Glæsilegt æfingahús að rísa á Vífilsstaðavelli

Golfklúbbur Kópavogs og Garðabæjar er að undirbúa byggingu á nýju æfingahúsi á Vífilsstaðavelli. Búið er að teikna æfingahúsið og verður það væntanlega staðsett rétt fyrir aftan núverandi æfingaaðstöðu klúbbsins. Gert er ráð fyrir að byggðir verið 60 útibásar á þremur hæðum með upphituðum gólfplötum og sjálfvirkum dælubúnaði fyrir golfbolta af fullkomnustu gerð. Hluti æfingabása á jarðhæð verða með hurðum til nota fyrir sérhæfða kennslu s.s. fyrir afrekskylfinga, börn og unglinga.

Inniæfingaaðstaða verður um 500 m2 auk vinnuaðstöðu fyrir kennara, fyrirlestraraðstöðu, sérkennsluaðstöðu og sérrými fyrir fullkominn tæknibúnað. Þá er gert ráð fyrir veitingaaðstöðu á efri hæð auk þess sem innangengt er í húsið af efri hæð að sunnanverðu í námunda við 8. flöt. Gólfflötur æfingahúsnæðisins er samtals um 1.200 fermetrar.

Mikil og góð undirbúningsvinna liggur að baki þeirri vinnu og er það álit þeirra sem að undirbúningi hafa staðið að hér sé um að ræða eitt glæsilegasta æfingahús sem völ er á hér á landi og þó víðar væri leitað. Áætlaður kostnaður við bygginguna er um 220 milljónir auk kostnaðar við lagfæringu lendingarsvæðisins.

Í síðustu viku var fullgerðum hugmyndum stjórnar GKG að stórglæsilegu æfingahúsnæði komið til bæjarstjóranna og hafa þeir fjallað um málið innan bæjarráða sinna bæja. Samkvæmt bókun á fundi bæjarráðs Kópavogs sem fram fór fimmtudaginn 22. febrúar s.l. hefur bæjarstjóranum verið falið málið til úrvinnslu. Á fundi bæjarráðs Garðabæjar sem fram fór í gær, 27. febrúar, hefur málinu hins vegar á þessu stigi verið vísað til nánari athugunar bæjarstjóra.

„Nú eru liðnir 9 mánuðir frá undirritun viljayfirlýsingarinnar og hefur sú meðganga gengið tiltölulega hægt að mati þeirra sem unnið hafa að málinu hjá GKG. Innan stjórnar GKG er þess beðið með mikilli eftirvæntingu að framkvæmdir við æfingahús og æfingasvæði klúbbsins geti hafist sem allra fyrst þar sem hver dagur er dýrmætur. Vorið nálgast óðfluga og því áríðandi að niðurstaða fáist á allra næstu dögum. Áætlað er að bygging æfingahússins taki um 9 mánuði og verði því fullbúið fyrir lok þessa árs.“

Sjá heimasíðu GKG.