Desert Springs á Spáni

Íslenskum kylfingum býðst nýr kostur í golfferðum til útlanda frá og með næsta hausti. Sænska fyrirtækið Nordpoolen Golf sem Sturla Höskuldsson, golfkennari starfar hjá mun bjóða Íslendingum golf og gistingu á glæsilegu golfsvæði sem heitir Desert Springs á Spáni. Sturla sem hefur starfað hjá fyrirtækinu síðan í ársbyrjun 2011 segir að lengri og ódýrari golfferðir, sérstaklega hjá eldri kylfingum (60 ára og eldri) sé mest vaxandi golfferðamáti á Norðurlöndum.

Nordpoolen Golf fyrirtækið var stofnað af sænskum hjónum árið 2005 og hefur starfsemi þess vaxið úr því að farþegar voru tólf kylfingar í upphafi í yfir 900 gesti tímabilið 2012 til 2013. Nýr eigandi tók við fyrirtækinu í upphafi árs, Johan Persson, PGA-golfkennari frá Svíþjóð. Nordpoolen býður golfferðir á fjóra golfvelli á Almería svæðinu á suðausturströnd Spánar.

Lengri ferðir vinsælar á Norðurlöndum

Nordpoolen Golf er næst stærsti söluaðili á svokölluðum Longstay ferðum á Norðurlöndum en það eru ferðir sem eru einn mánuður eða lengri. „Þessi ferðamáti hefur fallið gríðarlega vel í kramið hjá kylfingum á Norðurlöndum en Svíar hafa þó verið lang stærsti hópurinn en Danir og Norðmenn hafa einnig verið drjúgir. Ég og Kristín Hólm Þórleifsdóttir, eiginkona mín, höfum starfað með tveimur öðrum starfsmönnum fyrirtækisins undanfarin ár á Roquetas de Mar golfvellinum á Suðaustur-Spáni. Þar hafa gestir okkar leikið golf og gist á hótelum í nágrenni hans. Konseptið er sem sagt lengri ferðir en Íslendingar eiga að venjast, þ.e. frá mánuði og upp í þrjá, sumir eru jafnvel lengur. Kostnaður við lengri ferðir er hlutfallslega miklu lægri. Fólkið gistir í hótelíbúðum og hefur þannig möguleika á að útbúa sjálft sinn mat en hefur líka kost á að fara á marga veitingastaði á svæðinu. Veðrið er frábært á Suðaustur-Spáni þannig að gestir njóta golfs og góðs aðbúnaðar á verði sem það hefur ekki séð áður,“ segir Sturla í viðtali við Golf á Íslandi.

Sturla segir að fyrirtækið bjóði ekki flugferðir. Fólk sjái sjálft um það í samræmi við sinn dvalartíma enda séu margir möguleikar í boði á ferðum til Alicante og Almería, t.d. frá London Gatwick. Í haust kom upp hugmynd um að bjóða Íslendingum ferðir á annað svæði hjá Nordpoolen Golf, Desert Springs, en það er glæsilegt golfsvæði í um tveggja klukkustunda akstursfjarlægð frá Alicante flugvelli. „Þetta svæði var opnað fyrir tíu árum og býður upp á allt það besta fyrir kylfinga, frábæran eyðimerkurgolfvöll, þann eina í Evrópu. Á vellinum eru t.d. yfir 600 kaktustegundir sem umlykja völlinn en þær voru fluttar inn frá Texas í Bandaríkjunum. Völlurinn er skemmtilegur og krefjandi en þó alls ekki erfiður og hann er t.d. þægilegur á fótinn. Aðstæður til golfleiks eru frábærar allt árið en þarna er veðurfarið eins og það gerist best í Evrópu með yfir 320 sólardögum á ári.“

Íbúðir umhverfis völlinn

Æfingaaðstaða á Desert Springs er mjög góð; „driving range“ þar sem slegið er á grasi, vippaðstaða og púttflöt. Á svæðinu er veglegt klúbbhús með veitingastað, golfverslun, búningsherbergjum og lítilli verslun þar sem hægt er að kaupa nauðsynjar í íbúðina. Á svæðinu er einnig líkamsræktarstöð, hjóla- og göngustígar, tennisvellir, sundlaugar og fleira til afþreyingar. Umhverfis golfvöllinn eru glæsilegar íbúðir og hús, allar byggðar á árunum 2002 til 2005.

„Það er ekki nema 2 klukkustunda akstur frá Alicante en næstu stóru borgir eru Almería í suður og Murcia í norður. Rétt við Desert Springs eða um 5 km frá er lítill bær og góð strönd rétt hjá. Þetta er alveg frábært svæði sem við viljum sjá Íslendinga sækja. Landinn er kröfuharður og ég er alveg viss um að hann mun njóta sín á Desert Springs. Vinsældir ferða Nordpoolen Golf stafa m.a. af lágu verði, góðri þjónustu og miklu golfi. Við erum með rástíma milli kl. 10 og 12 sem er frábært  en við höldum líka mót í hverri viku og Norðurlandabúar hafa kunnað mjög vel að meta það. Fólkið kynnist þannig öðrum kylfingum,“ segir Sturla.

Sturla segir að gestir gisti allt frá einum mánuði og upp í sjö og því lengur sem fólk gisti þá sé hver mánuður ódýrari. „Við ætlum að bjóða Íslendingum líka styttri ferðir á sama lága verðinu, tvær vikur, annað hvort fyrri tvær vikur hvers mánaðar eða þær seinni. Þá munum við einnig bjóða klæðskerasniðnar ferðir fyrir hópa. Svæðið er líka kjörið fyrir æfingahópa. Á svæðið koma reglulega unglinga- og keppnishópar t.d. ensku, skosku og írsku landsliðin.“

Vin í eyðimörkinni

Desert Springs golfvöllurinn er sannkölluð vin í eyðimörkinni. Umhverfið er sérstakt en einstaklega fallegt. Völlurinn er hannaður af Englendingnum Peter McEvoy. Ótrúlega grænt grasið sker sig út í eyðimerkurumhverfinu. Flatirnar eins og teppi og teigarnir í topp gæðum og sama má segja um eðalgrænar brautirnar. Völlurinn er hæfilega langur en verðlaunar þá sem eru beinskeittir. Hann er par 71 og með skemmtilega blöndu af golfholum. Bestu brautirnar af mörgum skemmtilegum eru 7. hola og 15. hola.Féll fyrir golfkennaranáminu

Sturla lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Sund 1995 en hann gerðist golfkennari fyrir rúmum áratug eftir nám í San Diego Golf Academy í Bandaríkjunum frá 1999 til ársins 2000. Hann tók einnig PGA-golfkennaranámið á Íslandi 2006-2009. Hann segist aldrei hafa verið keppnismaður í fremstu röð á Íslandi en féll fyrir golfkennaranáminu og það átti vel við hann.

Sturla hefur á þessum árum starfað sem golfkennari í Svíþjóð, Englandi, Íslandi og á Spáni  en hóf ferilinn árið 2000 sem aðstoðargolfkennari í Jonkoping golfklúbbnum í Svíþjóð. Hann sinnti sömu stöðu í Kent á Englandi ári síðar en svo komu nokkur ár heima á Íslandi. Sturla kenndi golf hjá GKG og Oddi en var síðan í fjögur ár „allt í öllu maður“ á Ekkjufellsvelli á Fljótsdalshéraði.

Eftir ævintýri á Héraði þar sem Kristín kona hans er fædd og uppalin, var haldið á vit nýrra ævintýra í Svíþjóð. Hann sótt um starf hjá Torreby golfklúbbnum í Munkedal í Svíþjóð sem hann og fékk og var þar golfkennari ásamt því að reka golfverslun og æfingasvæði næstu fjögur árin.

„Það var í gegnum veru mína í Svíþjóð sem ég komst í tengsl við Nordpoolen Golf. Hjá Torreby var frí yfir veturinn og því vantaði verkefni frá hausti og fram á vor þegar Svíarnir voru ekki að spila golf á heimaslóðum. Það má segja að ég hafi fylgt þeim í sólina á Spáni,“ segir Sturla. Kristín kom með honum og sinnir skorskráningu og ýmsu fleiru hjá fyrirtækinu.

Sturla segir Svíana ólíka Íslendingum að sumu leyti. Til dæmis séu þeir mun skipulagðari en að sama skapi kannski ekki eins afslappaðir og Íslendingar.

Í svona lengri ferðum myndast góð tengsl milli fólks og það sá fréttamaður kylfings.is þegar hann heimsótti Sturlu og Kristínu til Spánar um páskana. Farþegarnir voru greinilega í miklum tengslum við íslensku hjónin. „Það er góður andi í hópunum sem myndast auðveldlega í lengri ferðum. Við erum að hitta þetta fólk á hverjum degi og leggjum mikla áherslu á að veita þeim góða þjónustu. Þegar fólkið er ekki í golfi er ýmis önnur afþreying sem við bjóðum upp á. Það hefur lukkast mjög vel. Megnið af okkar gestum er fólk sem er um og yfir 60 ára sem ræðst aðallega af því að þetta eru lengri ferðir. Þetta fólk er að megninu til hætt að vinna og nýtur lífsins á efri árum í golfi.

„Við erðum á Íslandi í sumar og fram á haust. Ég mun kynna íslenskum kylfingum þessa nýjung í golfferðamálum í sumar, ekki síst hjá LEK sem er stór markhópur hjá okkur en auðvitað einnig fleirum,“ sagði Sturla.

Á heimasíðu fyrirtækisins www.nordpoolen.nu er hægt að sjá allar upplýsingar og verðlista og bókanir fara þar fram. Upplýsingar og fyrirspurnir fyrir íslenska kylfinga má fá í gegnum netfangið sturla@nordpoolen.nu

Verðdæmi: 1 mánuður (íbúð og ótakmarkað golf) á Desert Springs frá 1.200 evrum á mann m.v. tvíbýli. Hálfur mánuður (íbúð og ótakmarkað golf) frá 600 evrum á mann m.v. tvíbýli.

Öll þægindi, fullútbúið eldhús, 1-2 svefnherbergi, 1-2 baðherbergi, internet, sjónvarp, þvottavél, uppþvottavél, sér bílastæði, sundlaug, útsýni o.s.frv.

Innifalið í verði NP: Gisting (íbúðir) – golf (3 daga vikunnar eða ótakmarkað) – Þjónusta (Íslensk fararstjórn, skipulagðir rástímar, golfmót, golfkennsla, skoðunarferðir, kvölduppákomur. NP mælir sterklega með því að fólk leigi sér bílaleigubíl á meðan á dvölinni stendur og getur aðstoðað fólk með það.)

Verð á þríréttuðum kvöldverði á veitingastað 17,50 evrur.

Séð yfir hluta æfingasvæðisins, klúbbhús og 18. braut.

Klúbbhúsið og 18. brautin í baksýn.

Sólbaðsaðstaða og sundlaugar við allra hæfi.

Séð inn í eina íbúðina en gistimöguleikar eru glæsilegir og fjölbreyttir á Desert Springs.

Golfverslun og veitingaaðstaða er til fyrirmyndar.

Sturla slær hér á 2. teig.

Starfsmenn Nordpoolen við verðlaunaafhendingu.

Slegið á 1. teig á Dersert Springs vellinum.