Húsatóftavöllur tekur stóra skrefið

Húsatóftavöllur tekur stóra skrefið

Golfklúbbur Grindavíkur fagnaði 30 ára afmæli sínu í haust og má með sanni segja að klúbburinn standi á tímamótum. Húsatóftavöllur mun formlega stækka í 18 holur næsta sumar en stækkun vallarins er á lokastigum og gætir nokkurrar eftirvæntingar meðal Grindvíkinga með að völlurinn fullorðnist í 18 holur. Afmælisdagurinn var haldinn með pompi og prakt þann 3. september síðastliðinn þar sem klúbbfélögum og velunnurum klúbbsins var boðið að leika völlinn sem 18 holur í fyrsta sinn. Mikil ánægja ríkir meðal klúbbfélaga með stækkun vallarins sem hefur verið undir handleiðslu feðganna Hannesar Þorsteinssonar golfvallahönnuðar og Bjarna Hannessonar vallarstjóra á Húsatóftavelli. Auk þess að stækka völlinn um fimm holur verður nýtt klúbbhús tekið í gagnið næsta vor. Það er því mikill uppgangur í golfinu í Grindavík og er Páll Erlingsson, formaður GG, hæstánægður með hvernig til hefur tekist.

Það ríkir í raun eintóm sæla innan klúbbsins með árangurinn í sumar. Það er frábær andi í klúbbnum og félagsmenn eru gríðarlega sáttir með hvernig völlurinn hefur verið í sumar og hvernig til hefur tekist með stækkun vallarins,“ segir Páll kátur í bragði.

Klúbburinn telur u.þ.b. 230 meðlimi og er því ekki úr vegi að spyrja hvernig klúbburinn getur fjármagnað stækkun vallarins og reist nýtt klúbbhús á þeim erfiðu tímum sem nú ríkja í efnahagsmálum? „Svona hlutir gerast ekki nema með samstilltu átaki. Hér er mjög vel haldið utan um fjármálin. Vallarstjórinn á einnig stóran þátt í því þar sem honum hefur tekist að gera frábæra hluti úr litlu fjármagni. Við höfum verið vel styrktir af fyrirtækjum og bæjarfélaginu sem við erum mjög þakklát fyrir. Í dag er klúbburinn skuldlaus og það hvíla engin lán á klúbbnum.“

Fimm nýjar brautir og nýr skáli

Blaðamaður Golfs á Íslandi var einn þeirra sem fékk tækifæri til að leika Húsatóftavöll sem 18 holur í afmælismóti klúbbsins. Völlurinn stækkar ennþá lengra inn í hraunið í mjög skemmtilegt landslag. Flatir vallarins voru komnar vel á veg en brautirnar áttu enn nokkuð í land en munu væntanlega taka vel við sér næsta vor. Hönnun nýju brautanna er vel heppnuð og gaman að sjá hvernig völlurinn fléttast inn í harðgert landslag þar sem hrauntungur grípa augað. Að auki eru gerðar breytingar á eldri hluta vallarins sem koma vel út.

Nýju holurnar eiga eftir að verða stórkostlegar. Þegar völlurinn opnar sem 18 holur þá getum við með sanni sagt að hér séum við með þrískiptan völl. Við erum með strandvöll, rótgróinn túnvöll og svo nokkrar brautir í hrauni. Slíkan völl er erfitt að finna þó víða væri leitað. Við erum gríðarlega stolt af nýju holunum og hvernig þessar brautir eiga eftir að líta út í framtíðinni. Við erum að eignast perlu í einni af nýju brautunum sem mun spilast sem par-5 hola. Það eiga margir eftir að verða ástfangnir af þeirri braut og flötin á eftir að verða ein sú falleg-asta á landinu. Þessar nýju brautir í hrauninu eru kannski ekkert sérstaklega langar en þær leyna á sér og refsa mjög auðveldlega. Við bætum við fimm nýjum brautum og gerum breytingar á tveimur núverandi brautum vallarins sem munu spilast með öðrum hætti en þær hafa gert til þessa. Við erum að ljúka öðru þrepi við stækkun vallarins en það er ljóst að völlurinn kemur líklega til með að taka fleiri breytingum á næstu árum,“ segir Páll en hvenær má búast við að völlurinn opni formlega sem 18 holur?

Við opnum völlinn sem 18 holur þegar hann er tilbúinn en ég get lofað því að það verður næsta sumar. Við höfum alltaf farið hægt í sakirnar hér í Grindavík og bíðum þolinmóðir þar til að Bjarni vallarstjóri gefur okkur grænt ljós. Við stefnum hins vegar að því að opna nýtt klúbbhús næsta vor og framkvæmdir á því eru langt komnar. Nokkrir eldri félagar í klúbbnum hafa unnið gífurlegt sjálfboðastarf við að taka þetta gamla íbúðarhús í gegn og gera úr því skála. Þessi nýja aðstaða mun umbylta starfi klúbbsins.“

Gestir lofsyngja völlinn

Aðsókn á Húsatóftavöll hefur aldrei verið meiri en í sumar. Að sögn Páls hefur völlurinn litið feikilega vel út í allt sumar og viðbrögð gesta ekki látið á sér standa. „Þeir kylfingar sem koma hingað halda hreinlega ekki vatni yfir því hversu góður völlurinn okkar er. Völlurinn hefur komið mörgum kylfingum gríðarlega á óvart og sumir líkja vellinum við náttúruperlu. Ég get vel tekið undir það.“

Páll segir að eftir stækkun vallarins þá ætti klúbburinn að geta fjórfaldað stærð sína í félögum. Hann viður-kennir að erfitt verði að ná slíkum fjölda en vonast til að fjölgun verði í klúbbnum í kjölfar þessara tímamóta.

Hér er nóg pláss. Við erum mjög hófsamir í árgjöldum og einstaklingsgjaldið hjá okkur verður í kringum 50 þúsund krónur. Við erum með afsláttargjöld fyrir öryrkja, ellilífeyrisþega, námsmenn og unglinga. Einnig erum við með hjónagjald sem er lægra hjá okkur en einstaklingsgjaldið er í flestum klúbbum á höfuðborgarsvæðinu. Á Húsatóftavöll eru allir hjartanlega velkomnir.“


Nokkrar breytingar verða á Húsatóftavelli í kjölfar stækkunar í 18. holur. Hér að ofan má sjá 11. holu vallarins sem verður par-5 braut eftir breytingar.


Grindvíkingar binda miklar vonir við nýja par-5 braut sem verður 5. braut vallarins. Flötin er skemmtileg og er rækilega varin hrauni allt í kring.


Ný par-3 braut sem verður 6. hola vallarins. Stæði flatarinnar er í fallegu landsslagi.