Golfvöllurinn Glanni opnaður á næsta ári

Nýr 9 holu golfvöllur verður formlega opnaður næsta vor í Borgarfirði. Völlurinn hefur fengið nafnið Glanni og er staðsettur milli þjóðvegar og Norðurár, við fossinn Glanna. Aðkoman er rétt sunnan Viðskiptaháskólans að Bifröst. Hönnuður vallarins er Hannes Þorsteinsson. Forsvarsmenn félagsins, sem stofnað var í kringum völlinn, buðu til kynningar á Glanna í lok ágúst og var völlurinn þá spilaður í fyrsta sinn.

Völlurinn er í stórkostlegu umhverfi og fellur vel inn í hraunið og gróðrinn sem er allt um kring. Hann er vísu nokkuð hrár, en hann lofar góðu og ljóst að hann á eftir að verða vinsæll meðal sumarhúsaeigenda á svæðinu. Brautirnar eru nokkuð þröngar og erfitt „röff“ umhverfis þær. Það er því ekki á færi nema allra bestu kylfinga að skora hann vel eins og hann lítur út í dag. En forsvarsmenn vallarins segja að enn væri mikið verk óunnið í vellinum áður en hann opnar formlega næsta vor.


Golfklúbbur hefur ekki verið stofnaður, en það verður væntanlega gert á næsta ári þegar hann verður opnaður og þá mun klúbburinn sækja um aðild að Golfsambandi Íslands. Félag var stofnað um golfvöllinn, sem er í landi Hreðavatns, árið 2003 og vorið 2004 voru framkvæmdir hafnar við jarðvinnu. Kostnaður við jarðvinnuna er áætlaður um 30 milljónir króna. Eigendur vallarins eru: Viðskiptaháskólinn Bifröst, BSRB, Starfsmannafélag Samskipa hf. og Hreðavatn ehf, sem á landið.


Að sögn Guðjóns Guðmundssonar, framkvæmdastjóra vallarins, var í upphafi markmiðið að byggja á faglegan hátt fyrsta flokks golfvöll sem sæmir því umhverfi sem hann er staðsettur í og það má fullyrða að það hefur tekist. Hann segir að uppbygging vallarins hafi gengið vel og væru samkvæmt áætlun. „Við erum nú að taka forskot á sæluna með því að halda hér lítið golfmót og fá þannig smjörþefinn af vellinum,“ sagði Guðjón.

Í mótinu í gær tóku þátt um 20 kylfingar og var meðalskorið kannski í hærri kantinum, enda meira til gaman gert. Sigurvegari var Anna Ólafsdóttir úr Borgarnesi sem lék 9 holur á 36 höggum nettó.


Sjá myndasyrpu.

Mynd/Kylfingur.is: Slegið inn á 9. flöt, sem er falleg par-3 hola með tjörn fyrir framan.