Hraunkot heitir nýtt æfingasvæði Keilis

Golfklúbburinn Keilir fagnaði í gær, 25. apríl, 40 ára afmæli klúbbsins og tók við það tilefni formlega í notkun nýtt æfingasvæði. Keilir efndi til nafnasamkeppni um nýja svæðið og var hún öllum opin. Á afmælinu í gær var æfingasvæðinu gefið nafn og hlaut það nafnið Hraunkot. Tillöguna átti Guðmundur Hjörleifsson en nafnið vísar í kotin sem voru á Hvaleyrinni og hraunið þar í kring en Guðmundi var veitt viðurkenning á afmælishátíðinni í gær.

Þegar Keilir var stofnaður árið 1967 kom hann sér upp 6 holu velli í byrjun sem fljótlega var stækkaður í 9 holur. Árið 1985 var völlurinn stækkaður í 18 holur og 1992 var nýr golfskáli sem kom í stað gamla klúbbheimilið sem voru Bæjarhúsin að Vesturkoti.

Ný heimasíða var tekin í notkun og er hún á slóðinni: www.keilir.is. Þar er meðal annars hægt að panta rástíma, sjá veðurupplýsingar og þá eru vefmyndavélar á æfingasvæðinu.

Ákveðið er að fresta afmælismóti Keilis sem halda átti laugardaginn 28. apríl til laugardagsins 5.maí nk, en þá verður völlurinn formlega opnaður. Þeir sem þegar hafa bókað rástíma halda þeim tímum. Ef breyta þarf rástímum vinsamlegast hafið samband við skrifstofuna í síma 565-3360.

Aðstaðan ein sú besta sem þekkist
Bergsteinn Hjörleifsson, formaður GK, sagði að síðasta ár og það sem af er þessu ári teljast með mestu framkvæmdar árum í sögu golfklúbbsins frá upphafi, ef ekki það mesta. „Eitt af mörgu sem hefur glatt Keilis hjörtun er þegar hafist var handa um áramótin við vörn Hvaleyrarinnar og er það mikið gleðiefni fyrir okkur kylfinga og áhugamanna um sögu Hvaleyrarinnar. Árið 2005 hófust framkvæmdir á æfingasvæðinu. Nú tveimur árum seinna er þessum áfanga og ljúka. Æfingasvæðið og aðstaðan er eitt af því besta sem þekkist. Við erum nú með á einu svæði fullkomna inniaðstöðu fyrir pútt og vipp æfingar, 8000 fermetra úti aðstöður fyrir pútt og vipp æfingar og fullkomið æfingasvæði til að æfa sveifluna fyrir lengri högg þar sem hægt er að loka hverju Koti fyrir sig. Stór og rúmgóð aðstaða eru fyrir kennara þar sem þeir geta lokað aðsér og einbeitt sér að kennslu,“ sagði Bergsteinn Hjörleifsson, formaður GK í ræðu sinni á afmælishátíð sem fram fór í golfskálanum á Hvaleyrinni.

Hann sagði að við uppbyggingu á æfingasvæðinu hefur skapast afbragðs aðstaða fyrir unglingastarfið hjá Keili, þarna hafi þau aðstöðu fyrir sitt félagsstarf, í stóru og góðu rými.

Afmælisblað Keilis
Glæsilegt afmælisrit hefur verðið í undirbúningi og verður gefið út um miðjan maí. Þar verður saga Keilis rakin af Gísla Sigurðssyni. Jónatan Garðarsson hefur ritað sögu Hvaleyrarinnar og Páll Ketilsson og hans menn verða með viðtöl og skrifa aðrar greinar í blaðið.

Stærsti golfviðburður ársins, Íslandsmótið í höggleik, fer fram á Keilisvellinum í sumar. „Við erum stoltir af því að fá tækifæri til að halda þetta mót og sýna keppendum að við bjóðum uppá topp aðstöðu. Stórmót eins og Íslandsmót krefst þess að vellir séu í góðu standi, næg bílastæði séu til staðar, gott húsnæði ásamt góðri æfingaaðstöðu. Og eru þetta allt þættir sem við bjóðum nú upp á,“ sagði Bergsteinn.

Nýr völlur!
Bergsteinn sagði að undirbúningur væri hafinn fyrir nýtt golfvallarsvæði og er verið að finna heppilega staðsetningu vallarins í nágrenni við Hvaleyrarvatn. „Einnig er fyrirhugað er að gera breytingar á vellinum á Hvaleyrinni eins og kynnt var á aðalfundi árið 2003. Teikning af breytingum hanga uppi í golfskálanum. Þá er búið að teikna stækkun golfskálans, en ekki hefur verið ákveðið hvenær ráðist verður í þær framkvæmdir,“ sagði formaður GK.

Bergsteinn þakkaði bæjarstjórn Hafnarfjarðar fyrir gott samstarf á liðnum árum, ennfremur vildi hann þakka bæjarstjórn fyrir þátt þeirra í uppbyggingu á íþróttamannvirkjum Keilis. Skrifað var undir samning um lokauppgjör frá bænum vegna framkvæmdanna. Bærinn lagði alls 130 milljónir til framkvæmdanna á vellinum (2005 – 2007) og var lokauppgjörið upp á 40 milljónir króna.

Stofnfundur 18. febrúar 1967
Alls voru 64 mættir í Félagsheimili Kópavogs þegar stofnfundur Keilis var haldinn 18. febrúar, 1967. Þar var Golfklúbburinn Keilir formlega stofnaður og fyrsta stjórn var kjörin. Í henni áttu sæti Jónas Aðalsteinsson, formaður, Sigurbergur Sveinsson og Sigurður Helgason. Tveir meðstjórnendur voru kjörnir; Hafsteinn Hansson og Rúnar Guðmundsson.

Aðspurður um nafnið á golfklúbbnum sagði Jónas Aðalsteinsson að Keilisnafnið hefði verð reist á þeirri hugmynd að fjallið Keilir sæist vel úr öllum sveitarfélögunum, sem menn vildu þá að stæðu að klúbbnum; Hafnarfirði, Garðabæ, Kópavogi og Bessastaðahreppi.

Hér má einnig sjá myndaseríu frá afmælisdeginum, 25. apríl 2007.

Myndir/Kylfingur.is: Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri og Bergsteinn Hjörleifsson, formaður GK, klippa hér á borðann og opna formlega nýja æfingasvæðið, Hraunkot, í gær.