Handboltakappi í Mekka golfsins

„Þetta er ótrúlegur golfvöllur og stórkostleg upplifun að leika á honum, án efa mesti völlur sem ég hef farið á“, segir Kristján Arason, fyrrverandi handboltastjarna en hann lék nokkra golfvelli í St. Andrews í Skotlandi á haustdögum, - en bærinn er jafnan nefndur Mekka golfsins eða „Home of golf“. Einn af völlunum sem Kristján lék var Kingsbarns en þar fer nú fram Dunhill-Links golfmótið á Evrópsku mótaröðinni en mótið fer einnig fram á Gamla vellinum í St. Andrews og á Carnoustie en þessir tveir síðarnefndu eru fornfrægir golfvellir í Skotlandi.

Golfdella eftir handbolta
Kristján sem flestir þekkja úr íþróttaheiminum eftir farsælan handboltaferil er kominn með króníska golfdellu. Hann hafði lengi dreymt um að fara í golf til Skotalands og lét verða af því um síðustu helgi með GB ferðum. Ferðinni var heitið í Mekkað, St. Andrews og gist á Russacs hótelinu sem stendur við 18. brautina á Gamla vellinum, Old course.

Kristján og félagar hans úr GB ferðum og ritstjóri kylfings.is léku 5 golfhringi á 3 dögum, þar af tvo af gömlu völlunum í St. Andrews en á svæðinu þar sem Gamli völlurinn liggur eru fimm aðrir vellir. Leiknir voru Jubilee og Eden vellirnir þar sem Kristján og félagar upplifðu upphaf golfsins á skemmtilegum völlum. Einn þessara valla sem þeir reyndar léku ekki í ferðinni er „Nýi“ völlurinn eða The New Course en þar á Keflvíkingurinn Örn Ævar Hjartarson vallarmetið sem er 60 högg eða 11 undir pari.

„Gömlu vellirnir í St. Andrews eru nær allir um 100 ára gamlir og þar er mjög skemmtilegt að leika, ástand vallanna mjög gott og stemmningin í hámarki. Maður þefar „gamla“ golflykt á svæðinu“, sagði Kristján sem lék einnig báða vellina í St. Andrews Bay en þar eru tveir nýir vellir sem opnaðir voru árið 2002 og eru við samnefnt risahótel.

Kingsbarns toppurinn í ferðinni
Hápunktur ferðarinnar fannst gamla handboltakappanum úr Hafnarfirði þó vera þegar hann og félagar hans léku á Kingsbarns vellinum en hann er nokkra kílómetra frá gömlu St. Andrews völlunum og var opnaður árið 2000. Kingsbarns rauk strax á topp-tíu lista yfir bestu golfvelli í Evrópu og komst í hóp valla sem flestir kylfingar vilja leika eins og Gamla völlinn í St. Andrews (sem Kristján komst því miður ekki inn á í þessari ferð), Muirfield völlinn í Edinborg, Royal County Down í N-Írlandi og fleiri.

Veðrið var ágætt á Kingsbarns þennan dag, bjart og fagurt en eftir nokkrar holur jókst vindurinn verulega þannig að aðstæður urðu erfiðari, sérstaklega á flötunum sem voru gríðarlega hraðar, enda undirbúningur í fullum gangi fyrir Dunhill-Links golfmótið á Evrópsku mótaröðinni. Völlurinn sem var hannaður af Bandaríkjamanninum Kyle Philips skartaði sínu fegursta og Íslendingarnir voru síðasta hollið sem fékk að leika völlinn áður en honum var lokað fyrir Dunhill mótið.
Kristján og félagar fengu sér allir kylfusveina og þannig öllu til tjaldað svo hringurinn gengi vel fyrir sig. Kristján sagðist hafa verið í vafa fyrir hringinn hvort hann ætti að fá sér vanan kylfusvein en fljótt náði gamla vinstri handarskyttan góðu sambandi við skoska félaga sinn sem sagði honum hvert hann ætti að slá og hvert hann ætti að miða þegar hann var kominn inn á gríðarlega erfiðar flatirnar en þær eru stóra og með miklu landslagi, hæðum og hólum og holustaðsetningar því margar oft erfiðar.

Geggjað
„Það er geggjað að vera hérna“, sagði Kristján eftir vel heppnað upphafshögg á glæsilegri 3. brautinni, alveg dolfallinn. Kristján og ritstjóri kylfings voru saman í liði gegn GB-bræðrunum Jóhanni og Böðvari Guðjónssonum og skildu fljótt leiðir milli liðanna því þeir fyrrnefndu voru heitir og kunnu vel við sig á glæsilegum Kingsbarnsvellinum. Brautirnar eru mjög fjölbreyttar og útsýnið út á hafið er stórfenglegt. Landslag er mikið á vellinum, hólar og hæðir og allt eins og þetta hafi verið náttúrulegt, eins og það er á flestum gömlu strandvöllunum. En svo er ekki í Kingsbarns. Þar var allt „búið til“ og þannig er völlurinn ólíkur gömlu frægu völlunum en engu að síður hefur hann slegið svo rækilega í gegn að ekki er sett út á það. Enda ekki ástæða til!

Margar holur liggja með strandlengjunni, nokkuð sem margir gömlu frægu vellirnir geta ekki státað af, þó þeir séu strandvellir. Þegar Hafnfirðingurinn var að ganga frá 6. teig þar sem við mynduðum hollið varð honum á orði einu sinni sem oftar hvað þetta væri frábær golfvöllur og sagði svo: „Djöf...hlakka ég til að segja strákunum frá þessu,“ en Kristján er í golfhópi FH-inga. „Þetta er mikill hópur og við leikum í hverrri viku, á fimmtudögum á Hvaleyrinni. Haldin er nákvæm skrá yfir skor og keppnin er gríðarlega hörð, ekkert er gefið og alvaran meiri en á stórmótum“, segir Kristján aðspurður úr í hópinn en allir í honum eiga sameiginlegt að hafa unnið til verðlauna með FH. „Ég hef ekki leikið nógu mikið í sumar en þó hef ég aukið golfið mitt talsvert sl. 3 ár, en ég þarf að ná síðustu tveimur keppnisdögunum okkar núna í haust til að laga aðeins mína stöðu frá sumrinu. En nú hef ég eitthvað sem þeir eiga ekki, - og það er að hafa leikið golf í St. Andrews og á Kingsbarns“, sagði kappinn og brosti sínu breiðasta.

Kristján lauk hringnum á 87 höggum sem er gott því aðstæður voru mjög erfiðar meirihluta hringsins, mikill vindur en bjart veður þó. Kristján var hrifinn af mörgum holum vallarins en nefndi þó 12., 13. og 16. holu sérstaklega. „Annars er enginn hola slök á þessum velli og hér verð ég að koma aftur. Þetta var stórkostlegt“, sagði Kristján og tók af sér golfhúfu merkta Kingsbarns og hélt inn í klúbbhús þar sem GB-bræðurnir höfðu pantað handa honum „pæntara“ að hætti Skota. Þetta var sigurpæntari!

Hægt er að skoða myndasafn úr ferðinni hér!