Woods tekur sér hvíld frá keppnisgolfi næstu vikurnar

Bandaríkjamaðurinn Tiger Woods ætlar að taka sér hvíld næstu vikurnar frá keppnisgolfi eftir mót helgarinnar á Augusta National, Masters mótið.

Woods var þá meðal keppenda í risamótinu í fyrsta skiptið í þrjú ár en hann endaði í 32. sæti. Samtals lék hann hringina fjóra á höggi yfir pari og lék sinn besta hring á sunnudeginum þegar hann kom inn á þremur höggum undir pari.

Fríið sem Woods mun nú taka sér ætti ekki að koma mörgum á óvart en þetta hefur hann haft fyrir venju eftir Masters mótið.

„Eftir Masters mótið er venjan hjá mér að leggja kylfurnar frá mér og taka mér um þriggja til fjögurra vikna hvíld. Ég set kylfurnar inn í skáp og reyni að komast í frí frá öllu saman. Aðdragandi mótsins er erfiður, ég æfði mjög vel fyrir það.“

Woods er nú kominn upp í 88. sæti heimslistans og hefur ekki verið jafn ofarlega í langan tíma.

„Ég er nú búinn að leika í sex mótum frá því að ég kom til baka. Það er góð tilfinning að vera kominn aftur og að spila svona vel.“

Ísak Jasonarson
isak@vf.is