Geysir geysist á toppinn

Golfvellir á Íslandi eru ágætlega fjölbreyttir og þróun í gerð þeirra hefur farið mikið fram en þó sérstaklega í umhirðu. Vallargerðin sjálf hefur ekki alltaf verið eins spennandi en Haukadalsvöllur á Geysissvæðinu, einum vinsælasta túristastað Íslands síðustu áratugina, fer í flokk mest spennandi golfvalla á Íslandi – algjört „möst play“.

Við eigum marga mjög góða golfvelli við sjávarsíðuna eins og Leiruna, Hvaleyrina og Vestmannaeyjar og enn fleiri sem eru aðeins meira inn í landinu. Þar má nefna Grafarholtið, Urriðavöll, Akranes og Akureyri og þetta eru reyndar allt 18 holu vellir. Haukadalsvöllur er „bara“ 9 holu völlur og þó ég hafi ekki leikið nærri því alla sveitavelli landsins eins og ég kalla þá og flest allir eru 9 holur – og veit að margir þeirra eru góðir þá á ég erfitt með að ímynda mér að einhver þeirra sé flottari eða betri en Geysisvöllurinn. Það er ekkert flóknara en það.

Völlurinn opnaði fyrir tveimur árum síðan en framkvæmdir hófust 2003. Edwin Roald Rögnvaldsson hannaði völlinn og hefur tekist mjög vel til. Hann er lagður í „L“ og margar holnanna liggja yfir eða við Almaenningsánna sem rennur í stríðum straumum í gegnum völlinn. Einnig kemur Beiná við sögu. Haukadalsvöllur er í glæsilegu landi og þar er lynggróður og birkikjarr fyrirferðamikið og hirðir flesta golfbolta sem fara út fyrir brautir. Hvönnin setur líka skemmtilegan svip á völlinn. Hún nýtur sín skemmtilega við ánna sem kemur inn í leik á 2. til 7. braut.

Fyrsta brautin er frekar stutt par 5 og gefur góða möguleika á fugli en sama er ekki að segja um aðra braut sem er ekki löng par 5 en Almenningsá rennur stríðum straumum fyrir framan flötina þannig að lang flestir leggja upp í tveimur eða þremur höggum fyrir framan ánna og eiga þannig stutt högg inn á flöt sem er grunn. Þriðja er stutt par 4 með mjóa braut og litla og erfiða flöt og brautin liggur meðfram ánni alla leið. Fjórða braut er lengri par 4 með enn eina mjóa braut sem liggur í „s“. Flötin er með miklu landslagi og hér er par frábært og í raun ekki slæmt þó maður fái skolla. Fimmta er falleg par 3 braut þar sem áin rennur skáhalt meðfram henni. Edwin hefur eitthvað verið að hugsa til 16. brautarinnar á Augusta National vellinum þegar hann hannaði þessa braut. Sjöunda brautin er nett par 4 þar sem ekki er hægt að taka „dræver“ en áin liggur meðfram henni hægra megin. Áttunda er góð par 3, á báðum þessum brautum kemur áin sterk inn í leik liggjandi samhliða brautunum. Ekki gott fyrir „slæsara“. Áttunda brautina liggur upp að skála og er upphafshöggið slegið hinum megin við ánna upp með landinu, mjög sérstakt, blint en samt í góðu lagi. Hér ákvað hönnuðurinn að leika sér aðeins á flötinni en hún er með miklu landslagi eða réttara sagt er stór hóll vinstra megin á henni sem gerir flötina mjög erfiða. Ef holustaðsetningin er vinstra megin upp á hólnum verður maður að slá aftur fyrir holuna. Annars bíða manns vandræði og vonlaust tvípútt. Níunda er ágæt par 5, fín lokahola þar sem Beiná rennur í gegnum landið fyrir framan flötina.

Haukadalsvöllur opnaði í júlí 2006 og er alveg við hverasvæðið og stundum má sjá Strokk og Geysi gjósa meðan leikið er. Brautirnar á vellinum bera nöfn hveranna á svæðinu. Edwin hönnuður vallarins sagði að við hönnun vallarins hafi verið tekið mikið tillit til náttúrunnar og umhverfisins. Það hefur tekist mjög vel. Umræða hefur verið um erfiðaleikastuðul vallarins og þykir mörgum nóg um. Brautir eru frekar mjóar og völlurinn reynir því mikið á nákvæmni kylfinga. Það þarf hins vegar enginn að hræðast Haukadalsvöll. Bara vera með nóg af kúlum í pokanum ef drævin eru ekki nógu nákvæm. Þetta er einstakur völlur sem kylfingar ættu ekki að láta fram hjá sér fara. Flatir eru góðar, teigar og brautir líka. Vallargjaldi er stillt í hóf og hægt er að kaupa sumarkort á vægu verði. Tilvalið fyrir hópa að gista og leika golf á frábærum stað.

Önnur aðstaða við golfvöllinn er til fyrirmyndar. Mjög gott klúbbhús er við völlinn með veitingaaðstöðu fyrir 60-70 manns. Í húsinu er fallegt útsýni út á 1. teig og 9. flöt. Hægt er að tylla sér í leðursófa og horfa á sjónvarp sem er ekki svo slæm hugmynd ef fólk gistir í gistiheimilinu Geysi. Þar eru tólf herbergi með snyrtiaðstöðu og uppábúin rúm.

www.geysirgolf.is

Páll Ketilsson.

« til baka