24.07.2016 23:14

Birgir Leifur: Ætli reynslan hafi ekki haft sitt að segja

„Þessi titill er án efa einn af eftirminnilegustu af þessum sjö. Ég var ekki það langt frá forystusauðunum fyrir lokadaginn og vissi að erfiðar holustaðsetningar og taugar myndu spila inn í að skorið yrði hærra og það varð raunin,“ sagði Birgir Leifur Hafþórsson í sigurvímu eftir að hafa innbyrt sjöunda Íslandsmeistaratitilinn í höggleik á Jaðarsvelli á Akureyri. Þetta var sannkallaður reynslusigur hjá Birgi því hann var fjórum höggum á eftir tveimur efstu kylfingum fyrir lokadaginn.

„Reynslan hjálpaði mér án efa að innbyrða þennan sigur. Ég ímyndaði mér fyrir hringinn, verandi fjórum höggum frá efsta sæti að ef ég gæti endað á -8 eða -9 þá gæti ég alla vega dottið inn í umspila en svo dugði 8 undir og það var auðvitað frábært,“ sagði Birgir Leifur.

Forystusauðirnir Guðmundur Ágúst Kristjánsson GR, Bjarki Pétursson GOB voru á -7, höggi á eftir voru Axel Bóasson GK og Aron Snær Júlíusson GKG. Það gekk á ýmsu hjá þessum köppum í dag en sexfaldur meistari Birgir Leifur fór í gang á seinni níu og lék þær á þremur undir pari, fékk meðal annars fugla á 15. og 17. braut. Kom inn á -8. Axel og Bjarki þurftu síðan báðir að fá fugl á lokaholunni til að jafna við Birgi en tókst ekki. Bjarki var þó mjög nálægt því og boltinn endaði á holubrún eftir langt pútt á flötinni.

Kylfingsmenn voru með kamerur á Jaðarsvelli í dag og mynduðu m.a. Birgi Leif í stuði. Páll Ketilsson ræddi við kappann eftir hringinn.