Framför í Öndverðarnesi

Það er ekki mjög langt síðan mér fannst Öndverðarnesið eða Múraravöllurinn eins og hann er oft kallaður, vera bara þokkalegur sveitavöllur. Það var ekkert sérstakt við völlinn, ekkert mjög gott í rauninni. En, nú er öldin önnur. Já, nú er Öndverðarnesið orðið alvöru „sveitavöllur" en það nafn nota ég á alla níu holu golfvelli, eða svona allt að því. Nafnið segir allt, staðsetning er utan þéttbýlis í vallanna. Það hefur orðið mikil breyting á mörgum sveitavalla á Íslandi. Múraravöllurinn er einn þeirra. Og hann verður kominn í flokk stóru vallanna innan fárra ára.

Áður en ég hélt út á völl eitt kvöldið í byrjun júlí hitti ég vallarformanninn, Ólaf Jónsson, fyrrverandi handboltakappa og stjórnarmann í Golfklúbbi Reykjavíkur. Hann og Kristín kona hans hafa átt aðsetur í Múraralandinu í 28 ár og líkar vel. Og nú stjórnar gamli hornamaðurinn framkvæmdum á Öndverðarnesi.

„Við stefnum að því að taka í notkun nýjar níu holur árið 2007. Margeir Vilhjálmsson hefur hjálpað okkur í þessu og við erum spennt fyrir þessari viðbót", segir Ólafur og bætti því við að klúbburinn hafi fengið þekkingu og þjónustu frá GR varðandi lagfæringu olg viðhald á flötunum. Þær hafa líka stórbatnað á síðustu árum. Þegar undirritaður lék völlinn núna var reyndar nýtbúið að sanda allar flatir en þrátt fyrir það var ekki erfitt að pútta. Boltinn hélt línu mjög vel og flatir tóku vel við boltum.

En förum aðeins út á völl

Fyrsta holan er mikil golfhola og erfið sem byrjunarhola enda 362 metrar á gulum teigum. Ég þurfti 5 járn inn á flöt eftir ágætt dræv en það var smá vindur á móti. Það er skemmtilegt hvernig brekkan hallar niður að flötinni. Skemmtileg og krefjandi byrjunarhola.

Önnur holan hefur alltaf verið skemmtileg þó hún sé ekki nema rúmir 120 metrar. Flötin er afmörkuð nánast öll af grjótgarði og er ekki djúp. Það þarf því að sýna nákvæmni í innáhögginu. Kunnugir segja mér að hitinn í iðrum jarðar, m.a. undir þessari flöt hafi gert það að verkum að hún var alltaf „grilluð" á vorin. Því var settar „einangrunarmottur"
undir nýjar þökur til að halda hitanum frá yfirborðinu því hann var alltof mikill. Nóg að hafa hann í sundlauginni þarna rétt hjá! Síðan hefur flötin verið miklu betri. En, létt 9 járn og par hjá blaðamanninum.

Þriðja holan getur verið snúin í upphafshögginu því röffið er þykkt bæði vinstra og hægra megin en holan er 302 metrar.

Fjórða holan hefur mér alltaf þótt nokkuð skemmtileg stutt par 4 hola.
Flötin er afmörkuð vinstra megin í dog-leg holu frá hægri til vinstri með sömu lengdartölu og 3. hola eða 302 m. Fimmta braut er 292 metrar en í upphafshöggi þarf að fara varlega því skurður bíður hægrisinnaðra bolta og mikið röff er til vinstri. En þó stutt og þægileg hola.

Næsta braut er sú sjötta og er nokkuð erfið par 3 eða 162 m og flötin frekar lítil. Látlaus og sísta hola vallarins. Næstu tvær holur eru magnaðar. Sú sjöunda mjög löng par 4 (379m) þar sem skurður rennur þvert yfir brautina um 50-60 metra frá flöt. Hér þurfti ég „spýtu" í annað högg eftir himnahátt upphafshögg með stóra Ping drævernum mínum.
Tók aukabolta í drævinu en hann lenti við hliðina á einu margra tjráa sem liggja meðfram brautinni. Sló Ballesteros högg þaðan með 3járna-hálfvitanum mínum að flöt og bjargaði pari. Gamli seigur! Erfið en skemmtileg hola en flestum meðalkylfingnum þykir þessi braut án efa langerfiðust á vellinum.

Áttunda holan er mjög góð par 5 hola. Það er vítt til veggja í drævinu en svo vandast málið. Flötin er upp á hæð en bakvið stóran hól sem skyggir á flötina. Þriðja höggið er því blint í langflestum tilfellum því holan er 475 m löng. Flötin er á tveimur pöllum og tvípútt ekki alltaf öruggt!

Hringurinn endar á stuttri par 4 holu, 280 metrum upp í móti, einföld hola sem mætti krydda meira með glompum á braut og við flöt.

Erfitt vor

Óskar vallarstjóri sagði í samtali við Golf á Íslandi að vorið hefði verið afskaplega erfitt og næturfrost á löngum kafla hefði hér um bil gert út um flatirnar. Þær voru djúpskornar í vor en fengu svo þennan mikla kulda í maí. Nú eru þær í góðu lagi og púttin runnu ágætlega.

Margeir Vilhjálmsson, framkvæmdastjóri GR sagði í spjalli við Golf á Íslandi í maíblaðinu að nýjar níu holur væru í mjög skemmtilegu landslagi. Völlurinn væri hugsaður fyrir alla kylfinga, ekki eingöngu afrekskylfinga, stuttar brautir og snúnar.

Það er því tilhlökkunarefni að Múrararnir verði „múraðir" svo þeir geti klárað nýju holurnar.

Klúbbhúsið í Öndverðarnesinu er ágætt. Það er fín þjónusta og veitingar og einn kostur sem þessi völlur hefur er að hann býður fólki að kaupa 9 holur.

Sem sagt; skemmtilegur og nettur golfvöllur í mikilli framför hvað varðar gæði og hirðingu.

P.ket.