Hleð inn spilara...
14.08.2012 00:00

Rory í efsta sæti heimslistans

Rory McIlroy er efstur á heimslistanum í golfi í annað sinn á ferlinum eftir að hafa borið sigur úr býtum á PGA Meistaramótinu sem lauk á sunnudag. McIlroy vann glæsilegan átta högga sigur í PGA Meistaramótinu og hefur nú unnið tvö risamót á ferli sínum.

McIlroy er nú með 10,35 meðalstig á toppi heimslistans og veltir Luke Donald úr sessi í efsta sæti listans. Tiger Woods er í þriðja sæti. McIlroy setti jafnframt met í PGA Meistaramótinu með því að vinna mótið með átta höggum en fyrra met átti Jack Nicklaus frá árinu 1970.

McIlroy segist hafa svarað gagnrýnendum sínum með sigrinum um helgina. „Það voru nokkrir sem voru tilbúnir til að mála skrattann á vegginn. Ég held að ég hefði ekki getað svarað þeim með betri hætti. Ég vildi sanna mig og ég gerði það. Það tók mig fjórar vikur að koma leik mínum aftur á réttan stað og komst úr lægðinni. Það er ótrúleg tilfinning að getað kallað sjálfan mig tvöfaldan risameistara og komast í þennan fámenna hóp,“ sagði McIlroy.

Nánar má heyra í kappanum í myndbandinu hér að ofan.