Golf í Sv-Englandi - „linksarar“ sem bera aldurinn vel

Alvöru „linksarar“ í Sv-Englandi

Á suðvesturströnd Englands undir nafninu Atlantic Links eru nokkrir hágæða golfvellir, allt strandvellir. Þeir eru á strandlengjunni í Norður-Cornwall og Norður-Devon og alla leið til Sommerset. Næsta stóra borg norðaustan við Sommerset í Englandi er Bristol sem margir ættu að kannast við. Í Sommerset horfir maður í norður yfir til Wales.
Á þessu svæði, sem er nokkurs konar Reykjanesskagi þeirra Englendinga, eru fjölmargir flottir golfvellir. Við spiluðum sex þeirra sem eru undir merkjum Atlantic Links: Burnham & Berrow, Royal North Devon, Saunton (tveir vellir), Trevose og St. Enodoc, allt hágæða „linksarar“. Þeir eru hannaðir af nokkrum heimsþekktum arkitektum á borð við James Braid og Harry Colt en Saunton er þó líklega þekktastur þeirra. Margir telja hann einn besta „linksara“ sem hefur ekki haldið Opna breska meistaramótið.

KLASSÍSKUR LINKSARI

Burnham & Berrow var fyrsti völlurinn sem við spiluðum í þessari Atlantic Links ferð Golfs á Íslandi og kylfings.is. Hann er klassískur „linksari“, einn af þessum gömlu en klúbburinn var stofnaður árið 1890.
Fimmfaldur meistari á Opna breska meistara-mótinu (í eldgamla daga), J.H. Taylor, var fyrsti klúbb-„próinn“ á staðnum og hann tók þátt í hönnun vallarins í upphafi. Harry Colt, þekktur golfarkitekt ber hins vegar ábyrgðina á útliti vallarins eins og það er í dag en það hefur verið lítið breytt í hálfa öld en staðist tímans tönn.
Á Burnham & Berrow hafa mörg þekkt áhugamannamót verið haldin og hófst með Opna breska kvenna (áhugakylfinga) árið 1906 og öld síðar Opna breska áhugamanna karla – Brabazon trophy árið 2008 og verður aftur haldið 2011 auk British Boys championship sama ár.

Í klúbbnum eru 800 félagar, þar af einn Íslendingur. Við fengum þær upplýsingar í golfversluninni sem bauð upp á mikið úrval af golfvarningi. Mjög góð golfbúð þó hún sé ekki mjög stór. Svona eins og margir muna eftir í gamla daga á bresku völlunum, áður en stóru búðirnar komu til sögunnar.

Völlurinn er opinn allt árið og alltaf á sumarflötum. Veðrið er gott og völlurinn er vel sóttur af heimamönnum og gestum. Þegar við mættum á svæðið var hópur eldri kylfinga úr nágrenninu og lengra frá að hefja leik. Þetta voru kappar komnir vel á aldur og leika 18 holurnar á tveimur og hálfum tíma í fjórmenningi. Á Burnham & Berrow eru nær eingöngu tveggja bolta holl. Eldri kylfingarnir leika nær eingöngu fjórmenning. Ekkert hangs á þessum bæ. Spila golf og eru fljótir að því, ekki heila eilífð eins og maður sér frá PGA mótaröðinni í sjónvarpinu.

Völlurinn er alvöru gamaldags linksari. Byrjunin er mjög sterk, frekar erfiðar brautir til að byrja með og það strax á fyrstu. Mikið landslag er í brautum og einnig flötum sem eru margar frekar litlar. Sandhólar eins langt og augað eygir. Á 8. braut sem liggur eftir ströndinni horfir maður yfir flóann til Cardiff í Wales. Besta brautin er sú 16., kirkjuholan en þar rétt hjá er kirkja sem hefur skráð sig í golfsögubækur vallarins og sömuleiðis ljósviti sem er handan klúbbhússins. Þessi tvö einkenni skera sig verulega úr.
Sautánda og átjánda brautin eru flottar lokaholur, par 3 og par 4, sú seinni liggur upp að klúbbhúsinu.
Auk 18 holu vallarins er 9 holu völlur sem var opnaður 1977. Hann er talsvert styttri en þykir einstaklega góður og skemmtilegur með fjórar fyrstu brautirnar meðfram sjónum.

SAGAN: Árið 1919 gerðist Bob Bradbeer golfkennari hjá Burnham & Berrow en hann var úr stórri kylfingafjölskyldu. Af tíu bræðrum voru sjö atvinnukylfingar sem náðu allir góðum árangri. Fred bróðir Bobs tók svo við árið 1938 og sinnti starfinu til 1969 þegar Bob, sonur Richards tók við til ársins 1979. Bræðurnir sinntu golfkennarastarfinu hjá klúbbnum í sextíu ár. Það hlýtur að vera einstakt.

B&B var fyrsti völlurinn í sex valla seríu sem var á dagskránni hjá okkur og við urðum ekki fyrir vonbrigðum. Gamalgróinn og rúmlega aldargamall „linkari“ bauð upp á alvöru strandvallagolf.

-----

ROLLUR ÉTA RÖFFIÐ Á ELSTA GOLFVELLI ENGLANDS

Hestar, fuglar og rollur eru innan um kylfinga þegar þeir leika golf á elsta golfvelli í Englandi en hann heitir Royal North Devon golf club eða Westward Ho og er staðsettur nyrst á Devon skaganum á Suðvestur- Englandi.

Royal North Devon var stofnaður árið 1864 og sem elsti golfklúbbur í Englandi oft nefndur sem St. Andrews þeirra Englendinga. Vagga ensks golfs.
Hann ber aldurinn vel en þó finnur maður vel fyrir þroskanum og aldrinum. Klúbbhúsið er gamalt og vinalegt og þarna eru menn ekki að æsa sig yfir breytingum. Í klúbbhúsinu er næst stærsta golfsafn í heimi (það elsta í St. Andrews) og þar er hægt að sjá og snerta ævagamlar kylfur, bolta, verðlaunagripi og myndir. Sem sagt; sagan við hvert fótmál.

Einn frægasti og besti kylfingur Breta á upphafsárum Opna breska meistaramótsins var J.H. Taylor en hann ólst upp á Westward Ho vellinum sem strákur og var kylfusveinn þar ungur. Þegar hann varð eldri gerðist hann atvinnumaður og var einn af fremstu kylfingum heims í þrjá áratugi og keppti við Harry Vardon og James Braid. Hann gerði sér lítið fyrir og sigraði fimm sinnum á Opna breska meistaramótinu, British Open.
Í þessum gamla golfklúbbi eru ekki bara gamlir kylfingar. Meðalaldurinn er þó hár eða 55 ár. Yfirmaður klúbbsins, Mark Evans er þó um fertugt og við hittum hann að máli á gallabuxunum með ungan son sinn hangandi utan á sér. Þó hefðir séu ríkar þá fengum við þau svör að andrúmsloftið sé talsvert afslappaðra en í öðrum gömlum breskum golfklúbbum. Haldandi á ungum syni sínum segir formaðurinn unglingastarfið vera öflugt þrátt fyrir háan meðalaldur klúbbfélaga. Við spyrjum hann út í gamla klúbbhúsið sem okkur finnst að megi hressa upp á sums staðar en stendur það til?
„Nei, klúbbmeðlimir eru sáttir með það eins og það er. Það er gamalt en vinalegt og það er fólk ánægt með“
Westward Ho er frekar flatur eins og flestir strandvellir og hann lætur ekkert mikið yfir sér þegar maður horfir yfir hann frá klúbbhúsinu en þó svo hann hafi ekki breyst í samræmi við nýja tækni í golfheiminum þá er hann enn erfiður. Völlurinn hefur lítið breyst frá því hann var opnaður á þessum stað árið 1888. Ótrúlegt en satt.
Vindurinn er algengur frá sjónum og hefur mikil áhrif á erfiðleikastuðulinn. Veðrið er breytilegt á þessum stað. Þegar við lékum hann á vordögum 2010 fengum við sól og blíðu en líka rok og rigningu í sama golfhringnum.

Völlurinn er 6300 metrar frá meistarateigum og þegar hann hefur verið notaður í stóru áhugamannamótunum hafa vallarmetin ekki komið í röðum, síður en svo. Á hvítum teigum sem við lékum á er hann 6200 metrar og það þótti okkur nóg þó við værum allir með 4 til 5 í forgjöf. Strandvallartilfinningin er augljós. Snögg slegnar brautir og teigar, hraðar flatir, djúpar glompur og kargi og röff sem erfitt er að komast út úr, og jafnvel vonlaust. Mark Evans heitir vallarstjórinn og hann er með núll í forgjöf og kann því nokkuð fyrir sér í íþróttinni.
Mark Evans sagði aðspurður að völlurinn væri enn erfiður þrátt fyrir aldurinn. Hann nefndi sérstaklega strembnar byrjunarholur og lokaholur sömuleiðis. Völlurinn hefur alltaf skorað hátt hjá golftímaritunum. Hann var nr. 69 hjá Golf Monthly yfir bestu golfvelli heims og í topp 100 hjá Golf World yfir „must play“ vellina.

Besta brautin fannst okkur vera sú sjötta sem er 400 metrar, par 4 en hún liggur meðfram ströndinni, erfið og flott hola. Sjöunda þótti okkur líka mjög góð, par 4 og hún er líka rétt rúmlega 400 metrar.
Það var svolítið sérstakt að sjá allar flatir vallarins umkringdar með snærisspotta og járnstöngum. Það er til þess að halda búfénaði og hestum frá.
Lokaspurningin til formannsins var á þá leið hvort ekki stæði til að koma dýrunum burt af vellinum? Hann neitaði því. „Dýrin eru hluti af vellinum“.
Flestir sem leika völlinn annað hvort elska hann eða hata. Eftir hringinn hjá okkur vorum við Íslendingarnir sammála um að vera einhvers staðar þar á milli.

SAGAN: Hefðir voru í hávegum hafðar í gamla daga og þó þær geri það enn að einhverju leyti þá fengum við skemmtilega sögu í heimsókn okkar í klúbbhúsið. Fyrstu árin þegar stærsta mót ársins fór fram hjá Royal North Devon, keppnin um silfurmedalíuna, voru verðlaunin þau að sigurvegarinn fékk þá miklu nafnbót í ár á eftir að vera yfirmaður klúbbsins, formaður. Þetta gekk vel í níu ár eða til ársins 1875 þegar reglunni var breytt hið snarasta. Ástæðan var sú að 15 ára piltur varð meistari og hann gat ekki tekið við formennsku í klúbbnum.

-----

SAUNTON ER FLOTTASTUR

Frægasti golfvöllurinn í þessari Sv-Englandsheimsókn þar sem enginn sex valla sem við lékum var undir 100 ára, var Saunton austur-golfvöllurinn í Norður Devon. Hann á reyndar yngri bróður, vestur-völlinn, en þeir eru alvöru keppnis-linksarar og báðir vel í topp 100 í golftímaritunum.

Nick Faldo leggur ekki nafn sitt við hvaða völl sem er en hann heillaðist snemma af Saunton og segir í kynningarefni klúbbsins að þetta séu bestu 36 holur í Englandi. Faldo bætir um betur og segir að ef Saunton væri í stærra bæjarfélagi sem gæti tekið við Opna breska meistaramótinu væri án efa búið að halda það þar. Saunton austur-völlurinn er númer 30 yfir besti velli heims og vestur-völlurinn númer 57.
Mörg af stærstu áhugamannamótum hafa farið fram í Saunton og ekki ófrægari kylfingur en Spánverjinn Sergio Garcia vann þar Opna breska piltamótið árið 1998.

Frægð og frami Saunton hefur vaxið ár frá ári og mörg stór mót hafa farið fram þar. Landslag, sandhólar, glompur og glæsilegar golfbrautir eru „út um allt“. Brautir og teigar snöggslegnir og flatir leifturhraðar.
Á austur-vellinum gefur fyrsta brautin tóninn. Hún er par 4 en 450 metrar á öftustu teigum og þegar við mættum til Saunton var mótvindur! Fimm högg eða skolli þykir gott. Önnur brautin er par 5 og maður andar léttar þegar maður kíkir á skorkortið eða þangað til maður sér að hún er 500 metrar. Sjö aðrar par 4 holur eru um 360 metrar eða í 400 jördunum eins og þeir ensku segja og dæsa! Samtals eru par 4 brautirnar þrettán, tvær par 5 og þrjár par 3.
Sandhólarnir eru háir og merkja brautirnar mjög vel og þegar maður kemur á þá fjórðu þá blasa við manni endalausar glompur á vinstri hönd og brautin yfir 400 metrar. Það er betra að vera góður með stóra dræverinn og beinskeyttur því röffið er ekki vinalegt. Fjórtánda par 4 og sautjánda par 3 (200 metrar) sem og lokabrautin á þeim eystri, par 4 lokahola eru allt klassa golfholur.
Austur-völlurinn er erfiður alla leið og það þarf virkilega gott golf til að fá gott skor.

Á vestur-vellinum er fyrsta brautin skemmtileg, ekki löng en hún liggur á mili stórra sandhóla frá teig og inn að flöt. Sjötta brautin er frábær par 4, tæplega 400 metrar og síðan er lokakaflinn sérstakur því 16. og 18. hola eru báðar par 3. Sú sextánda 170 metrar frá aftasta teig og sú 18. aðeins lengri. Báðar glæsilegar golfholur þar sem maður þarf að vera vel á löngu járnunum eða með lengri kylfur á lofti til að komast inn á flöt í fyrsta höggi.

Saunton vellirnir liggja á sandhólasvæði sem þykir einstakt og er undir sérstakri náttúruvernd Unesco (Menningarstofnun Sameinuðu þjóðanna) og heitir Braunton Burrow. Tilfinningin sem maður fær á Saunton brautunum er sú að hver braut er svo vel afmörkuð með sandhólunum.
Klúbbhúsið er kannski síst í Saunton sé miðað við upplifunina að leika vellina en samt í lagi. Góð golfverslun og nokkuð stór. Góður andi hjá starfsfólki og mótttökur sem við Íslendingar fengum voru mjög góðar.
Niðurstaðan eftir heimsókn til Sauntun er einföld: Toppvellir sem manni langar að leika aftur sem fyrst. Mælum með því að leika 36 holur og fara vestur-völlinn fyrst. Hann er aðeins þægilegri og það er nauðsynlegt að vera kominn í alvöru gír fyrir þann eystri.

SAGAN: Seinni heimsstyrjöldin lagði krumlur sínar yfir Saunton golfbrautirnar og sandhólana og þar var hluti af æfingum fyrir D-daginn stóra 1943.
Golfbrautir hentuðu vel fyrir flugvélar og sandhólar fyrir skriðdrekana. Fyrri heimsstyrjöldin tók líka sinn toll en Saunton klúbburinn var stofnaður 1908 með 9 holu velli sem varð 18 áratug síðar. Frægustu kylfingar Breta, Harry Vardon, J.H. Taylor og Henry Cotton léku vígsluhring 1923.
Reksturinn var erfiður í kringum stríðið og svæðið var notað undir stríðstól til ársins 1951, þar á meðal stórt og veglegt klúbbhúsið sem var byggt 1908. Miklar skemmdir urðu á brautum og flötum og svæðinu öllu en með mikilli vinnu tókst að laga það.

--

GOLF, GRILL OG GISTING MEÐ FRÆGUM

Trevose Golf and Country club er strandvöllur við sjóinn á norðurhluta Cornwall skagans og er talinn vera einn af leyndum dýrgripum í golfflóru Breta. Hann dregur til sín þúsundir „venjulegra“ kylfinga en er einnig þekktur fyrir að vera aðdráttarafl fyrir stjórnmálamenn, íþróttastjörnur og fleiri þekkta einstaklinga í Bretlandi. Ástæðan er einföld; flottur golfvöllur á einstökum stað og glæsilegt útsýni af brautum og úr klúbbhúsi. Heimamenn í Treovose segja einfaldlega: „Hér er besta útsýnið í Cornwall“.
Það er ekki algengt í landi hefða og sögu þar sem golfíþróttin er mjög víða í hávegum höfð – að sama fjölskyldan hafi rekið golfvöll í nærri öld.
John Gammon er upphafsmaðurinn að framkvæmdum í Trevose, síðan tók Peter sonur hans við af föður sínum og er nýlega hættur afskiptum af golfmálum í Trevose. Sonur hans, Nick, tók við af honum fyrir þremur árum, aðeins 35 ára.

Gammon feðgar sáu strax tækifæri í að ná í ferða- og fríþyrsta kylfinga með því að byggja gistiaðstöðu við Trevose völlinn um miðja öldina. Veðurfar er einstaklega gott á þessu svæði á Suðvestur-Englandi og því þótti þetta góð hugmynd því gistiaðstaða var að auki af skornum skammti þarna í suðvestrinu. Þessi aðstaða er mjög glæsileg og fjölbreytt í dag. Eitthundrað og þrjátíu rúm eru í boði af margvíslegum toga. Hægt er fá tveggja manna herbergi upp í tveggja hæða 3-4 herbergja íbúð þar sem allt að tólf manns geta gist. Daggjald fyrir gistingu og golfhring er um 65 pund á sumrin en 35 yfir veturinn.
„Við vorum fyrsti golfvöllurinn til að bjóða gistiaðstöðu þar sem hægt er að elda sjálfur (self catering). Það er vinsælt en við erum með mjög góðan veitingastað líka í klúbbhúsinu sem er vel nýttur af kylfingum sem nenna auðvitað ekki að elda alla daga en hingað koma líka bæjarbúar í St. Merryn í mat.
Afi byggði hús rétt við golfvöllinn til að styrkja rekstur golfklúbbsins. Síðan þróaðist þetta og stækkaði ár frá ári. Þetta er veðursælt svæði og vinsælt hjá fjölskyldum sem koma hingað þegar skólar eru í fríum. Annars koma golfhópar hingað allt árið um kring og við erum enn að byggja gistiaðstöðu hér við völlinn. Þetta hefur haft góð áhrif á samfélagið hérna því hingað koma hundruð kylfinga og þeir sækja í þjónustu á svæðinu,“ sagði Nick Gammon.
Trevose er flottur 18 holu golfvöllur við Constantine flóa. Á svæðinu er einnig góður 9 holu völlur og par 3 holu völlur fyrir byrjendur og yngra fólkið.
Bestu holurnar á Trevose sem stóru golfblöðin Golf Monthly og Golf World hafa reglulega kosið í topp 100 bestu golfvelli í Bretlandi, eru 4. brautin og sú átjánda. Fjórða liggur alveg niður að strönd þar sem úfinn sjórinn sendir saltdropa með vindinum yfir golfvöllinn. Hún er stutt par 5 og gefur mikla fuglamöguleika. Átjánda er erfiðari par 4 braut, öll upp í móti en skemmtileg. Annars er völlurinn mjög fjölbreyttur og skemmtilegur. Hann er frekar hæðóttur miðað við strandvöll, með mörgum glompum og fleiri torfærum.
Stærsta áhugamannamót sem haldið er í Englandi, höggleiksmeistaramótið, Brabazon Trophy, var haldið á Trevose vellinum árið 2008.
Félagar í klúbbnum eru fimmtán hundruð og árgjaldið í Trevose er 750 pund eða nálægt 140 þús. kr. Hjá klúbbnum starfa yfir 70 manns á vellinum, í veitingaþjónustu og í gistiaðstöðunni og hann er einn stærsti vinnuveitandinn í bænum.
Þegar við vorum á staðnum sáum við að Nick var vel inni í öllu enda framkvæmdastjóri klúbbsins. Hann gefur sér þó tíma til að spila og þegar við spurðum hann um leið og við kvöddum, hvað hann væri með í forgjöf var svarið einfalt og fljótlegt: Einn.

SAGAN: Verkfræðingurinn John Gammon hafði auðgast í Pakistan í byggingastarfsemi á nýhafinni síðustu öld og hann sótti suður til Englands til að komast í gott frí. Hann fann þetta flotta land niður við sjóinn á norðurhluta Cornwall skagans og ákvað að byggja golfvöll. John talaði við einn af þekktu golfvallarhönnuðunum Harry Colt og fimm árum síðar eða 1925 opnaði Trevose völlurinn.

-----

MESSA OG GOLF

St. Anodoc kirkjuvöllurinn eða The Church course var sjötti og síðasti völlurinn sem leikinn var í Suðvestur-Englands golfferðinni. Hér er á ferðinni frábær golfvöllur í Cornwall, byggður í hæðóttu landi við Daymer flóann þar sem útsýnið er glæsilegt við Atlantshafið.

Með árunum hefur ýmislegt verið gert á vellinum og við hann. Nýtt klúbbhús var byggt, nýir meistarateigar byggðir og stór æfingasvæði, að ógleymdu vökvunarkerfi sem sett var niður fyrir báða vellina. Það þótti nauðsynlegt þar sem sumrin eru löng þarna niður frá, sól og hiti. Aðstaða er öll til fyrirmyndar og hlýlegt og skemmtilegt andrúmsloft tekur á móti manni þegar maður mætir á þennan skemmtilega golfvöll í suðvestrinu.

Fjölbreytni brauta St. Enodoc er mikil, ein sú mesta af þessum völlum sem við lékum (ásamt Saunton vellinum). Völlurinn liggur í hæðóttu landi og þó þetta sé „linksari“ þá er flatlendinu ekki fyrir að fara. Fyrsta brautin er skemmtileg par 5 innrömmuð með sandhólum á beggja vegu. Síðan koma frábærar brautir númer 3 og 4. Sú fyrri 400 metra löng af hvítum teigum sem við lékum á (næst öftustu) og ein af fjórum í slíkri lengd. Fjórða brautin hefur verið valin sem ein af bestu golfbrautum Bretlands. Brautin er stutt, um 270 metrar af hvítum teigum en liggur í sveig til vinstri með vallarmörk til hægri alla leið. Hér hvíla flestir dræverinn og hugsa (meira) áður en þeir slá af teig. Á 6. braut er svo hæsta glompa í Evrópu og ber nafn Himalaya. Þetta er erfið braut og um 350 metra löng par 4.

Næstu þrjár brautir eru góðar en svo kemur sú tíunda, erfiðasta brautin á vellinum. Hún er 420 metrar af hvítum teigum en brautin er þröng, sandhólahæð alla leið hægra megin og vatnstorfæra alla leið hinum megin. Fyrir hinn „venjulega“ kylfing með yfir 10 í forgjöf er mælt með að brautin sé leikin sem par 5. Á henni er miðið á flöt kirkjuturninn en næstu sex brautir liggja í kringum kirkjuna. Lokakaflinn er erfiður á Kirkjuvellinum, sextánda par 5, rúmlega 500 metrar, 17. braut um 200 metrar par 3 og lokabrautin yfir 400 metrar par 4. Með vind á móti á þessum brautum er þetta mikið „spýtu-golf“ eins og sumir kalla það en samt glæsilegar golfholur þó maður sé með löngu kylfurnar á lofti.
Heimsókn á St. Enodoc var ein sú eftirminnilegasta í þessum golftúr og punkturinn yfir i-ið í ferðinni þar sem við lékum hvern öldunginn á fætur öðrum, sex af bestu strandvöllum Englands.

--

SAGAN: Eins og á öðrum völlum í ferð okkar er mikil og löng saga tengd golfíþróttinni í St. Enodoc. Árið 1888 tóku nokkrir háskólastúdentar úr bænum sig til og léku golf í kringum kirkjuna sem er tákn vallarins og hann nefndur eftir henni. Hinn kunni golfarkitekt, James Braid hannaði völlinn í upphafi, átján holur árið 1907 og var hann tekinn í notkun smá saman á næstu árum. Í St. Enodoc var svo opnaður annar 18 holu völlur árið 1982, Holywell völlurinn. Hann er aðeins styttri en stóri bróðir en á honum eru nokkrar brautir sem voru gerðar í upphafi á Kirkjuvellinum. Flatirnar á Holywell þykja ekki síðri en hinar frábæru á Kirkjuvellinum.

-----

FRÁBÆRIR GOLFVELLIR

Þó Atlantic Links golftúrinn sé nokkuð frá helstu flugvöllunum í kringum London þá er ferð þangað vel varið. Vellirnir eru t.d. mun ódýrari þarna fjær mesta þéttbýlinu í Englandi. Það er kannski aðeins of mikill akstur að taka allan AL-túrinn sem nær frá Somerset suður til Cornwall. Ein hugmynd gæti væri sú að taka syðstu vellina, Trevose og St. Enodoc og leika Saunton á farardegi. Það væri rjóminn. Um 4 klst. akstur er þarna suður eftir frá Heathrow flugvellinum í London. Það er hægt að leika völl á leiðinni til að ná golfi á komudegi. Úrvalið er mikið. Alls kyns gistimöguleikar eru í Cornwall, m.a. mjög skemmtilegar og rúmgóðar íbúðir með eldunaraðstöðu við Trevose völlinn þar sem hægt er að spara aðeins við sig í mat með því að hvíla kokkana á veitingastöðunum.
Einnig er hægt að finna aðra ódýra gistingu í nágrenninu og á leiðinni, t.d. hjá www.londongolftours.com. Þeir sem gætu átt leið á AL-svæðið ættu að muna eftir þessum völlum. Þeir eru allir vel þess virði að heimsækja.