Gufudalsvöllur leynir á sér

Gufudalsvöllur í Hveragerði er golfvöllur sem vert er að gefa gaum og ættu kylfingar að gera sér ferð þangað næsta sumar og spila. Þetta er völlur sem kemur á óvart, ekki bara fyrir að vera í fallegu umhverfi, heldur eru brautirnar mjög ólíkar og margar hverjar krefjandi. Vinalegur golfskáli, sem áður var fjós, er við völlinn. Klúbburinn hefur því góða aðstöðu fyrir félagsmenn sem og aðra gesti því skálinn tekur um 50 manns í sæti. Völlurinn er í sérstaklega tignarlegu umhverfi, í botni Gufudals, þar sem heitir hverir og goshverir setja mark sitt á stórbrotið landslag.

Golfklúbbur Hveragerðis byggir á gömlum merg enda hefur verið stundað golf á svæðinu í meira en hálfa öld. Fyrirhugað er að bæta við níu holum á næstu árum og verða þær settar niður inn af golfskálanum upp í dalnum. Það lætur engan ósnortin að spila Gufudalsvöll því oftar en ekki eru menn meira uppteknir af umhverfinu en sjálfu golfinu.

Erlingur Arthúrsson hefur verið formaður GHG í eitt ár, en hefur verið í stjórn klúbbsins í samtals fjögur ár. Hann segir mikla grósku í golfinu í Hveragerði og væru nú um 150 meðlimir í klúbbnum. Hann segir að enginn golfvöllur í heiminum geti státað sig af því að hafa heitan hver, sem gjarnan er slegið yfir inn á fyrstu flötina. Þá er á svæðinu goshverinn Leppalúði sem blæs mjög reglulega svona rétt til að láta kylfinga vita af sér.

Í vetur verður farið í ýmsar framkvæmdir á vellinum, þar á meðal verður 5. brautin byggð upp og gerð enn meira krefjandi, en hún er í dag – sett í hana mold þannig að meira landslag verður í henni. Hafsteinn Hafsteinsson hefur verið ráðinn vallarstjóri og mun hann stýra framkvæmdum.

Um síðustu helgi var haldið innanfélagsmót á Gufudalsvelli í frábæru haustveðri, blanka logni og sól. Leikið var inn á sumarflatir, enda haustar seint í Hveragerði. Undirritaður fékk að vera með í mótinu og spilaði völlinn í fyrsta sinn. Það sem helst kom á óvart var fjölbreytileikinn. Mjög ólíkar brautir og náttúrufegurðin við hvert fótmál. Það er heillandi að spila Gufudalsvöll og ég hlakka til að koma þangað aftur næsta sumar þegar hann er í sínum fínasta skrúða.

Vajo.

Sjá myndasyrpu.

Mynd/Kylfingur.is: Hafsteinn Hafsteinsson, vallarstjóri og Erlingur Arthúrsson, formaður GHG.