Faldo og Palmer vellir á fimm stjörnu golfsvæði í Berlín


Fyrir tuttugu árum síðan voru Þjóðverjar aftarlega á merinni í golfíþróttinni. Þeir höfðu að vísu einn súperkylfing sem var að hasla sér völl í heimi atvinnumanna, Bernhard Langer. Og hann var vítamínsprauta fyrir íþróttina í sínu heimalandi. Golfið hefur vaxið ár frá ári á undanförnum þremur áratugum og Sporting Club Berlin er eina fimm stjörnu golfsvæðið af sjötíu í Þýskalandi.

Sport og Spa resort A-Rosa við Scharmutzelvatn í Bad Saarow, í um klukkustundar aksturfjarlægð frá hinni stórskemmtilegu borg Berlín, er glæsilegt hótel og golfsvæði þar sem boðið er upp á frábæra golfvelli, tvo þeirra hannaða af stórstjörnunum Nick Faldo og Arnold Palmer. Þarna er viðurgjörningur í stíl við stjörnurnar m.a. veitingastaður með frægu Michelin stjörnu og spa og dekuraðstaða er eins og hún gerist best og líklega rúmlega það.
A-Rosa Scharmutzelsee hefur fengið margar viðurkenningar í ferðaþjónustunni og í golfheiminum. Svæðið hefur fengið margs konar verðlaun fyrir golfaðstöðuna, veitinga- og hótelþjónustu og Spa heilsuaðstöðuna. Það er því án nokkurs vafa hægt að mæla með heimsókn á slíkan stað. Vissulega er hann ekki sá ódýrasti en miðað við gæðin sem í boði eru þá eru gestir Sporting Club Berlin að fá mikið fyrir peninginn. Þar er hægt að blanda saman golfi, heilsu og huggulegheitum og veitingaþjónustu af bestu gerð. Jú, hljómar nokkuð flott og er það vissulega.

Í A-Rosa eru sjö saunaböð, þrjátíu meðferðarherbergi, þrjár sundlaugar og sú stærsta, sem er úti er með góðri sólbaðsaðstöðu.
Þrír 18 holu golfvellir prýða svæðið, tveir þeirra hannaðir af Nick Faldo og Arnold Palmer og Faldo-völlurinn þykir sá erfiðasti í landinu. Tvö æfingasvæði eru í A-Rosa og 9 holu golfvöllur sem er hugsaður fyrir þá sem eru að stíga sín fyrstu skref í íþróttinni. Alls þekja golfvellir og hótelgisting 300 hektara.
Svæðið er við Scharmutzel vatnið og við það eru veitingastaðir og ýmis konar afþreying, bátar, skútur og vatnasportafjör. Gistingin er margs konar en í boði eru 224 herbergi, öll mjög vel búin en 22 þeirra eru svítur. Starfsmenn á svæðinu eru 240.

Á fimm stjörnu svæði er fátt til sparað og það á ekki síst við um golfvellina. Þó er hugsað um þá sem eru styttra komnir á veg í íþróttinni. Faldo og Palmer vellirnir eru alvöru keppnisvellir og eins og fyrr segir er Faldo-völlurinn sagður sá erfiðasti og einn sá glæsilegast í Þýskalandi.

Í stuttri kynningarferð okkar lékum við 18 holur á Palmer og 9 holur á Faldo vellinum. Faldo hefur sett sig í links-„gír“ því ef maður ímyndar sér að völlurinn sé í nánd við sjó þá eru brautirnar og umhvefið þannig. Þetta er links-„fílingur“ út í gegn en Faldo er mikill áhugamaður um strandvelli og vill hanna sem flesta slíka í heiminum. Þó sést auðvitað í tré á svæðinu enda er golfsvæðið á mjög stóru og fallegu trjá ræktuðu landssvæði.

Á vellinum hafa verið haldin nokkur mjög stór atvinnumannamót, m.a. German Open á Evrópu-mótaröðinni, mót á Öldungamótaröð og Evrópu-mótaröð kvenna og loks heimsmeistaramót áhugamanna.

Röffið er ekki vinalegt en margar brautirnar eru flottar. Félagi Faldo hefur greinilega haft nokkra alvöru links-velli í huga þegar hann hannaði völlinn. Hann lét grafa 135 „pott“-glompur „a la Skotland“ og þá eru flatirnar hafðar eins hraðar og hægt er og þær voru það þegar við lékum völlinn í júní. framh. á bls. 78.
Palmer völlurinn er með amerísku ívafi þar sem brautir eru hæðóttar og flatir sömuleiðis með talsverðu landslagi. Nokkuð er um „blind“ upphafshögg og að brautir liggi í hundslöpp (dogleg). Margar glompur eru í lengd þar sem upphafshögg lenda. Brautir liggja iðulega á milli glompa eða tjarna þannig að bein-skeitni í upphafshöggum er mjög mikilvæg. Oft þurfti að taka upp aðrar kylfur en stóra dræverinn.
Fréttamannahópurinn gaf vellinum fyrstu einkunn. Margar, fjölbreyttar og skemmtilegar golfbrautir. Þar má nefna 10. braut sem er par 4, 11. holan sem er par 3, 171 metra löng, 12. sem er par 5 og lokaholan, sú 18. er mjög flott. Seinni níu holurnar voru valdar af Golf Digest og Golf Magazine blöðunum sem fallegustu seinni níu holurnar í Þýskalandi og 11. brautin nefnd sú besta í landinu. Ekki amalegir dómar!

Þriðji 18 holu völlurinn heitir Stan Eby völlurinn. Hann er vinalegri en hinir í þeim skilningi að hann er talsvert viðráðanlegri fyrir þá sem eru komnir skemmra á veg í golfinu. Hann stendur hæst á svæðinu og þar er mesta útsýnið. Völlurinn þykir þó vera eitt best geymda leyndarmálið í Þýskalandi. Brautir eru víðar en þó eru margar glompur á brautum sem halda kylfingum við efnið á teigum en færri við flatir. Hann er par 71 og þótti það flottur að Ladies German Opna kvennamótið á Evrópumótaröðinini var opnunarmót vallarins.
Fyrir byrendur er gott að fara 9 holu völlinn MCEwan sem er opinn og þægilegur. Þar geta allir komið og spilað, þó þeir séu ekki með skráða forgjöf og eru að byrja í sportinu.

Golfverslun er á svæðinu þar sem úrvalið er ágætt og verðlagningin líka. Þá er 19. holan til fyrirmyndar. Það er ljúft að fara út fyrir klúbbhúsið í góðu sumarveðri og fá sér einn þýskan ískaldan á kantinum. Þeir kunna að brugga bjór þeir þýsku og þeim hefur farið mikið fram í gerð golfvalla.

Ofar má sjá eina brautina á Faldo vellinum en þetta er 11. brautin, par 3 á Palmer vellinum. Ein sú fallegasta á vellinum.

19. holan klikkar ekki á Sporting Club Berlin.

Smábátahöfnin og veitingastaðir.

Hluti hótelbyggingarinnar og 18. flötin á Palmer.

Þessi þýska vinkona okkar beið eftir því að við smelltum af henni mynd. Alvöru fyrirsæta í Berlín sem er stórskemmtileg borg.

Kylfingur.is/myndir og texti: Páll Ketilsson.