Hartl Resort í Þýskalandi

Hverjum hefði dottið í hug að stærsta golf svæði (resort) í Evrópu væri í Þýskalandi. Þetta er ekki beint fyrsta landið sem ferðavönum kylfingum dettur í hug ef þá langar í golf í útlöndum. Hartl Resort í bænum Bad Griesbach er mitt á milli stórborgarinnar Munchen í Þýsklandi og Vínar í Austurríki og þar eru hvorki færri né fleiri en fimm golfvellir, þrír 9 holu og tveir 6 holu vellir fyrir börn. Á svæðinu eru tvö háklassa hótel og önnur gistiaðstaða í fremstu röð, frá fimm stjörnum og niður. Og það eru engin smá nöfn sem tengjast þessu risavaxna golfsvæði heldur stórjaxlar á borð við Bernhard Langer, fyrrverandi Ryder fyrirliða og knattspyrnukeisarann sjálfan, Franz Becenbauer.

Eigandi svæðisins fann heitt vatn á landinu og taldi það geta verið góða fjárfestingu að byggja heilsuhótel þar sem gestir gætu fengið heilsumeðferð í hitaveituvatni, ekki ósvipað og gerist hér á Íslandi. Til að byrja með var Hartl svæðið þekkt fyrir að vera einn flottasti spa staðurinn í Evrópu. Vinur eigandans, Franz Becenbauer sagði honum að golf væri framtíðin og peningum hans yrði vel varið í að byggja upp stórt golfsvæði á þessu „heita“ og glæsilega landi. Og það varð ofan á. Bygging svæðisins hófst 1990. Fyrsti golfvöllurinn opnaði 1993. Bernhard Langer hefur hannað þrjá vellina og einn þeirra er nefndur eftir Beckenbauer. Annar er nefndur eftir bílarisanum Mercedes Benz en þessir tveir eru topp vellirnir. Þjóðverjar eru ekki þekktir fyrir að vera annað en stórir og sterkir og helst mestir í sem flestu.

Ekki aðeins eru glæsilegir golfvellir á svæðinu. Þar er líka stórt og fullkomið æfingasvæði með 210 básum auk pútt- og vippaðstöðu. Tuttugu æfingabásar eru upphitaðir til notkunar á vetri og þá er 18 holu innipúttflöt til sömu nota. Þrjátíu og sex golfkennarar starfa á svæðinu og sinna byrjendum, ungum sem öldnum sem betri kylfingum meðal annars með videotækni. Árlega heimsækja 30 þúsund kylfingar Hartl Resort. Svo stórt er golfsvæðið að á því væri pláss fyrir eitt þúsund fótboltavelli.Svo hrifinn varð hinn hægláti en snjalli kylfingur, Bernhard Langer, sem lengi bar þýska fánann hátt í golfi í golfheimi þeirra bestu með frábærum árangri, að hann samþykkti að tengjast þessu glæsilega golfsvæði. „Uppbyggingin í Bad Griesbach hefur verið til fyrirmyndar og hefur átt þátt í þróun og stækkun íþróttarinnar í Þýskalandi undanfarna tvo áratugi,“ sagði Bernhard Langer. Í lok apríl síðastliðinn fór fram golfmót á svæðinu þar sem 712 keppendur mættu til leiks og léku golfhring á sama tíma. Aldrei fyrr hafa jafn margir tekið þátt í einu golfmóti og afrekið fékkst skráð í heimsmetabók Guiness en keppendur voru ræstir út á sama tíma á fimm golfvöllunum í Bad Griesbach og þeir gistu líka allir á hótelunum. Margar 19. holur er að finna, stórir sem smáir barir og veitingastaðir.

Gistiaðstaðan er á misjöfnu verði, eftir stjörnufjölda hvers hótels og því er hægt að fá gistingu og golf á viðundandi verði með mat og golfi. Svæðið er í innan við tveggja klukkukstundar akstursfjarlægð frá flugvellinum í Munchen. Örlítið lengra er frá flugvellinum í Vín. Fyrir þá sem vilja gera sér skemmtilegan dagamun í golfi og huggulegheitum ættu að kíkja á það sem er í boði á Hartl Rersort, þó svo að Evran sé eins og hún er.

Myndir/Kylfingur.is - Páll Ketilisson