Golfklúbbur Ásatúns og nýr völlur

Golfsamband Íslands hefur samþykkt aðild Golfklúbbs Ásatúns að GSÍ. Golfklúbbur Ásatúns hefur aðsetur á golfvellinum á Ásatúnsvelli, sem er um 5 km frá Flúðum. Formaður klúbbsins er Sigurjón Harðarson. Klúbburinn var stofnaður 9. júlí í sumar og voru stofnendur 39 talsins. Klúbburinn fékk bráðabirgðaaðild að HSK 8. ágúst, og er nú kominn með fulla aðild að GSÍ.

„Mikill hugur er í fólki, bæði golfáhugi og ekki síður áhugi eigenda vallarins að gera svæðið að eftirsóknaverðum viðkomustað. Fyrirmyndar golfskáli er á staðnum með veitingum og öllu sem því fylgir. Völlurinn er mjög sérstakur, og hef ég heyrt, að kylfingar séu mjög ánægðir eftir að hafa leikið völlinn. Völlurinn er ekki nema árs gamall og á bara eftir að batna,“ segir Sigurjón Harðarson, formaður klúbbsins.

Eigendur vallarins eru Grímur Guðmundsson og Guðbjörg Jóhannsdóttir í Ásatúni, þau eiga einnig og reka golfskálann. Hannes Þorsteinsson hannaði völlinn, og er hann 9 holur. Ekki er á dagsskrá að stækka hann á næstunni, heldur er stefnan að gera góðan 9 holu völl betri.

Laugardaginn 17. september fer fram fyrsta opna golfmót klúbbsins, Opna Topp-mótið. Leiknar verða 18 holur. Mótið er punktamót með fullri forgjöf, karlar 36 og konur 40.

Bifreiðaverkstæðið TOPPUR ehf. gefur öll verðlaun.
Keppnisgjald er 2.500 krónur. Skráning í golfskálanum SNÚSSU sími-486 6601.

Myndir: Á efri myndinni má sjá golfskálann, sem áður var á Urriðavelli hjá Golfklúbbnum Oddi. Á neðri myndinni má sjá hluta vallarins.