Faldo hannar golfvöll á Íslandi

Nick Faldo, sem hefur verið fenginn til að hanna heimsklassa golfvöll í nágrenni Þorlákshafnar, sagði á blaðamannafundi á Nordica hotel að hönnun golfvallar í Þorlákshöfn væri mjög spennandi verkefni og ein mesta áskorun sem hann hefur glímt við í hönnun golfvalla. Hann sagði að þessi völlur ætti eftir að vera mjög sérstakur, þá aðallega fyrir það að þar er svartur sandur og það yrði hans einkenni.

Hann sagði að um 30 þúsund golfvellir væru til í heiminum, en aðeins 120 þeirra væru strandvellir „Links“. Það er til að mynda engin strandvöllur í Bandaríkjunum og bandarískir kylfingar kæmu mikið yfir til Evrópu til að upplifa það að leika strandvelli. Það væri því upplagt að stoppa hér á Íslandi á leið yfir hafið til að leika golf á heimsklassa strandvelli.

Faldo var mjög heillaður af vallarstæðinu og sagði að þarna væru miklir möguleikar á að nýta náttúruna við gerð vallarins. Grænar brautir og flatir, náttúrulegar svartar sandgryfjur og hvítur golfboltinn, ásamt hafinu bláa, gera völlinn mjög sérstakan. Faldo taldi að völlurinn ætti fullt erindi sem einn af keppnisvöllunum á evrópsku mótaröðinni í framtíðinni.

Nick Faldo stofnaði fyrirtækið Faldo Design árið 1991 sem er leiðandi alþjóðlegt golfvallarfyrirtæki. Megin markmiðið er að hanna framúrskarandi golfvelli í hverri heimsálfu. Nú þegar hefur Faldo Design hannað golfvelli í 12 löndum og nú er verið að vinna í völlum í Norður-Ameríku, Evrópu, Ástralíu, Karabíska hafinu og í Kyrrahafseyjunum. Vellir Faldo hafa mælst mjög vel fyrir og m.a. var Chart Hills kosinn besti nýji völlurinn á Englandi og Sporting Club í Berlín besti nýji völlurinn í Evrópu hjá Golf World.

Stofnkostnaður um 800 milljónir

Áætlaður stofnkostnaður er um 800 milljónir króna og er gert ráð fyrir opnun vallarins verði á hausmánuðum 2008. MP Fjárfestingarbanki mun halda utan um fjárhagslega þáttinn og draga fjárfesta að þessu verki. Hvergi verður til sparað og metnaður verður lagður í gerð fyrsta flokks golfaðstöðu með úrvals klúbbhúsi og annarri lúxus aðstöðu.

Það er nýstofnað einkahlutafélag, Golf ehf., sem stendur að byggingu vallarins. Að sögn Margeirs Vilhjálmssonar, eins af eigendum Golfs ehf. er hugmyndin að byggja völl í hæsta gæðaflokki sem gæti hýst golfmót atvinnumanna. Samhliða verður byggt æfingasvæði, golfskáli og gistiaðstaða. Golf efh. hefur þegar undirritað samninga við Sveitarfélagið í Ölfusi og eigendur Hraunstorfunnar í Ölfusi varðandi leigusamninga á landi.

Margeir sagði að settur yrði á fót golfklúbbur sem verður rekinn á viðskiptalegum forsendum, sem er nýtt í íslensku golfi. „Með öðrum orðum þá er hugmyndin að stofna einkaklúbb með takmörkuðum fjölda félaga. Þannig hyggjumst við tryggja aðgengi að vellinum og að klúbbfélagar eigi að geta spilað golf þegar þeim hentar, en eins og allir vita þá er töluverður ágangur á golfvelli landsins í dag og oft erfitt að fá rástíma. Gert verður ráð fyrir því að einstaklingar geti keypt sig inn á völlinn án þess að vera félagar í klúbbnum en vallargjald verður töluvert hærra heldur en gengur og gerist á íslenskum völlum og mun frekar taka mið af sambærilegum völlum í Evrópu. Þetta eru hins vegar allt útfærsluatriði sem við munum festa í sessi á byggingartímanum en áætlaður opnunartími er á haustmánuðum 2008, en þá verður Nick Faldo einmitt fyrirliði Evrópu í Ryder keppninni,“sagði Margeir.

Skapa nýjar víddir

„Þessi hugmynd, að byggja golfvöll í heimsklassa, hefur verið lengi að byggjast upp í okkur sem stöndum að Golfi ehf. Allar aðstæður eru til fyrirmyndar í Ölfusi. Það er til að mynda engin “Links” völlur til í Ameríku og flestir eru þeir á ströndum Skotlands og Írlands. Af þessum 120 “Links” völlum eru, eftir okkar bestu vitund, aðeins tveir með svörtum sandi. Af þessu má sjá að “Links” völlur á Íslandi með svörtum sandi er einstakt í hinum stóra golfheimi,“ sagði Margeir.

Hann sagði að framundan hjá Golfi ehf. væri er að finna fjárfesta til að klára fjármögnunina á þessu verkefni „Við erum gríðarlega spenntir fyrir þessu verkefni sem mun án efa auka breiddina í íslensku golfi og skapa nýjar víddir í því samhengi,“sagði Margeir.

Sjá myndasyrpu af heimsókn Faldos.

Mynd/Kylfingur.is: Myndir frá blaðamannafundinum í dag. Á neðri myndinni er Margeir Vilhjálmsson með Nick Faldo.

.