Breytingar á Hólmsvelli fyrir Íslandsmótið

Íslandsmótið í höggleik fer fram á Hólmsvelli í Leiru í júlí í sumar. Golfklúbbur Suðurnesja ætlar að leggja mikinn metnað í mótið og standa að því með miklum myndarskap. „Markmiðið er að gera mótið hið glæsilegasta í alla staði, hvað varðar umgjörð fyrir áhorfendur og keppendur,“ sagði Gylfi Kristinsson, framkvæmdastjóri GS. Ákveðið hefur verið að þyngja völlinn og verður honum breytt í par 70 í stað par 72. Tveimur par-5 brautum, fyrstu og fjórtándu, verður breytt í par-4 og þrjár aðrar brautir lengdar. Gert er ráð fyrir að keppendur verði um 150 talsins.
Gylfi framkvæmdastjóri segir um breytingarnar á vellinum: „Fyrstu brautinni verði breytt, hún fer úr því að vera 477 metrar par-5 braut niður í 430 metra langa par-4 braut. Þá verður 14. brautinni breytt í par-4 og verður 431 metri. Fimmta brautin verður lengd upp í 400 metra, en hún hefur verið 360 metrar. 10. brautin lengist um 20 metra og þá verður teigurinn hækkaður. Þrettánda brautin, sem er par-3, lengist um 35 metra og verður 215 metrar. Þessar breytingar gera völlinn enn meira krefjandi en áður.“
Gylfi segir að allt verði gert til að lyfta Íslandsmótinu upp á hærra plan en áður hefur þekkst. Á fjórum stöðum á vellinum verða sett upp tjöld þar sem keppendur geta fengið sér drykk og ávexti á meðan keppni stendur. Allir keppendur fá veglegar teiggjafir og miða á lokahóf. Í klúbbhúsinu verða fjórir stórir skjáir þar sem hægt verður að fylgjast með skori keppenda, einnig verður skor fært upp á stóra töflu utandyra. Þá er stefnt að því að gefa út fréttabréf eftir hvern keppnisdag með viðtölum við keppendur og fleira í þeim dúr. Bein sjónvarpsútsending verður frá tveimur síðustu hringjunum og þá verður hægt að fylgjast með skori keppenda holu fyrir holu á netinu.

„Við ætlum að gera þetta með stæl. Það er búið að vinna mikið að undirbúningi fyrir mótið og nú er farið að sjá fyrir endann á þeirri vinnu og komið að því að framkvæma. Völlurinn verður í toppstandi í sumar og skartar vonandi sínu fegursta í kringum Íslandsmótið,“ sagði Gylfi.
Þá er verið að vinna að því í samstarfi við verkfræðistofuna Hönnun að búa til þrívíddar grafík af hverri einustu holu á vellinum. Þar verður hægt að sjá brautirnar og hæðarmun á þeim og eins öll brot í flötum. Þessar myndir verða síðan aðgengilegar á netinu og hægt að nota í útsendingu sjónvarps.

Mynd: Kylfingur/Valur: Gylfi Kristinsson, framkvæmdastjóri GS, hefur í mörgu að snúast þessa dagana við undirbúning fyrir Íslandsmótið, sem fram fer á Hólmsvelli í Leiru.