Woods segist klár í slaginn

Eins og greint var frá í gær voru líkurnar orðnar ansi miklar að Tiger Woods yrði á meðal keppenda á einu stærsta móti ársins á PGA mótaröðinni, Players Championship.

Nú hafa þær fréttir verið staðfestar af honum sjálfum en í viðtali fyrir mótið sagði Woods að honum liði vel núna og væri tilbúinn í slaginn.

„Allt er í góðu lagi, mér líður vel, ég þurfti bara frí um síðustu helgi. Vildi ekki gera þetta verra. Engin ástæða að taka einhverja áhættu á mínum aldri. Ég get ekki gert það lengur.“

Hann sagði einnig að hann hefði fundið fyrir eymslum í Mexíkó og hafi verið langt frá því að vera heill.

„Ég fann fyrir þessu í Mexíkó. Það var ekkert gaman, ég gat ekki sveiflað almennilega, hvorki aftur- eða framsveiflu. Ég gat ekki sveiflað venjulega.“

Það er vonandi að heilsan sé í lagi þar sem mörg stór mót eru á döfinni og líklegt að Woods muni leika í flestum þeirra.