlegt að vera að æfa á sama tíma og goðið og leika svo heimavöllinn hans á eftir.


Áður birt í Golf á Íslandi í maí 2007.
Páll Ketilsson.

Eitt af rándýrum og fjölmörgum listaverkum á Isleworth golfvellinum.

Vilhjálmssynir, f.v. Garðar, Svanur og Margeir lengst til hægri með Lee Janzen og Steve Smyers.

Þetta er höllin hans Shaq O'Neal, körfuboltakappa. Hún er staðsett við Isleworth völlinn.

Klúbbhúsið er ekkert slor.