Andlitslyfting á Jaðarsvelli

Jaðarsvöllur á Akureyri er nú í miðri andlitslyftingu. Unnið er við endurbyggingu á þremur flötum og þegar því verki lýkur í vor hafa sjö holur á vellinum fengið andlitslyftingu. Að sögn Edwins Rögnvaldssonar golfvallaarkitekts, sem er höfundur að breytingunum er megintilgangurinn að endurnýja flatirnar, stækka þær og byggja upp með nútímalegri vinnubrögðum. Reynslan af 11. braut sem tekin var í notkun sumarið 2004 lofar góðu, en það var tilbúið mánuði fyrr en flestar aðrar flatir vallarins í fyrravor. Gert er ráð fyrir að flatirnar verði flestar um 5-600 fermetrar að flatarmáli eftir breytingar.

Stóri boli endurvakinn?

Eftir breytingar er ráðgert að völlurinn styttist af klúbbteigum karla og kvenna. Völlurinn af gulu teigunum þegar öllum framkvæmdum verður lokið verður 5475 metrar, rúmum 100 metrum styttri en fyrir breytingar. Þá vekur athygli að völlurinn frá rauðum teigum styttist um 422 metra.

Meistaraflokkskylfingar þurfa hins vegar að hafa meira fyrir parinu. Völlurinn af bláum teigum lengist í 5131 metra (+159 m) og þeir hvítu í 5933 metra (+154 m). Meðal annars verða hvítu teigarnir á holum 7. og 9. fluttir í fyrra horf. Mesta athygli vekur samt tilkoma nýrra teiga – svörtu teiganna sem eru hugsaðir sem áskorun fyrir þá allra bestu. Líklega verða svörtu teigarnir mesta þrekraun sem íslenskir kylfingar geta tekist á við enda verður völlurinn 6190 metrar.

,,Ég er viss um að Toyota-mótaröðin og á Íslandsmótum þá verði þessir teigar notaðir, en ég á frekar von á því að á klúbbmeistaramótinu verði notast við hvítu teigana án þess þó að ég stjórni því. Svörtu teigarnir eru fyrir afreksmenn og varla við hæfi þeirra sem eru með þrjá og fjóra í forgjöf. Þetta er nokkuð í takt við það sem gerist víða erlendis. Með þessu vil ég líka hvetja til að við opnum huga okkar betur gagnvart því hvernig við veljum okkur teiga. Það er auðvitað ekki rökrétt að nánast allir karlkylfingar leiki af sömu teigum frá 5 í forgjöf og uppúr. Ég sé fyrir mér að karlar með allt upp í 10 í forgjöf geti fengið mun áhugaverðari viðfangsefni að glíma við með því að nota hvítu teigana og ættu að geta notað þá til að bæta leik sinn. Rauðu teigarnir verða færðir fram til að gera völlinn meira spennandi fyrir meðalkylfing úr röðum kvenna,” segir Edwin.

Á árum áður, fyrir þrjátíu til fjörutíu árum gekk Jaðarsvöllurinn, sem þá var níu holur, undir viðurnefninu ,,Stóri-boli” vegna lengdar sinnar, en þrátt fyrir að ýmsar framfarir í útbúnaði og boltum og betri vallaraðstæðna eru margar brautir vallarins styttri en hann var á þeim tíma. Kannski er því kominn tími til kominn að bjóða upp á slíka lengd, en líklega mundi hugtakið ,,par” öðlast nýja merkingu fyrir marga sem reyndu fyrir sér á svo löngum velli.. ,,Ég held að það geti verið gaman af því að endurvekja það orðspor sem fór af vellinum í gamla daga,” segir Edwin og bendir á að síðustu fjórar brautirnar á fyrri níu holunum eigi eftir að reyna á þolrifin. Sjötta brautin verður samkvæmt skipulagi 222 metra par þrjú hola og í framhaldinu koma þrjár gríðarlega erfiðar holur. Sjöunda brautin verður 421 metri í hundslöpp með innáhögg upp í móti, sú áttunda 408 metrar og níunda holan 404 metrar upp í móti.

Vötn eru áberandi á teikningum Edwins af Jaðarsvelli
Áætlanir golfklúbbsins og teikningar Edwins bera þess marki að Akureyringar hafa sett markið hátt. Auk endurbyggingar á flötum og lagfæringar á brautum stefnir klúbburinn að byggingu tveggja æfingaflata sem samtals verða eitt þúsund fermetrar að flatarmáli við hlið 1. teigs. Grisjun, flutningur og gróðursetning trjáa er einnig á dagskrá. Meðal annars er ætlunin að gróðursetja tré á milli 15. og 16. brautar auk þess sem ætlunin er búa til meira skjól fyrir norðangarranum, með því að planta trjám norðan við margar flatir. Vötn eru áberandi á teikningu Edwins af Jaðarsvelli, en þau munu þjóna þeim tilgangi að taka við stórum hluta þess yfirborðsvatns, sem annars sæti fast á brautunum auk þess að vera hindranir og fegrunarauki.

“Mönnum er tíðrætt um þessa nýju teiga og hvernig völlurinn mun verða út frá sjónarhóli afrekskylfinga og lágforgjafarfólks, en það sem mestu máli skiptir er að hinn almenni kylfingur fái notið leiksins sem best. Brautir að Jaðri hafa jafnan verið fremur breiðar og verða það áfram. Það gefur svigrúm til að bjóða kylfingum upp á valkosti og eykur vægi staðsetningar, auk þess sem flestir kylfingar elska að fá að láta vaða í teighöggunum. Eigi að síður þarf að búa ögn meira að baki ef árangur á að nást, því hinar nýju flatir eru t.d. hannaðar til að verðlauna þeim sem hugsa áður en þeir slá.”

Hægt er að nálgast teikningar af framtíðarskipulagi vallarins á skjali á acrobat-formi á vefsvæði Edwins. Slóðin er: http://www.golfvellir.is/iw_cache/395_GAA35des05.pdf


Breytingarnar í ár

6. braut
Flötin verður rúmlega 600 fermetrar að stærð eftir breytingar en hún stækkar til vinstri og afturkanturinn verður lækkaður. Þrjár nýjar sandgryfjur verða aftan við og munu eflaust forða of löngum innáhöggum frá því að enda í óræktinni. Holan verður 181 metrar af lengd, nokkurn veginn það sama og nú. Vilyrði hefur fengist fyrir því að klúbburinn fái afnot af landssvæði utan núverandi vallarmarka til að koma fyrir svörtum teig. Hann verður í 222 metra fjarlægð frá holu og hún verður því lengsta par 3 hola landsins.

7 braut
Breytingar miðast við að koma í veg fyrr að aðkomuvatn safnist fyrir neðst í brekkunni fyrir framan flötina. Framkvæmdir hafa staðið yfir á sextíu metra kafla fyrir framan flötina. Brekkan verður meira aflíðandi eftir breytingar og yfirborð brautarinnar verður hækkað á kafla. Flötin stækkar um nokkra tugi fermetra og yfirborð hennar breytist nokkuð.

18. braut
Flötin stækkar úr tæpum 200 fermetrum í um það bil 450 fermetra og halli flatarinnar minnkar þótt landslag hennar verði fjölbreyttara. Gert er ráð fyrir að holan verði 135 metrar af gulu teigunum eftir breytingar, sjö metrum styttri en hún er nú en það stafar af stækkun flatarinnar í átt af teig. Örfá tré verða fjarlægð til að auka útsýni frá skálanum og í framtíðinni er gert ráð fyrir hólum hægra megin við brautina fyrir áhorfendur.
Myndir: Efsta myndin er tekin yfir 18. flötina sem stækkar og hallinn minnkar. Myndin var tekin fyrir nokkrum dögum. Önnur myndin er af nýrri 11. flöt. Breytingarnar á henni hafa komið mjög vel út. Gamla flötin var aðeins rúmir 100 fermetrar að flatarmáli og bauð ekki upp á mikla möguleika en sú nýja er 450 fermetrar að stærð. Þriðja myndin er af 16. braut og neðsta myndin er tekin frá 10. flöt og yfir á 11. brautina.