18 holu golfvöllur vígður að Hamri

Sunnudaginn 2. júlí var formlega opnaður nýr 18 holu golfvöllur að Hamri í Borgarbyggð, sem er annar völlurinn af þessari stærð á Vesturlandi, hinn er á Akranesi. Víxlan var táknræn því heiðursfélagi klúbbsins og einn af stofnendum hans, Albert Þorkelsson, sló fyrsta höggið. Albert verður 85 ára í sumar og spilar golf alla daga ársins. Hann var ekki langt frá því að fara holu í höggi eftir upphafshöggið á fyrsta teig, boltinn rétt rúllaði framhjá holunni.

Golfklúbbur Borgarness var stofnaður 21. janúar 1973 og árið 1975 var undirritaður samningur við Borgarneshrepp, sem nú er Borgarbyggð, um land undir níu holu golfvöll að Hamri. Það var síðan árið 1978 að klúbburinn fékk húsið að Hamri til afnota sem þá var í döpru ásigkomulagi, en klúbbfélagar hafa tekið það alveg í gegn.

Árið 1992 var samið við Hannes Þorsteinsson, golvallarhönnuð frá Akranesi, um að gera tillögu að 18 holu golfvelli og hefði hönnun hans verið fylgt í meginatriðum síðan.

„Nú var sem sagt komið að stóru stundinni að opna þennan stórglæsilega völl sem við lítum á sem hluta af uppbyggingu ferðaþjónustu á svæðinu,“ sagði Guðmundur Eiríksson, formaður Golfklúbbs Borgarness, í ræðu sinni við opnun vallarins á sunnudag.

Jafnframt opnun vallarins á sunnudaginn var endurnýjað samkomulag milli Borgarbyggðar og Golfklúbbs Borgarness um áframhaldandi uppbyggingu á svæðinu og viljayfirlýsing um enn meiri rækt við unglingastarf hjá klúbbnum. Páll S. Brynjarsson sveitarstjóri sagði í sínu ávarpi að sveitarfélagið hefði ákveðið að setja fimmtíu milljónir í þetta verkefni á næstu tíu árum.

Myndir/Kylfingur.is: Albert Þorkelsson sló fyrsta höggið við vígslu vallarins á sunnudaginn. Á neðri myndinni má sjá þá Pál S. Brynjarsson, sveitarstjóra Borgarbyggðar og Guðmund Eiríksson, formann Golfklúbbs Borgarness, skrifa undir viljayfirlýsingu þess efnis að Borgarbyggð leggi 50 milljónir króna til áframhaldandi uppbyggingar á golfsvæðinu næstu tíu árin.