Grafarkotsvöllur við Bása vígður

Grafarkotsvöllur við Bása var formlega vígður í gær. Það var Alison White, sem er í forsvari fyrir þróunarverkefni innan R&A í Skotlandi, sem sló fyrsta höggið. Völlurinn er glæsilegur og þar er einnig 18 holu púttvöllur og vippflöt. Með tilkomu Bása og og nýja æfingasvæðisins í gær býður Golfklúbbur Reykjavíkur upp á bestu æfingaaðstöðuna sem til er hér á landi. Grafarkotsvöllur er sex holu par-3 völlur þar sem lengsta brautin er 66 metrar. Þetta er völlur til að æfa stutta spilið, sem er það mikilvægasta í golfleiknum.

Gestur Jónsson, formaður GR, sagðist mjög ánægður með þessa nýju aðstöðu og telur að hún eigi eftir að breyta miklu fyrir kylfinga. „Ég held að kylfingar muni nýta sér þennan æfingavöll, en við rennum reyndar svolítið blint í sjóinn með það. Hann verður opinn fyrir félagsmenn í Golfklúbbi Reykjavíkur og svo geta aðrir keypt sér aðgang. Við vitum ekki hver aðsóknin verður, en ég yrði mjög undrandi ef það yrði ekki mikil aðsókn. Þetta er aðstaða sem hefur vantað. Þarna er kærkomið tækifæri til að æfa þessi stuttu högg sem flestir eru í vandræðum með. Ég hef nú trú á því að það verði fleiri en ég sem komi hingað á kvöldin og reyni að bæta þessi högg,“ sagði Gestur.

Hvað kostar svo þessi framkvæmd?
„Kostnaður við þetta æfingasvæði er líklega kominn í um 30 milljónir króna. Sem þýðir að Básasvæðið allt er farið að nálgast um 150 milljónir. Um helmingur af þessum kostnaði kemur frá Reykjavíkurborg. Þá fengum við styrk frá R&A upp á 30 þúsund pund árið 1999 til að skipuleggja og byggja upp æfingasvæðið. Það var reyndar áður en við létum okkur detta í huga að byggja æfingasvæði af þessari stærðargráðu. Þeir hjálpuðu okkur af stað og eiga fullar þakkir fyrir það.“

Hvernig hefur rekstur Bása gengið?
„Miðað við forsendurnar sem við gáfum okkur þegar við fórum út í byggingu Bása, hefur aðsóknin verið helmingi meiri en við reiknuðum með.“

Þannig að klúbburinn verður helmingi fljótari að borga upp mannvirkið?
„Já, vonandi verður það. En við getum líka sagt að við getum rekið mannvirkið í dag án þess að það þurfi að taka kostnaðinn af árgjöldum klúbbfélaga. Það er bara stór áfangi að það sé hægt að reka íþróttamannvirki með þessum hætti.“

Nú er æfingaaðstaðan orðin frábær og vellirnir góðir, er hægt að gera eitthvað meira?
„Það eru endalaus verkefni framundan. Æfingaaðstaðan er vissulega orðin mjög góð, en við eigum enn eftir töluvert ógert. Við stefnum að því að þessi litli völlur, sem við vorum að opna núna, verði 9 holur. Við eigum eftir að byggja upp vélageymslu á svæðinu þar sem við verðum einnig með inniaðstöðu til æfinga. Síðan þarf að byggja þjónusturými við Bása og þá reiknum við með að þetta æfingasvæði verði full nýtt. Svo er það Grafholtsvöllurinn sjálfur. Þar eru verkefni til margra ára og felast þær fyrst og fremst í því að bæta brautirnar, færa teigana þannig að völlurinn verði lengri og bæta flatirnar. Þetta eru endalaus verkefni, en völlurinn er stórkostlegur og hefur alltaf verið og verður það áfram,“ sagði Gestur formaður í samtali við Kylfing.is.

Frítt verður inná völlinn næstu 10 daga í boði Mastercard. Sala á vallargjaldi og sumarkortum á Grafarkotsvöll hefst síðan mánudaginn 19. júní í afgreiðslu Bása. Ekki verður hægt að kaupa vallargjald og sumarkort í Golfverslunum GR, eingöngu í afgreiðslu Bása.

Sjá myndasyrpu.

Myndir/Kylfingur.is/Valur: Á myndinni má sjá fullrúa R&A, Alison White, slá formlega fyrsta höggið á Grafarkotsvelli.