09.08.2015 17:32

Video: Dramatík og flottasta högg mótsins í bráðabana í úrslitaleiknum

Það var enn og aftur mikil dramatík í úrslitaleik sveitakeppni kvenna á Hólmsvelli í Leiru. Ragnhildur Kristinsdóttir, 18 ára Reykjavíkurmær, tryggði Golfklúbbi Reykjavíkur titilinn þegar hún lagði hina reynslumiklu Tinnu Jóhannsdóttur í bráðabana á 19. holu.

Hinar viðureignir úrslitaleiksins voru búnar þegar Tinna og Ragnhildur léku 18. brautina og staðan 2:2. Ragnhildur var með holu í forskot og dugði að jafna holuna. Þær voru báðar inn á flöt í þremur höggum en Ragnhildur misreiknaði fyrsta púttið, var alltof föst og þrípúttaði. Tinna púttaði fyrra púttið allof stutt en setti niður um 2 metra til að jafna Ragnhildi. Þær héldu beint á 1. teig í bráðabana um sigurinn, mögnuð spenna og fjör.

Þær áttu báðar ágæt upphafshögg. Tinna sló annaða höggið á undan og það tókst vel en boltinn endaði um 10 metra frá holunni en á neðri palli og það var því erfitt vipp eða pútt sem hún átti eftir. Ragnhildur var í karganum rétt utan brautar hægra megin en lá vel. Þar sló hún sennilega besta högg mótsins með 6-járni en boltinn lenti um 2 metra frá pinna og rúllaði um metra nær. Hún var því um metra frá í tveimur höggum á þessari par 5 braut. Tinna ákvað að vippa í stað þess að pútta og náði ekki nógu góðu höggi og endaði um 4 metra frá. Hún náði ekki að setja það pútt ofan í og fékk fimm högg. Hún játaði sig sigraða og gaf Ragnhildi púttið sem fagnaði með félögu sínum í liðinu.

Leikur Ragnhildur og Tinnu var eini leikurinn sem var jafn í úrslitaleik Keilis og GR. Mæðgurnar Ragnhildur Sigurðardóttir og Hildur Kristín Þorvarðardóttir unnu fjórmenninginn örugglega 7/6 gegn Sigurlaugu Rún Jónsdóttur og Hafdísi Öldu Jóhannsdóttur. Sunna Víðisdóttir vann Þórdísi Geirsdóttur 6/5 en svo lagði Anna Sólveig Snorradóttir Evu Karen Björnsdóttur 6/5 og Signý Arnórsdóttir vann Berglindi Björnsdóttur 4/3.

Fréttamaður kylfings.is fylgdist með fjörinu á lokaholunum og hér í meðfylgjandi myndskeiði er viðtal við Ragnhildi og myndir frá dramatíkinni í Leiru.

Bolti Ragnhildar um metra frá holu eftir annað höggið en Tinna hægra meginn á neðri palli.  Fögnuður GR-stúlkna var ósvikinn.