Hellishólar

Falin perla í golfflóru landsins

Skemmtileg uppbygging á golfsvæðinu á Hellishólum í Fljótshlíð. Hjónin Laila Ingvarsdóttir og Víðir Jóhannsson hafa staðið í ströngu undanfarin ár við uppbygginguna:

Þverárvöllur á Hellishólum í Fljótshlíð er að margra mati falin perla í golfflóru Íslands. Uppbygging á Hellishólum sem eru staðsettir mitt í sögusviði Brennu-Njálssögu hefur verið stöðug í rúman áratug og þar er nú 18 holu golfvöllur og öflug ferðaþjónusta með gistingu og öllu tilheyrandi í nálægð við magnaða náttúru landsins í nágrenni Eyjafjallajökuls.

„Þetta hefur vaxið hægt og bítandi og við fáum marga hér um helgar, oft nokkur hundruð manns. Við viljum fá fleiri heimsóknir hins almenna kylfings en við erum í klukkustundar fjarlægð frá Reykjavík. Það hefur þó verið erfitt að fá marga til að trúa því hvað hér er í boði með 18 holu golfvöll, gistimöguleikum og veitingaþjónustu,“ segir Víðir Jóhannsson en hann og kona hans Laila Ingvarsdóttir tóku við aðstöðunni á Hellishólum árið 2004 og hafa síðan stöðugt verið að bæta hana. Hellishólar voru byggðir árið 1952 og var hefðibundinn búskapur á jörðinni til ársins 2000 þegar henni var breytt í ferðaþjónustu.Golfvöllurinn stækkaður
Þverárvöllur var níu holur þegar þau hjón tóku við á Hellishólum og það varð strax markmið hjá þeim að stækka hann í 18 holur en því starfi lauk fyrir þremur árum. Auk stækkunar vallarins, en þar naut Víðir aðstoðar margra góðra kylfinga á Íslandi og einnig frá ensku golfkonunni Denis Hastings, hefur verið byggður 9 holu par 3 völlur og gott æfingasvæði. Síðustu þrjú árin hafa afrekshópar Golfsambands Íslands komið í þriggja daga æfingabúðir á Hellishóla og hafa forráðamenn GSÍ lofað aðstöðuna. Nú í sumarbyrjun var svo fyrsta mót á vegum GSÍ haldið á Þverárvelli þegar unglingar á Arion banka mótaröðinni kepptu í tvo daga í frábæru veðri.

Náttúran nýtt
Víðir segir að við uppbygginguna á golfvellinum hafi verið haft hugfast að nýta náttúruna eins og hægt væri, magnað útsýni og umhverfi, ár og vötn þar sem hægt er að veiða fisk í, en vatn er víða í hlutverki torfæru á vellinum. Víðir var tvö sumur að vinna við gerð teiga og flata og nýjum níu holum (4. til 13.) en á landssvæðinu var mikið um lága runna. Þeir voru allir tættir niður í svörðinn sem síðan var notaður með jarðvegi af svæðinu sem nóg er til af, sem áburður. Gríðarlegt magn af vikri sem safnast hefur upp í áranna rás m.a. úr Kötlugosum, auk sands og moldar er blanda sem allir vilja hafa aðgang að við gerð golfvallar og það sparaði mikið við uppbyggingu nýrra golfholna á Hellishólum. Ekki skemmir að þetta er úrvals efni í gerð flata og teiga.
„Ég þurfti aldrei að kaupa jarðveg. Hér eru námur sem ég get gengið í á landinu mínu sem telur um 180 hektara. Ég hef t.d. í tilraunaskyni samhliða uppbyggingunni á svæðinu, ræktað upp 15 ha af flatargrasi sem ég hef síðan notað sjálfur en nýju flatirnar sáðum við þó í en tyrfðum teigana. Ég get núna skaffað öðrum gott flatargras,“ segir Víðir og bætir við að hann sé vel tækjum búinn til að hirða golfvöllinn.

Það liggur þá beint við að spyrja út í fjárhagslegu hliðina, hvernig það hafi gengið í þessari uppbyggingu sem hlýtur að hafa kostað sitt?
„Við eigum vélar og tæki sem hafa kostað um 70 millj. kr. en ég hef ekki tekið nein lán. Við höfum gert þetta á 7-8 árum og reksturinn er alltaf að verða betri. Við höfum bætt við gistirými og fleira tengt þeim þætti. Þetta var lítið í byrjun en hefur aukist jafnt og þétt en við myndum þó glöð vilja sjá fleiri kylfinga nýta sér svæðið. Völlurinn hefur fengið góða dóma. Hann er ekki of langur en hann er fjölbreyttur og skemmtilegur. Það er iðulega mikið líf hér um helgar, jafnvel nokkur hundruð manns á svæðinu en mun færri í miðri viku“.Kúnnar hurfu í gosinu
Víðir segir að gosið í Eyjafjallajökli fyrir tveimur árum hafi haft slæm áhrif á reksturinn. „Það kom enginn hérna í nærri tvo mánuði eða frá miðjum apríl og fram í miðjan júlí. Við sluppum betur í gosinu í fyrra í Grímsvötnum“.

Gistiaðstaða er mjög fjölbreytt á Hellishólum þar sem hægt er að velja úr gistirými í smáum sem stærri húsum og á svæðinu eru m.a. heitir pottar og stórt tjaldsvæði með leiktækjum. Stór golfskáli með veglegri veitingaaðstöðu gerir kleift að taka á móti smáum sem stórum hópum og sem dæmi má nefna að undanfarin ár hafa enskir hópar skólabarna sótt Hellishóla heim. „Það gerðist þannig að enskur kennari kom hérna við og varð svo hrifinn að síðan hafa enskir skólahópar verið hluti af föstum viðskiptavinum hérna,“ segir Víðir.

En hvað er það sem fær fólk til að fara í svona stórt dæmi?
Víðir hlær við spurningunni en það liggur ekki á svarinu: „Ætli það sé ekki ævintýramennska. Það er gaman að byggja upp. Við höfum reyndar rekið tvö önnur fyrirtæki og annað þeirra í fjörutíu ár svo það er í nógu að snúast,“ segir Víðir sem lék golf sem unglingur en hætti svo fyrir tvítugt en byrjaði aftur um fertugt. Frúin stundar íþróttina ekki síður en hann á milli þess sem hún gengur frá pappírum og bókhaldinu og tekur á móti gestum sem koma á svæðið.

-

-Fjölbreytt gistiaðstaða
Á Hellishólum er hægt að fá gistingu í húsum frá 15 m2 upp í 120 m2 hús. Í minnstu húsunum er gisting fyrir 2-3 en í stærstu húsunum komast allt að 18 manns í svefnpláss.