Framfari á Jaðarsvelli

Miklar framfarir á fallegum Jaðarsvelli

Jaðarsvöllur Golfkúbbs Akureyrar hefur fengið mikla andlitslyfingu á undanförnum árum og er hvergi lokið. Miklar framkvæmdir hafa átt sér stað að Jaðri við gerð nýrra flata, viðgerðir á brautum og framundan eru enn frekari breytingar á þessum gamalgróna og glæsilega golfvelli sem er meðal nyrstu golfvalla í heimi.

Sigmundur Ófeigsson, formaður GA segir að framkvæmdir hafi gengið vel en Jaðarsvöllur fékk stórt högg ef svo má segja í fyrra þegar margar flatir kólu mjög illa eftir veturinn. Það bakslag hefur gengið verulega til baka eftir gott sumar í ár en vissulega er þó enn nokkuð í land. Má segja að gæði flata sé það eina sem hægt er að setja út á völlinn sem er að margra mati einn sá fjölbreyttasti og skemmtilegasti hér á landi.

Frá því hann varð 18 holur árið 1982 er óhætt að segja að mikið vatn hafi runnið til sjávar. Skurðir sem voru á milli margra brauta eru nú fallegir lækir og setja flottan svip á umhverfið. Þar er t.d. hægt að nefna 3. brautina. Edwin Rögnvaldsson, golfvallahönnuður hefur stýrt þessum breytingum að Jaðri og hafa heimamenn verið ánægðir með hvernig til hefur tekist. Framundan er vinna við nýjar brautir hægra megin við 5. brautina en þar verða gerðar tvær nýjar par 4 brautir og munu þær leysa núverandi 8. og 9. braut af hólmi, sem munu verða framtíðar æfingasvæði. Sjöunda brautin verður því lokabrautina á eldri parti Jaðarsvallar í framtíðinni en vissulega er auðvelt að haga því að vild og gera hana að átjándu. Sigmundur formaður segir að það sé mjög algengt að félagar leiki 9 holur og því hafi álagið á fyrri níu verið munu meiri og jafnvel of mikið. Álaginu þyrfti að dreifa meira yfir á seini níu holurnar.


Nýlega var lokið við endurgerð 4. holunnar sem margir muna eftir og þar hefur tekist mjög vel til en þessi braut hefur þótt mjög skemmtileg með tjörn og glompu til að taka ónákvæm högg af teig. Nýr teigur hefur verið gerður en hann er fyrir neðan þann gamla og í nágrenni 1. flatar sem einnig er ný. Tjörnin við 4. flöt hefur verið stækkuð og ný glompa á bakvið flötina er skemmtilega gerð. Aðeins á eftir að gera nýjar flatir á 2. og 10. braut. Trjágróður hefur vaxið gríðarlega á síðustu þrjátíu árum og mörg hundruð trjáa verið gróðursettar á hverju ári. Þá hafa verið gerðar tvær nýjar æfingapúttflatir þar sem einnig er hægt að æfa glompuhöggin.

Næst á dagskránni er að opna nýja flöt á 13. braut og mun hún lengjast nokkuð við það. Nýjar flatir og umhverfi þeirra á 15. og 17. braut eru vel heppnaðar en áður var búið að gera nýjar flatir á 11., 14. og 16. braut. Umhverfið við 15. flötina er virkilega skemmtilega. Margt í vel heppnuðum breytingum á vellinum virkar vel og svolítið „útlenskt“ og gefa vellinum meiri alvörusvip. Það er því ekki annað hægt en að hvetja kylfinga til að heimsækja Jaðarsvöll en vissulega er hann betri síðsumars eins og með marga velli á Íslandi.

Aðspurður segir Sigmundur að reksturinn hafi verið nokkuð erfiður síðustu tvö árin en það standi til bóta. Félagar séu um 700 en þar af eru um hundrað börn og unglingar en starf með þann hóp er mjög sterkt hjá GA en sveit klúbbsins 15 ára og yngri drengja lék til úrslita í Sveitakeppni GSÍ nýlega.

Ný flöt er á 1. brautinni, vinstra megin við þá gömlu.

Þetta blasir við þegar maður stendur á 5. teignum, tvær nýjar brautir hægra megin við 5. brautina eru í vinnslu. Þær munu leysa núverandi 8. og 9. braut af hólmi.

Nýja þrettánda flötin sem sést hér í forgrunni verður tekin í notkun á næstunni. Gamla flötin í er baksýn.

Sextánda brautin að Jaðri, stór vatnstorfæra tekur öll „slæs“. Flatarstæðið inn í rjóðri.

Fimmtánda flötin og umhverfi er sérlega vel heppnað. Sjáið skemmtilega útfærslu á glompunni.

Sautjánda flötin er ný og kemur vel út. Það voru margir sem bölvuðu gömlu flötinni.

Átjánda er par 3, skemmtileg lokahola. Endurgerð fyrir nokkrum árum tókst mjög vel.