Budersand Sylt

Budersand - Sylt 

Þýskaland hefur á allra síðustu árum náð að festa sig í sessi sem áhugaverður kostur í golfferðamennsku. Margir glæsilegir golfvellir eru í Þýskalandi og það er óhætt að segja að Budersand á eyjunni Sylt skeri sig algjörlega úr í samanburði við aðra velli í Þýskalandi. Sylt er þekkt stærð hjá Þjóðverjum og eitt best geymda leyndarmál þeirra – þrátt fyrir að 800.000 ferðamenn heimsæki eyjuna árlega.

Kylfingur.is heimsótti eyjuna s.l.sumar Sylt þar sem að leikið var á einum glæsilegasta strandvelli Evrópu – Budersand. Fleiri golfvellir eru á Sylt og er hægt að finna góð tilboð þar sem að í boði er að leika á mörgum völlum á nokkrum dögum fyrir sanngjarnt verð.

Hafist var handa við að byggja völlinn árið 2005 og sá Rolf-Stephan Hansen um hönnun vallarins og er óhætt að segja að vel hafi tekist til. Rífa þurfti 40 byggingar, gamla olíutanka, en mikið af hermannavirkjum var á svæðinu sem þurfti að fjarlægja. Sylt var á sínum tíma einn af uppáhaldsdvalarstöðum Adolfs Hitlers. Í síðari heimsstyrjöldinni var gríðarlegur fjöldi hermanna á eyjunni og það var einn af  draumum Hitlers að ráðast á England frá eyjunni Sylt.

Völlurinn var tekinn í notkun árið 2008 – en hann er staðsettur á syðsta hluta eyjarinnar. Markmiðið var að gera „ekta“ strandvöll sem gæfi þeim allra bestu á Bretlandseyjum ekkert eftir. Það er hægt að undirstrika að það tókst.

Árið 2009 fékk Budersand viðurkenningu sem besti nýi golfvöllur Þýskalands hjá tímaritinu Golf Digest þar í landi. Árið 2010 og aftur 2012 fékk Budersand viðurkenningu fyrir að vera einn af þremur bestu golfvöllum Þýskalands. Framkvæmdirnar við völlinn kostuðu sitt eða sem nemur um 3 milljörðum kr.

Alls eru fjórar gerðir af teigum á Budersand. Öftustu teigar eru hvítir, alls 6.020 metrar, bláir koma þar næst 5.403 m, rauðir 5.292 m, og appelsínugulir 4.965 m. Par vallarins er 72 og skipting brauta er hefðbundin – fjórar par 5 brautir, fjórar par 3 og tíu par 4.

Það má ekki búast við öðru en roki á Sylt – Þjóðverjar elska að anda að sér sjávarloftinu á þessari eyju, og greiða stórfé fyrir slíka upplifun. Vindurinn er ávallt í aðalhlutverki á Budersand vellinum. Sumir elska vindinn aðrir hata hann – þannig er lífið.

Upplifun kylfinga á Budersand er einstök – þar hefur tekist vel til að búa til svipað andrúmsloft og einkennir þekkta strandvelli á Bretlandseyjum. Enginn dagur er eins á golfvellinum þar sem að náttúruöflin sjá ávallt til þess að nýjar áskoranir þarf að leysa á hverjum degi. Budersand er eini alvöru „links“ golfvöllur Þjóðverja og þeir eru ákaflega ánægðir með hversu vel hefur tekist til við hönnun vallarins og það góða umtal sem hann hefur fengið hjá gestum. Sandhólarnir, sem eru helsta einkenni Sylt, njóta sín vel á golfvellinum – og falla vel inn í heildarmyndina.

Þegar staðið er á fyrsta teig vallarins vakna strax upp spurningar hvernig best sé að slá upphafshöggið. Það er ekki nóg að hitta brautina sem er þvengmjó, það þarf líka að hitta rétta staðinn þannig að boltinn fari ekki í eina af fjölmörgum brautarglompum sem eru út um allt.

Það eru fjölmargar brautir sem eru eftirminnilegar og standa upp úr. Sérstaklega par 3 brautirnar þar sem flatirnar eru umkringdar sandhólum. Á síðari níu holunum eru tvær stórskemmtilegar par 3 brautir, sú 13. og 15. sem sitja eftir í minningunni. Við 15. flöt er útsýnispallur fyrir útivistarfólk og er oft fjölmenni þar sem fólk fylgist einnig með tilþrifum kylfinga.

Fleiri glæsilegar brautir eru á þessum velli og þar má nefna lokaholuna sem býður upp á ýmsa möguleika – og það er glæsilegt að horfa upp að golfhótelinu frá brautinni.

Flatirnar á Budersand eru gríðarlega hraðar þrátt fyrir að flatirnar séu slegnar í 5,5 mm hæð þá bregst grasið við með þeim hætti að flatirnar virðast vera slegnar í 3 mm hæð – en grastegundn er túnvingull eða fescue. Að meðaltali er hraðinn á flötunum 10-10,5 á stimpmetra og hraðinn eykst verulega þegar vindurinn er tekinn með í reikninginn.

Æfingasvæði er við golfhótelið,  og er aðstaðan góð fyrir stutta spilið og pútt. Ekki er hægt að slá löng högg á æfingasvæðinu – en að öðru leyti er aðstaðan til fyrirmyndar.

Budersand golfvöllurinn er einstakur í sinni röð og vel þess virði að gera sér ferð á þessa frábæru eyju, til þess að upplifa stórkostlegan golfvöll í mjög sérstöku umhverfi.

Frábært fyrsta flokks golfhótel

Golfhótelið Bundersand Golf & Spa stendur við völlinn og er það fyrsta flokks. Við hönnun hótelsins var lögð áhersla á að það myndi falla vel inn landslagið og er hönnun þess nútímaleg – einfaldleikinn er samt sem áður í fyrirrúmi og áhrif frá skandinavískum hönnuðum áberandi. Glæsileg aðstaða er á hótelinu fyrir gesti sem vilja njóta lífsins og slaka á – fyrsta flokks heilsulind, æfingasalur og fyrirtaks veitingastaðir. Alls eru 79 herbergi á hótelinu – hvert öðru glæsilegra.

Veitingahúsið Strönholt á golfvellinum sjálfum er í hæsta gæðaflokki. Þar er frábært útsýni yfir völlinn og höfnina sem er þar rétt hjá. Kylfingar eru ekki þeir einu sem nýta sér veitingastaðinn sem er einnig gríðarlega vinsæll á meðal þeirra sem njóta útivistar í næsta nágrenni við Budersand.

Gott mannlíf, veitingastaðir og stráþök

Eitt af helstu einkennum Sylt er að flest húsin eru með stráþökum og þeim er vel við haldið. Það eina sem skyggir á glæsilega heildarmynd eyjarinnar eru nokkrar steyptar byggingar sem voru örugglega góð hugmynd þegar þær voru reistar á árunum í kringum 1980 – en þær eldast ekki vel og setja ljótan svip á miðbæinn.Það má segja að Sylt sé samansett úr 12 bæum sem liggja víðsvegar um eyjuna. List, Kampen, Wenningstedt-Braderup og Westerland eru þar stærstir og mesta mannlífið er á þeim stöðum. Það ætti engum að leiðast á Sylt því gríðarlegur fjöldi veitingastaða er á eyjunni og það er nóg um að vera fyrir þá sem vilja skemmta sér í góðra vina hópi.

www.gc-budersand.de

www.die-golfinsel-sylt.de

Hvernig kemstu til Sylt?

Bifreið: Panta þarf pláss fyrir bílinn í lest sem fer frá Niebüll – og það tekur um 40 mínútur að fara yfir til Sylt.

Ferja: Frá bænum Rømø‎ í Danmörku er hægt að taka ferju og sú ferð tekur um 40 mínútur.

Lest: Það eru margar leiðir með lest til Sylt en lokahnykkur ferðarinnar er ávallt frá Niebüll.

Flugvél: Það er einfaldasta leiðin til Sylt að fara með flugi og margir kostir í boði. Lufthansa og Airberlin fljúga reglulega til Sylt og eru litlar skrúfuvélar notaðar.

Staðreyndir um Sylt

Sylt er stærsta þýska eyjan í Norðursjó en eyjan verður seint talin vera stór – rétt um 35 km á lengd og mesta breidd eyjunnar er um 10 km.

Talið er að eyjan hafi orðið til fyrir um 8000 árum.

Hægt er að ferðast út í eyjuna með lest en teinarnir liggja yfir svokallað Hindenburgdamm. Hægt er að taka bifreið með út í eyjuna og þarf að koma farartækinu á lestarvagn því enginn vegur er til Sylt.

Sylt er þekktur sumardvalarstaður og er fermetraverð á fasteignum þar með því hæsta sem þekkist í Evrópu.

Um 20.000 hafa fasta búsetu í Sylt en á hverjum degi ferðast um 4.000 manns til og frá vinnu á milli meginlandsins og Sylt. Hátt íbúðaverð gerir það að verkum að margir geta ekki búið á eyjunni.

Á hverju ári ferðast um 850.000 manns til eyjarinnar og er rými fyrir 58.000 í gistingu á sama tíma.

Það eru nánast engar líkur á því að það sé logn á Sylt – eða 1% líkur.