Golfklúbburinn Kjölur fullorðnast árið 2011

Það ríkir mikil eftirvænting meðal meðlima Golfklúbbsins Kjalar í Mosfellsbæ eftir að Hlíðavöllur verði loksins opnaður sem 18 holur. Fjórar nýjar golfholur verða teknar í notkun á næsta ári og er það mikið fagnaðarefni fyrir Kjalarmenn og íslenska kylfinga. Árið 2004 var hafist handa við að stækka völlinn í 18 holur. Sökum efnahagskreppunnar var slegið úr hraða framkvæmda en árið 2008 opnuðu fimm nýjar holur og völlurinn því 14 holur í dag. Nýi hluti vallarins er hannaður af Edwin Roald Rögnvaldssyni golfvallarhönnuði. Kjölur fagnar 30 ára afmæli sínu um þessar mundir og því var kátt á hjalla þegar blaðamaður Golfs á Íslandi settist niður með þeim Hauki Hafsteinssyni, framkvæmdastjóra GKj, og Steini G. Ólafssyni, vallarstjóra Hlíðavallar.

„Við opnum 18 holu golfvöll næsta haust, það er á hreinu,“ segir Steinn en framkvæmdir hafa tafist nokkuð vegna skorts á jarðefni í brautir. „Allar flatir eru tilbúnar en við eigum ennþá eftir að sá í eina braut. Það sem hefur tafið okkur er að við höfum hvergi getað fengið nothæft jarðefni undanfarin tvö ár,“ segir Steinn. „Það átti að byggja nýtt íbúðahverfi hér fyrir ofan völlinn og þaðan áttum við að fá jarðefni en sökum kreppunnar varð ekkert af því,“ segir Haukur „Þetta hefur orðið til þess að við höfum þurft að breyta teikningum en erum engu að síður mjög ánægðir. Við sjáum auðvitað eitt og eitt atriði hér og þar sem mætti vera betra en þetta lítur mjög vel út. Það sem gæti helst orðið til vandræða er að við náðum ekki að harpa nægjanlega jarðefnið og því leynist nokkur magn af stórgrýti í brautunum. Það fer mikill tími og kostnaður við að fjærlægja þetta grjót og við höfum örugglega fjarlægt yfir tonn af grjóti nú þegar,“ bætir vallarstjórinn við.

Fjölgun í 1000 meðlimi við stækkun

Með því að stækka völlinn í 18 holur opnast svigrúm hjá Kili til að fjölga meðlimum. Í Kili í dag eru um 670 kylfinga en Haukur telur að hægt sé að fjölga kylfingum um rúmlega 300 sem á eftir að stytta biðlista kylfinga á höfuðborgarsvæðinu til muna.

„Það ríkir mikil eftirvænting í klúbbnum og sérstaklega meðal meðlima. Með þessari stækkun munum við geta bætt við okkur félögum og fjölgað allt upp í 1000 meðlimi. Að stækka í 18 holur á einnig eftir að umbylta rástímaskráningu hjá okkur. Við tökum upp rafræna skráningu í sumar og það þótti heppnast mjög vel,“ segir Haukur og Steinn bætir við: „Það eru skemmtileg tímamót að nú skuli vera komið að þessu, þrjátíu árum eftir að klúbburinn var stofnaður. Stofnendur klúbbsins eru mjög kátir og eru að upplifa langþráðan draum. Það er frábært að ráðamenn skuli sýna þann skilning að leyfa byggingu 18 holu golfvallar inn í miðri borg. Að hafa golfvöll svona nærri byggð hefur gríðarlega jákvæð áhrif á unglingastarf og hefur gert það að verkum að unglingastarfið hjá okkur er með blómlegri hætti en víða annars staðar,“ segir Steinn en hvernig falla nýju holurnar inn í eldri hluta vallarins?

„Þessar nýju holur eru gjörólíkar eldri hluta vallarins. Bæði landslag og umhverfi er tvennt ólíkt og það má segja að kylfingar gangi inn í annan heim,“ segir Haukur „Einnig eru nýju flatir vallarins allar mun stærri og eru útbúnar vatnsúðarakerfi af fullkomnustu gerð. Við lögðum upp með völlinn þannig að hann væri fyrir alla kylfinga. Með því að hafa stærri flatir erum við að auðvelda lakari kylfingum að hitta flötina í tilætluðum höggfjölda. Betri kylfingar nýta því aðeins hluta flatanna meðan lakari kylfingar þurfa jafnvel að glíma við 30 metra pútt,“ segir Steinn vallarstjóri.

Nýtt klúbbhús í biðstöðu

Kjalarmenn höfðu áformað að byggja nýtt klúbbhús sem stæði í miðju vallarins en sökum kreppunnar hefur þeim framkvæmdum verið slegið á frest um sinn. Haukur segir það skipta klúbbinn miklu máli að fá nýtt klúbbhús þegar fram líða stundir.

„Staðan er mjög óljós og við höfum ekkert í hendi. Málið er í rauninni í biðstöðu. Í framtíðinni mun koma nýtt og glæsilegt klúbbhús en allt annað er óráðið fyrir utan staðsetningu. Nýtt klúbbhús verður staðsett í miðju vallarins, nærri 4. teig. Það skiptir okkur miklu máli að fá klúbbhús miðsvæðis á vellinum til að kylfingar geti komið inn eftir níu holur og einnig myndi það hjálpa okkur hvað ræsingu varðar,“ segir Haukur en Kjalarmenn geta þó státað sig af frábærri 540 fermetra vélaskemmu sem skartar einnig skemmtilegum púttvelli á efri hæðinni. Kjalarmenn munu svo geta æft stuttu járnahöggin á flottu pitch-svæði sem stendur í skjóli við hlið vélaskemmunnar.

„Við erum líklega með flottustu og bestu vélaskemmu norðan Alpafjalla. Þetta er allavega besta vélskemma sem íslenskur golfklúbbur hefur uppá að bjóða þó tækin inn í henni mættu vera betri,“ segir Steinn og hlær. „Húsið er allt upphitað og það munar mikið um það. Þetta sparar örugglega hundruð þúsunda króna í viðhaldskostnað. Það er gríðarlega gaman að vinna í svona aðstöðu og forréttindi að fá að taka þessari uppbyggingu.“

Þeir kylfingar sem hafa leikið Hlíðavöll á undanförnum árum hafa vafalaust tekið eftir því að göngustígar vallarins eru nokkuð sérstæðir. Göngustígarnir eru gervigraslagðir og segir Steinn að sú framkvæmd hafi verið einkar vel heppnuð. „Við fengum gervigras gefins frá Fylkismönnum sem voru að skipta og kostnaðurinn hjá okkur var því aðeins í formi flutnings. Í stuttu máli algjör snilld og við höfum fengið mjög jákvæð viðbrögð frá okkar meðlimum.“

Hlíðavöllur tilbúinn fyrir Íslandsmót 2020

Það er draumur hvers íslensks golfklúbbs að fá að halda stærstu golfmót ársins með tilheyrandi umgjörð og fjölmiðlaathygli. Haukur telur að klúbburinn verði ekki tilbúinn í fyrsta lagi fyrr en eftir fimm ár til að taka að sér mótahald á íslensku mótaröðinni og búast má við lengri bið eftir að Kjalarmenn taki að sér Íslandsmótið í höggleik.

„Það kemur auðvitað að því einn daginn að við munum sækjast eftir stórum mótum. Völlurinn verður líklega ekki tilbúinn fyrir stór mót fyrr en í fyrsta lagi eftir fimm ár,“ segir Haukur. „GSÍ þarf að passa sig á því að fara ekki með stóru mótin sín á of hráa velli ef svo má að orði komast. Við munum vafalaust fá einhver mót þegar völlurinn hefur náð að vaxa og dafna en ég held að það sé ekki keppikefli GKj að halda hér Íslandsmót í nánustu framtíð. Við verðum tilbúnir þegar klúbburinn verður fertugur, árið 2020,“ segir Steinn að lokum.