Golfborgir rísa í Grímsnesi

Í vor hófust framkvæmdir við nýjan 18 holna golfvöll, Golfborgir í Grímsnesi, sem skipulagður hefur verið auk 17 glæsilegra frístundahúsa í landi Minni-Borgar. Hönnuður golfvallarins er Edwin Roald Rögnvaldsson golfvallaarkitekt og frístundabyggð er útfærð af Pétri H. Jónssyni, skipulagsfræðingi og arkitekt.

Frumkvöðull að verkefninu er Hólmar Bragi Pálsson, ábúandi að Minni-Borg. Hann hefur margra ára reynslu af uppbyggingu frístundabyggðar í Grímsnesinu. Hólmar er framkvæmdastjóri Borgarhúsa ehf., sem hefur byggt frístundahús af ýmsum stærðum og gerðum, tekið í gegn eldri bústaði, byggt undirstöður og unnið lóðir. Hólmar hefur tekið virkan þátt í að gera Grímsness- og Grafningshrepp að stærstu frístundabyggð landsins með á þriðja þúsund frístundahúsa.

Auk húsanna í Golfborgum, sem búin verða öllum hugsanlegum þægindum, er gert ráð fyrir áhaldahúsi og góðri aðstöðu fyrir vallarstarfsmenn, golfbílageymslu, fullkomnu æfingasvæði, æfingaaðstöðu fyrir kylfinga innandyra og vönduðu klúbbhúsi með notalegum veitingastað. Kappkostað verður að skapa þar þægilega stemmningu, t.d. með vandaðri búnings- og baðaðstöðu þar sem gufuböð og heitir pottar verða fyrir golfiðkendur.

Hólmar hefur vakið athygli á því að afþreyingarmöguleikar á svæðinu hafa ekki vaxið í sama mæli og byggðin. Nú þegar er risin frístundabyggð á vegum Minniborga ehf. norðan við fyrirhugað vallarstæði. Viðtökur hafa verið góðar og hefur verið ákveðið að halda áfram uppbyggingu þar á hágæðahúsum, rétt við vallarjaðarinn. Alls verða 44 hús á því svæði. Hluti þeirra verður leigður út, en þar verða einnig til sölu stór og glæsileg hús með útsýni yfir golfvöllinn. Jafnframt verður boðið upp á eftirlit með þeim og ýmiss konar umsjón.

Starfsemi á svæðinu mun þó ekki eingöngu snúast um golf og gistingu, heldur er ráðgert að koma upp myndarlegri aðstöðu fyrir hestafólk, þ.á.m. reiðhöll. Þá er einnig gert ráð fyrir veiðitjörn. Áætlað er að heildarkostnaður við verkefnið verði um 1,4 milljarðar.

Hjarta uppsveitanna
Mikil uppbygging er nú þegar hafin á vegum sveitarfélagsins á Borg, handan Biskupstungnabrautar. Þar hefur þegar verið reistur nýr skóli og stjórnsýsluhús fyrir hreppinn og í byggingu er nýtt íþróttahús og sundlaug, sem opnuð verða á þessu ári. Einnig er fyrirhugað að byggja nýja þjónustumiðstöð og flytja og stækka núverandi verslun á svæðinu. Á sama svæði er að hefjast uppbygging á íbúðabyggð, sem telur 50 til 60 hús, parhús og einbýlishús. Með tilkomu Golfborga, og alls þess sem að framan er talið, verður svæðið á og við Borg þungamiðja verslunar, þjónustu og afþreyingar í uppsveitum Árnessýslu.

Hugmyndin að rekstri Golfborga byggist á því að húsin á golfvallarsvæðinu verði leigð út líkt og um hótel væri að ræða. Hafist hefur verið handa við að bjóða einstaklingum og fyrirtækjum að gerast stofnfélagar, og um leið hluthafar, í Golfborgum. Þeim munu standa til boða ýmis fríðindi á svæðinu, t.d. leigu á húsunum á enn hagstæðara verði, möguleiki á að taka með sér gesti á golfvöllinn fyrir lægra vallargjald o.s.frv.

Svar við aukinni högglengd
Edwin Roald Rögnvaldsson, golfvallaarkitekt og einn af höfundum skipulags Golfborga, segir að allt verklag við gerð golfvallarins eigi að standast alþjóðlegar kröfur svo hægt verði að bjóða kylfingum að leika þar golf við bestu mögulegu aðstæður.

Par vallarins verður 71 högg og heildarlengd brauta 6.066 metrar frá meistarateigum karla. “Þetta segir ekki alla söguna, því eitt af sérkennum vallarins verður að á honum verða sex par 3-brautir. Því jafngildir þessi heildarlengd brauta í Golfborgum u.þ.b. 6.400 til 6.500 metrum á dæmigerðum par 72-velli með fjórum par 3-brautum. Það er því ljóst að völlurinn verður fullkomlega boðlegur í keppni meðal þeirra bestu,” segir Edwin.

Hann segir að fjölgun par 3-brauta er ein af leiðunum sem hægt er að fara til að vinna á móti hinni auknu högglengd kylfinga á síðustu árum. “Á par 3-brautum getum við stillt kylfingnum upp í ákveðinni vegalengd frá flöt og tryggt að reynt verði á færni hans með nær allflestum járnum í pokanum.”

Eftirminnilegt sjónarspil
Edwin segir að þeir sem standi að uppbyggingu golfvalla þurfi að gera sér grein fyrir því að hlutverk þeirra er að þjónusta og skemmta kylfingum, að golfhringur eigi að vera upplifun. “Ásjóna hindrana, þá allra helst sandgryfjanna, og staðsetning þeirra hefur mjög sterk áhrif á upplifun kylfingsins. Golfhringur á að vera eftirminnileg upplifun og sjónarspil. Við ætlum að leggja okkur fram við að gera áhrifamikinn völl og ég hef orðið var við mikinn metnað og vilja til þess hjá Hólmari og samstarfsfólki hans. Ég veit að Hólmar er þaulreyndur verktaki og ákaflega vandvirkur. Það er ekki síst þess vegna sem verkið leggst sérlega vel í mig,” segir Edwin. Hægt er að lesa meira um Golfborgir á vefnum, www.golfborgir.is.


Mynd:Yfirlitsmynd af fyrirhuguðum golfvelli, sem hannaður er af Edwin Roald Rögnvaldssyni golfvallaarkitekt. Frístundabyggð er útfærð af Pétri Jónssyni, skipulagsfræðingi og arkitekt.