Hertoginn í St. Andrews stendur undir nafni

Hvernig er að vera fyrsti og eini skógar- eða „inland“-völlurinn í Mekka linksarana? Hertoginn eða The Duke’s er með útsýni yfir gamla gráa bæinn og býður kylfingum upp á annars konar golf en þeir eiga að venjast á golfvöllum í St. Andrews.


Völlurinn var opnaður 1995 af sjálfum hertoganum af York, Prince Andrew, en hann er góður kylfingur. Hönnuður vallarins var enginn annar en fimmfaldur British Open meistari, Ástralinn Peter Thomson. Það þótti djörf framkvæmd á sínum tíma að opna golfvöll ekki við sjávarsíðuna í St. Andrews heldur inni í landinu, reyndar aðeins 3 km. frá miðbæ St. Andrews og stendur hátt uppi í Craigtoun garðinum. Útsýnið frá klúbbhúsi og mörgum brautum nær alveg inn í gamla bæinn, þar á meðal sést vel í Old Course hotel sem er flottasta hótelið í golfbænum en eigendur þess byggðu Hertogann til að geta boðið gestum sínum tilbreytingu frá strandvöllunum í St. Andrews.


Á Duke’s hafa meira að segja Íslendingar látið gaminn geysa og leikið þar golf. Steinar Sigtryggsson úr Golfklúbbi Suðurnesja gerði sér lítið fyrir í Skotlandsferð GS félaga og fór holu í höggi í 3. braut. Það var árið 2000. Nokkrum árum síðar var ákveðið að fríska aðeins upp á völlinn með talsverðum breytingum á brautum, glompum, teigum, flötum og fleiru. Sem sagt; ítarleg andlitslyfting sem innihélt eitthvað meira en bótox í kinnar, eða þannig.
Skotar elska Bandaríkjamenn vegna hinna öru heimsókna þeirra til golflandsins sem Skotland er í hugum Kana. Það er hins vegar bandarískt fyrirtæki (Kohler Co. of Kohler) sem á völlinn og hótelið og eigendurnir réðu heimamann til að breyta vellinum. Skotinn Tim Liddy sem starfað hefur með hinum þekkta golfvallarhönnuði Pete Dye var fenginn til verksins og Liddy lét hendur standa fram úr ermum. The Duke’s er mjög fallegur golfvöllur bæði á sumrin og ekki síður í haustlitunum en þannig lékum við hann núna í byrjun október.


Breytingarnar frá upphaflegu hönnuninni eru meðal annars þannig að holum 13 til 18 var breytt frá grunni. Nýjar flatir og nýjar brautarglompur auk annarra útlitsbreytinga voru gerðar á holum 1 til 9. Fimm nýir teigar voru byggðir á öllum holum vallarins og á öftustu teigum (svörtum) er völlurinn 7512 jardar eða um 6500 metrar. Ein mjög stór breyting á vellinum var á glompum en þær fengu „gamalt“ (en þó nýtt) útlit, þ.e. þær voru gerðar eins og glompur voru í kringum 1900. Þær eru áberandi fyrir „loðna“ kanta sem gefur mikinn svip á umhverfið.


Það eru margar góðar golfbrautir á Hertoganum. Fyrsta holan er par 5, ágætis byrjunarhola sem býður upp á þokkalegt pláss fyrir upphafshöggið með dræver. Önnur holan eru umkringd alla leið frá teig að flöt með háum trjágróðri en þúsundir trjáa af mörgum gerðum prýða völlinn og ramma hann inn. „Loðnu“ nýju glompurnar eru margar á hverri einustu braut í drævlengd og það þarf að hafa sterklega í huga áður en maður tekur upp „dræverinn“. Það þarf að huga að staðsetningar þættinum á hverri einustu braut. Einnig eru margar stórar glompur við flatir sem eru með lúmsku broti en þó ekki nándar nærri eins miklu og á nýjasta vellinum í St. Andrews, Kastalavellinum. Besta brautin á fyrri níu holunum er sú sjötta (Gylfi Kristinsson slær á teig á mynd hér að neðan) en það er erfið par 4 hola með teiginn miklu hærra staðsettan en sjálfa brautina. Svarti teigurinn er inni í trjánum, tugum metra hærra en brautin, mjög flott. Á seinni er 13. brautin stutt en mjög skemmtileg því hæðar mismunur er mikill frá braut og niður á flöt. Útsýnið norður til bæjarins er flott á þessum stað.


Völlurinn er nokkuð víðfemur og hæðóttur þannig að stór golfbílaflotinn gefur það í skyn að það sé nokkuð vinsælt að nota einn slíka við golfleik á 18 holum. Hertoginn er þó alls ekki þannig að það sé ekki hægt að ganga hann.
Klúbbhúsið er nýtískulegt en samt hlýlegt með alla þjónustu. Hægt er að setjast út á stórar svalirnar og horfa niður á 9. flötina. Golfverslunin er fín og veitingaþjónustan góð. Búningsherbergi eru mjög góð og ef þið eruð svolítið 2007 þá er gott að vita af þyrlupallinum á staðnum.

MEIRA UM HÓTELIÐ
Ýmsar upplýsingar
Flatargjöld frá 50 til 110 sterlingspund (kr 10.000-22.000.)
Sími: 01334 470214
Teigtímapantanir: reservations@oldcoursehotel.co.uk
www.playthedukes.co.uk

Fjórtánda brautin er stutt og liggur niður í móti en teigurinn stendur hátt.

Útsýnið er gott yfir gamla grá golfbæinn.

Glompunum var breytt fyrir þremur árum en auk þess voru gerðar fleiri breytingar á vellinum, mjög til hins góða.

Skoska flaggið er flott á 18. flötinni.

Séð frá röffinu neðan við 9. flötina. Klúbbhúsið stendur á flottum stað og þar er ljúft að fá sér eitthvað svalandi eftir hring.

Séð yfir 9. flötina og hluta brautarinnar.

Þegar fréttamenn kylfings.is og Golfs á Íslandi voru í St. Andrews sl. haust kom þessi flotti farfugla hópur yfir völlinn.

kylfingsmyndir/pket.